mánudagur, september 24, 2007

Meiddur....

Ég er búinn að vera meiddur í ristinni síðastliðnar 2 vikur. Það finnst mér ekki gaman.... ég ætla þó að reyna að byrja að skokka létt í þessari viku.

laugardagur, september 08, 2007

10000 / 39:05:45

Ég sá það í blaði allra landsmanna fyrir tilviljun að Meistaramót Íslands í 5000 metra hlaupi kvenna og 10000 metra hlaupi karla færi fram í dag. Þar sem ég tek sjálfan mig ekki of hátíðlega ákvað ég að láta slag standa. Ég sleppti því laugardagsæfingu hlaupahópsins í dag. Ég hef reyndar skrópað nánast í allt sumar, þannig að ekki er ólíkleg búið sé afskrifa mig. Kannski verður slátrað alikálfi þegar týndi sonurinn mætir.

Þegar ég kom á Kópavogsvöll hitti ég þar fyrir Stein Jóhannsson, sem ætlaði að keppa þrátt fyrir óhagstætt veður. Það var nefninlega hellirigning og frískleg gola. Ég bar mig vel og sagði að mér þætti gaman að hlaupa í rigningu. Heldur var þáttakan dræm í kvennahlaupinu. Ein kona mætt, hver önnur en Eva Einarsdóttir. Hún vann náttúrulega hlaupið með glæsibrag á tímanum 19:52. Til hamingju með það, það er tímaspursmál hvenær hún mölvar 40 mínútna múrinn í 10 K.

Ég var aldursforseti í hlaupinu, sá eini í aldursflokknum 40 - 44 ára. Ég ákvað strax að hlaupa mitt hlaup óháð því hvað aðrir gerðu. Ég rak því lestina allt hlaupið, enda hefði ég sprungið á þriðja eða fjórða hring hefði ég reynt að fylgja ungviðinu eftir. Stefnan var tekin á að fara undir 39 mínútur. Metnaðarfullt markmið ef veður og slæleg ástundun er tekin með í reikninginn. Hraðinn var stilltur á 90 sekúntur á hring og hélt ég því í 2,5 kílómetra. Það slokknaði á hlaupaúrinu mínu eftir 1,5 km. En Björn Margeirsson var liðlegur í að öskra á mig tímana á tveggja kílómetra fresti. Þeir voru sem hér segir.

2 km - 7:30; 4 km - 15:20; 6 km - 23:17; 8 km - 31:13; 10 km - 39:06

Þetta var gaman þrátt fyrir að markmiðið næðist ekki.

miðvikudagur, ágúst 29, 2007

New York, New York

Við Björn fórum til New York í sex daga. Tilgangur ferðarinnar var þríþættur. Í fyrsta lagi að kaupa gítar fyrir Björn, í öðru lagi að skoða stórborgina og í þriðja en ekki síðasta lagi að fara á tónleika með uppáhalds tónlistarmanni okkar feðga. Sá heitir Phil Keaggy og spilar feykivel á gítar. Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða rafmagnaðan eða órafmagnaðan. Gítarinn sem Björn keypti er forláta Gibson Les Paul Studio, hvítur að lit, gott hljóðfæri sem þægilegt er að spila á og hljómar vel.

Í New York skoðuðum við m.a. American Museum of Natural History, Empire State bygginguna, NBC, Rockefeller Center, Frelsisstyttuna, Ellis Island, World Trade Center reitinn og Kínahverfið. Við fórum á söngleikinn Spamalot, sem er byggður á hugmyndum frá Monty Python hópnum. Það er skemmst frá því að segja að það var mjög skemmtilegt.

Á föstudeginum tókum við bílaleigubíl og keyrðum sem leið lá til Kingston í NY fylki. Þetta er smábær 100 kílómetra fyrir norðan New York borg, og var víst um tíma höfuðborg fylkisins árið 1777 (sú fyrsta). Tónleikarnir voru haldnir í lítilli kirkju og voru þeir tvískiptir. Í fyrri hluta þeirra stóð hann einn á svið með kassagítar að vopni. Phil notar mikið tækni sem kallast á ensku looping, sem byggist á því að hann tekur upp stef og byggir síðan ofan á það öðrum stefum. Þannig getur hann verið eins manns hljómsveit. Eftir hlé stigu á stokk bassaleikarinn Toni Levin og trymbillinn Jerry Marcotta. Þeir félagar eru ef til vill frægastir fyrir að spila reglulega með Peter Gabriel, og spiluðu þeir meðal annars á því víðfræga lagi Sledge Hammer.
Phil bað náðarsamlegast um að fá að spila á nýja gítarinn hans Björns. og varð hann góðfúslega við þeirri bón, það var ekki leiðinlegt og fékk gítarinn góða dóma hjá meistaranum.

Hvað varðar hlaupaiðkun, þá var hún hófleg. Ég reimaði fjórum sinnum á mig skóna. Fyrsta skiptið fórum við Björn saman upp í Central Park, Björn fékk einhver eymsli í hné, þannig að skokkið var styttra en til stóð. Í Kingston tók ég hraða 6 kílómetra. Að lokum hljóp ég 9,7 km hring í Central park tvisvar sinnum. Fyrra skiptið í 30 stiga hita og seinna skiptið í 20 stigum. Seinna skiptið var mun þægilegra en hið fyrra. Tempóið var þokkalegt eða c.a. 4:10-4:15 min/km.

Sumarið er tíminn...

Ég hef ekki fundið hjá mér þörf fyrir að blogga síðasta mánuðinn. Þessi mánuður hefuð þó síður en svo verið tíðindalítill. Ég hef hlaupið minna en vonir stóðu til, en hef þó náð að taka 2 æfingar á viku.

Við fjölskyldan gerðum víðreist í fríinu. Fimm nætur að Hólum í Hjaltadal, skoðuðum þar meðal annars Síldarminjasafnið, Vesturfarasetrið, Hólastað, Skagann, Kántríbæ og gengum upp í Gvendarskál svo eitthvað sé tínt til. Þarna náði ég 2 snörpum sprettum

Eftir þetta fórum við suður Kjöl í Kirkjulækjarkot þar sem við vorum 4 nætur í góðu yfirlæti. Frekar lítið hlaupið, en náði þó að sperra mig einu sinni hraða 8 kílómetra.

Leiðin lá svo í Skaftafell 3 nætur, einn sprettur þar upp að Svínafellsjökli og til baka 13 kílómetrar söfnuðust þar í sarpinn. Í Skaftafelli skoðuðum við Svartafoss og bræður hans, gengum áleiðis inn í Morsárdal og sandinn til baka.

Veðurspáin var ótrygg, en við ákváðum samt að skella okkur á Höfn, þar sem við undum tvær nætur og jafn marga daga. Ég tók 5 yassóa á nýju tartaninu, en unglingalandsmótið var haldið þarna helgina áður. Á Höfn hittum við fyrir vinnufélaga minn hann Jón Garðar, og áttum við saman notalega kvöldstund í pallhýsinu hans.

Heim var haldið þar sem veðurspáin var frekar köld og blaut á NA landi. Heima var veður frábært og náðum við að þvo þvotta og mála einn skjólvegg áður en við héldum norður heiðar í brúðkaup Páls og Ingibjargar. Páll þessi er bróðir Guðfinnu. Einn 21 kílómetra heiðmerkurtúr .

Til Akureyrar var haldið á miðvikudagsmorgni, Guðfinna fór í skólann meðan við hin í fjölskyldunni undum okkur við aðra hluti. Ég náði að jogga 16 kílómetra hring vítt og breitt um sunnanverðan Akureyrarbæ. Það hafði góð áhrif á matarlistina mína. Á fimmtudegi héldum við sem ekki lærðum til berja í Hörgárdal, þar voru væn ber sem voru etin með stæl um kvöldið.

Að öðru leyti var ekki hlaupið fyrir norðan, en til gamans má geta að brúðkaupið tókst með eindæmum vel og voru allir sjálfum sér til sóma, jafnt brúðhjón sem aðrir veislugestir.

Á mánudag hljóp ég heim úr vinnu og hjólaði sömu leið í vinnu daginn eftir.

fimmtudagur, júlí 26, 2007

Hjólað og hlaupið en ekkert synt.

Ég hjólaði í og úr vinnu samtals 18 kílómetra. Endaði svo daginn með 7 yassó sprettum. Þeir voru farnir á 2:56 - 3:00 fyrir utan sá síðasti sem var á 2:45. Ég lagði hann upp þannig að fyrstu 400 metrana hljóp ég hratt og sá svo til hvað ég dugði. Ég dugði ágætlega og hljóp þessa 800 metra á jöfnu splitti. Það sat í mér þreyta eftir gærdaginn og hjólið. Mér fannst ég alltaf vera á mörkunum að fá krampa í vinstra lærið, en það slapp til. Ég er að falla úr hor, því vogin sýndi 66,2 kíló eftir kvöldmatinn. Nú tekur við sumarfrí hér innanlands. Ég ætla að reyna að vera duglegur í því...

Sama sullið

Ég skokkaði heim í gær eftir langan vinnudag. Þetta gerði ég á þessum venjulega tíma, þ.e. súmum 38 mínútum. Nú er sumarfríið að fara að bresta á og vonandi næ ég að stunda hlaupin af meiri alúð en upp á síðkastið. Viktin er komin niður í 66 - 67 kíló sem eru góðar fréttir. Nú læt ég staðar numið í léttingum og reyni að halda þessari þyngd fram á haustið.

mánudagur, júlí 23, 2007

Heiðmörkin heimsótt

Ég svaf yfir mig í gærmorgun og fór því ekki í hlaupahópinn. Í kvöld fór ég hinsvegar upp í heiðmörk í mildu veðri. Ég ákvað að fara í síðbuxum og jakka, það reyndist þjóðráð því það kom hressileg skúr á miðri leið. Hraðinn var vaxandi og líðanin ágæt, fyrir utan að ég fékk einhverja þreytuverki í hné þegar 3 kílómetrar voru eftir. Kílómetrarnir 16 voru farnir á 75 mínútum.

föstudagur, júlí 20, 2007

44 - 16081

Í dag hefur jörðin farið 44 hringi í kring um sólina og snúist 16081 hring í kring um sjálfa sig síðan ég leit dagsins ljós. Ég á semsagt afmæli í dag. Ég vaknaði í morgun við afmælissöng, og ég verð að segja að þar fer fallegasti kór heimsins. Á degi sem þessum staldra ég gjarnan við og hugleiði líf mitt, fortíð og framtíð. Ég er gæfumaður í lífinu og finnst ég vera ríkasti maður á jarðríki eigandi 3 heilbrigð og vel gerð börn og frábæra eiginkonu. Ég ætla ekki að fara með nánari útlistanir á því, en læt nægja að segja að þeir sem halda því fram að þeirra eigin börn séu fallegust og best hafa því miður rangt fyrir sér því auðvitað eru það mín börn ;)

Í gærkveldi hljóp ég mitt síðasta hlaup .... 43 ára, ég ákvað að fara niður í Kaplakrika og taka eitt 3 kílómetra test. Þegar þangað var komið var einhver fótboltaleikur í gangi og þurfti ég að bíða í 20 mínútur eftir að komast á tartanið. Það var í lagi þar sem hlýtt var í veðri og gaman að horfa á unga fríska menn eigast við á knattspyrnuvellinum. Ég fékk að sjá þrjú mörk, þar af eitt víti og meira að segja einn brottrekstur á síðustu sekúndu leiksins, en þá höfðu Haukar skallað boltann í netið hjá ÍH mönnum við lítinn fögnuð markmanns þeirra. Það endaði með því að sá þurfti að yfirgefa völlinn.

Þegar leikmennhöfðu yfirgefið völlinn læddist ég á völlinn og tók mín 3 kílómetra á vaxtandi tempói eða 3:42, 3:40; 3:35 samtals 10:57. Þetta er ágætt miðað við stopula ástundun. Hún horfir vonandi til betri vegar núna í framhaldinu.

mánudagur, júlí 16, 2007

Sveitin mín

Þetta var róleg helgi hjá mér. Við fjölskyldan vorum í Hlíðardalsskóla á móti hjá fríkirkjunni Veginum. Veður var frábært og stemmingin góð. Ég komst aðeins út að hlaupa á laugardeginum, en þá tölti ég 12 kílómetra á mjög rólegu tempói. Ég gerði þau mistök að taka tíkina með mér og heitt malbikið fór illa í þófana á henni, en það grær áður en hún giftir sig.
Á sunnudeginum fórum við lengri leiðina heim og heimsóttum sveitina mína. Sveitin mín er nánar tiltekið að Kolsholti í Flóahreppi (áður Villingaholtshreppi). Þar býr föðursystir mín og var ég þar í sveit á sumrin sem barn og unglingur. Það má segja að þar hafi ég verið alinn upp að hluta. Börn í dag fara á mis við þessa lífsreynslu og er það miður. Við fengum að sjá nýfædda kettlinga, heimalninga og náttúrulega beljur. Góð helgi að baki og vinnuvikan framundan.

Síðasta vika var þokkaleg hlaupavika 31 kílómetri.

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Grænn kostur

Ég hljóp heim úr vinnu í gærkveldi. Þetta er ferðamáti sem er í senn umhverfisvænn, heilsubætandi, ódýr og skemmtilegur. Það er ekki hægt að biðja um mikið meira .... jú ég hljóp þetta á 38 mínútum sléttum, sem ég held að sé besti tími minn á þessari leið. Það er gott því ég hef hlaupið að mikilli ákefð annan hvern dag síðan á Laugardag, og ég fór full seint að sofa nóttina áður. Ég á það nefninlega til að drolla frameftir, sérstaklega ef ég hef verið að vinna fyrr um kvöldið, ég glamra þá gjarnan á gítarinn minn - betri slökun er vandfundin. Það er við engan annan að sakast nema sjálfan mig í þeim efnum.
Ég kláraði fyrri umferðina á vegginn í gærkvöldi og ætla að klára dæmið í kvöld.

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Þetta er allt að koma...

Í gær hljóp ég heim úr vinnu á 38:15. Ég var með sprækasta móti, því þessi leið er nokkuð strembin, tvær langar og brattar brekkur í boði hússins, ég hitti þau Grétar, Ingu og Hörpu í Löngufitinni á leið niður að laug. Ég á ekki von á að komast mikið í hlaupahópinn það sem eftir lifir sumars, þar sem ég mæti yfirleitt ekki í vinnu fyrr en rúmlega 9, og þarf því að fara heim seinna en vant er. Kvöldið fór í að skafa málningu af gluggum. Við hjónin erum búin að ákveða endanlega lit á veggnum umhverfis húsið. Þannig að mér er ekkert að vanbúnaði að bretta upp ermar og klára þetta.

laugardagur, júlí 07, 2007

Landsmótshlaupið - 39:07

Ég hef verið skelfilega latur við að hlaupa síðustu tvær vikur. Einungis skrölt 9 mílómetra á saltkjötshraða. Ég gerði mér því hóflegar vonir um glæstan árangur í dag. Það ótrúlega gerðist hinsvega að ég náði besta tíma mínum í ár, eða 39:07, sem er bæting um 8 sekúntur frá Húsasmiðjuhlaupinu. Aðstæður voru frekar erfiðari í dag en þá, þannig að ég er verulega sáttur. Ég límdi mig á Þórólf, Ingólf, Ívar Adolfs fyrstu 5 kílómetrana og var furðu hress. Millitíminn eftir 5 kílómetra var 19:28 og mér leið þokkalega. Eftir 7 kílómetra var tíminn 27:07. Síðustu þrír kílómetrarnir voru erfiðir, enda slælegar æfingar undanfarið farnar að koma í bakið á mér. Ég hélt þó haus og kláraði þetta með sóma. Var talsvert á eftir Ingólfi og Ívari og vel á undan Þórólfi (sem er árangur útaf fyrir sig).

miðvikudagur, júlí 04, 2007

Maður hét Björn og var Pétursson...

Ég hef lítið hlaupið síðan 22. júní. Ástæðan er sú að síðustu tvær helgar hef ég verið upptekinn við annað, fyrst var skagamótið í knattspyrnu 7. flokks drengja og síðasta vika og nýliðin helgi var undirlögð af ættarmóti sem ég tók þátt í að skipuleggja ég skrölti þó 9 kílómetra á mánudaginn og var frekar lúpulegur.

Ættarmótið var haldið á Lýsuhóli í Staðarsveit og tókst með eindæmum vel. Þegar saman kemur frábært fólk í frábæru veðri og borða saman hvítlauks- rósmarínkryddað holulamb getur útkoman ekki verið annað en góð.

Ég frétti það um helgina að ég er víst þess vafasama heiðurs aðnjótandi að vera afkomandi Björns Péturssonar bónda að Öxl í Breiðuvík á Snæfellsnesi og konu hans Þórdísar Ólafsdóttur. Björn þessi er alræmdasta fjöldamorðingja íslandssögunnar og gegnir nafninu Axlar Björn. Hann var hengdur árið 1595 fyrir níu morð, en samsekri konu hans var þyrmt vegna þess að hún var kona eigi einsömul. Sonur þeirra Sveinn "skotti" reyndist einnig vera ógæfumaður og var hengdur hálfri öld seinna eða 1648. Hann eignaðist tvo syni, Gísla "hrók" og Halldór. Gísli fetaði í fótspor forfeðra sinna og endaði í gálganum. Áður en það gerðist eignaðist hann soninn Magnús, sem varð þeirra gæfu aðnjótandi að eignast ekki börn. Halldór komst hinsvegar ágætlega til manns og gerðist ærlegur bóndi í Eyjafirði og eignaðist heilbrigð börn að því best er vitað. Af honum er ég kominn ásamt 20000 öðrum íslendingum.

Meðal afkomenda Halldórs (og forfeðra minna) eru þeir Eiríkur Hallgrímsson (1773 -1843) og sonur hans Guðlaugur Eiríksson (1807 - 1895) sem voru annáluð hreystimenni. Bjuggu þeir á Steinkirkju í Fnjóskadal. Um Guðlaug var sagt að hann hafi verið "hið mesta hraustmenni og æru prýddur heiðursmaður". Guðlaugur þessi var langafi afa míns Aðalsteins Eiríkssonar, sem var að minnsta kosti "æru prýddur heiðursmaður" ef ekki hið fyrra líka.

föstudagur, júní 22, 2007

Allur að koma til

Í dag var Yasso dagur. Veður með eindæmum gott, hægur vestan andvari og 13 stig á mæli.
Tók 10 spretti og svo einn 400 metra í endann. Tímarnir talsvert betri en síðast allir á 2:51 eða 2:52 nema sá 9. var á 2:54 og 10 á 2:49. 400 metra spretturinn var farinn á 77 sekúntum, enda farið að draga af gamla manninum þegar hér var komið við sögu. Í fyrramálið skunda ég á skagann með yngsta soninn og horfi á hann iðka boltaspark. Mikil tillhlökkun á mínum bæ.

þriðjudagur, júní 19, 2007

Skokkað heim....

Veður er með besta móti þessa dagana til hlaupa og almennrar útivinnu, þ.e. stillt, hófleg sól og temmilegur hiti. Skokkaði heim úr vinnu á rétt rúmum 38 mínútum. Þar fyrir utan var stunduð garð- og málningarvinna. Framundan er Skagamótið í knattspyrnu, ég kemst því hvorki í Esjuhlaupið né Miðnæturhlaupið í ár. Í staðin verður skokkað á skaganum.
Í tilefni kvenréttindadagsins er rétt að óska konum til hamingju með daginn. Heldur fannst mér vera lítil stemming á Austurvelli þegar ég lagði af stað heim á leið. Hugsanlega voru þarna 50 - 70 manns (kvenns ??) með Kristínu Ástgeirsdóttur við gjallarhornið. Það vekur upp spurningar hvort jafnréttistbaráttan sé á einhverjum villigötum. Mín skoðun er ekki fastmótuð, en í mínum huga er jafnrétti það að allir fái sömu tækifæri óháð kyni, litarhafti eða trú. Á því eru þó augljósar undantekningar, t.d. kæmist ég seint í kvennakór, og heldur væri það ankannalegt ef múslími væri vígður prestur hinnar evangelísku lúthersku kirkju. Reynar grunar mig að þar innanborðs séu einhverjir trúleysingjar.

sunnudagur, júní 17, 2007

Gullpabbi Garðabæjar

Þjóðhátíðardagurinn er í dag um land allt. Veður stillt og meinhægt, úrkomulaust og sólin glennti sig öðru hvoru. Ég fór með Árna og Önnu í hið árlega víðavangshlaup Garðabæjar. Reyndar er ekki hlaupið á víðavangi, heldur á fótboltavellinum. Hvað um það, við komum heim verðlaunum hlaðin. Árni varð þriðji í sínum flokki rétt á eftir nágrannavini sínum honum Ásgeiri. Anna fékk silfur í tíu ára flokknum og undirritaður hlaut gull í pabbaflokknum. Ég ber því nafnbótina Gullpabbi Garðabæjar þetta árið. Það þykir mér mikill heiður. Reyndar er það mér mikill heiður að vera faðir barnanna minna óháð íþróttaafrekum því þau eru talsvert í móðurættina.

Dagurinn var hefðbundinn, skrúðganga, lúðrasveit, fjallkona, hoppukastalar og kvenfélagskaffi. Við Björn kíktum á gospeltónleika í Hellisgerði seinnipartinn. Það var ágætis skemmtun, en rennslið hefði mátt vera betra. Strákarnir okkar sáu mér fyrir örlitlum hjartsláttartruflunum undir lok leiksins, en Serbarnir voru lagðir að velli með minnsta mun.

laugardagur, júní 16, 2007

Heiðmörk í strekkingsvindi.

Fór með Gísla, Gerði og Jóhanni upp í Heiðmörk. Samtals 23 kílómetrar í dag. Tempóið var frekar rólegt, enda er ég að reyna að temja mér skynsemi í löngu hlaupunum. Strekkings Suðaustanáttin var dásamleg. Þegar hlýtt er í veðri og farið er hægt er nefninlega ekkert að rokinu. Vikan gerði sig á 52 kílómetra sem er alveg þokkalegt.

fimmtudagur, júní 14, 2007

Tíu og hálfur Yasso

Ekkert var hlaupið á þriðjudag vegna slappleika. Húsasmiðjuhlaupið og æfingin á mánudag eiga líklega einhvern hlut að máli. Líklega hef ég ekki verið nógu duglegur að borða orkuríkan mat, því ég hef misst 1,5 kíló á einni viku. Ég hef því innbyrt sérlega mikinn mat síðustu tvo daga og líður mér mun betur.
Í hlaupahópinn bættust við tveir nýjir meðlimir, þau heita Anna og Árni. Ég gleymi þeim nöfnum líklega ekki því ég á tvö börn sem bera þessi fallegu nöfn. Í dag var Yasso dagur. Ég hljóp 10 slíka spretti og manaði svo Guðmund í einn 400 metra sprett í lokin (Gísli... má það ?). Tímarnir á sprettunum voru: 2:57, 2:59, 2:55, 2:54, 2:55, 2:55, 2:54, 2:56, 2:56, 2:53. Ég var kominn í netta endorfín vímu á síðasta spretti og reyndist hann mér í raun léttastur svo einkennilega sem það hljómar. 400 metra spretturinn var á 73 sek. Flesta sprettina hljóp ég á negatífu splitti, ég gaf örlítið í síðustu 200 metrana. Samtals voru hlaupnir 18 kílómetrar í dag.

Mér fann mig vel í dag. Ég hef þá trú að taka þátt í tveimur 10 kílómetra keppnishlaupum með viku millibili gerir mér gott. Nú er bara að missa ekki dampinn og ná amk. 4 æfingum á viku í sumar, þar af tveim með mikill ákefð, eina langa og eina til tvær léttar og þægilegar.

mánudagur, júní 11, 2007

Rykkir á Álftanesi

Ég mætti í hópinn minn í fyrsta skipti í allt of langan tíma. Gísli var þar kominn frá útlöndum, þar sem hann hefur dvalið í vellystingum. Hann kveðst nú reiðubúinn að tala inn á fleiri pókerþætti. Einnig voru þar fyrir þær stöllur Harpa og Inga. Teknir voru 6 rykkir, þar sem fjölbreytnin var í fyrirrúmi. Sumir voru upp í mót, en aðrir undan halla eða á sléttlendi. Helmingur rykkjana var á móti vindi og hinn með vindinn í bakið. Þetta gekk allt saman ljómandi vel, en ég er ekki frá því að laugardagurinn sitji örlítið í mér, samtals 11,5 kílómetrar í dag. Kvöldið notaði ég til að festa upp nýtt sturtusett og horfa á lokaþáttinn af Heros.

laugardagur, júní 09, 2007

Húsasmiðjuhlaupið 39:15

VIð feðgar tókum þátt í Húsasmiðjuhlaupinu í dag. Björn og Árni hlupu 3 kílómetra og ég 10. Björn varð annar í sínum flokki og hljóp á 14:00, Árni hljóp á 14:30, sem verður að teljast mjög góður árangur hjá ekki eldri dreng.
Sjálfur hljóp ég kílómetrana 10 á 39:15, sem er besti tími minn í mörg ár. Byrjaði að elta Þórólf og tókst það fram á 3. kílómetra, en þá seig hann framúr mér. 50 metrum fyrir aftan mig var Ívar Auðunn og hélst sá munur allt hlaupið. Þetta hélt mér við efnið og ég ætlaði ekki að láta hann komast of nálægt mér. Það tókst sem betur fer og kláraði ég hlaupið með nokkuð örugga forystu á hann. Nú er mánuður í næsta 10 kílómetra hlaup og þá vonast ég til að bæta þennan tíma talsvert. Í mínum villtustu draumum fer ég undir 38:00. Millitímarnir voru annars sem hér segir:

1. 3:37 3:37
2. 3:49 7:26
3. 4:01 11:27
4. 4:13 15:40
5. 4:26 20:06
6. 4:05 24:11
7. 3:49 28:00
8. 3:33 31:33
9. 3:46 35:19
10. 3:56 39:15


miðvikudagur, júní 06, 2007

Rok

Ég skrölti út í krika í gærkveldi, hljóp þar 2 km á 8 mínútum og var ekkert að klára mig þannig lagað. Samtals einungis 5,5 kílómetrar.
Mér finnst vera komið nóg af roki og rigningu í bili. Stefnan er tekin á Húsasmiðjuhlaupið næstkomandi laugardag.

sunnudagur, júní 03, 2007

Sunnudagstúrinn

Í dag hlóp ég 15km á 75 mínútum. Byrjaði rólega fyrstu 6 kílómetrana, en jók tempóið uppúr því. Gærdagurinn sat aðeins í mér og var ég frekar lúpulegur fram eftir degi.

39:59

Heilsuhlaup Laugaskokks og Landsbankans fór fram í dag og tók ég þátt. Það var hlýtt en talsverður vindur. Ég byrjaði frekar hratt og ætlaði að sjá til hvað ég entist. Það gekk ágætlega til að byrja með, en jafnt og þétt dró af mér. Ég tók glæsilegan endasprett þegar ég sá að ég átti möguleika á að skríða undir 40 mínúturnar. Hvattur áfram af starfsmönnum hlaupsins tókst mér að skríða svona líka nett undir þær. Annars voru kílómetrarnir 10 hlaupnir á eftirfarandi tímum:
3:44, 3:42, 4:04, 4:12, 4:14, 3:57, 3:59, 3:59, 4:20, 3:50.

Framkvæmd hlaupsins var frábær og eiga Laugaskokkarar þakkir skildar.

Ég er sáttur miðað við veður og slælega ástundun síðustu vikna.

miðvikudagur, maí 30, 2007

Er gaman að horfa á málningu þorna ?

Það fer eftir því hvar málningin er. Ég notaði hvítasunnuhelgina til að mála húsið mitt og þá er gaman að upplifa það ævintýri þegar málningin þornar ;) Húsið sem fyrir viku var skellótt er nú orðið fagurhvítt. Næstu dagar fara í að mála glugga og handrið og þessháttar smotterí. Eiður langhlaupari Aðalgeirsson hjólaði framhjá húsinu mínu ásamt eiginkonu sinni til margra ára henni Línu og Anítu dóttur þeirra. Leið þeirra lá um Löngufitina. Hann kallar Kára Stein Karlsson millivegalengdahlaupara, af því að hann hefur aldrei farið heilt maraþon !! Það sýnir bara að allt er afstætt. Hann var að klára 100 kílómetra hlaup í Amsterdan

Vegna þessa hefur lítið verið hlaupið, ég fór þó á brettið á föstudag og hljóp 7 kílómetra. Byrjaði á 3 kílómetra upphitun, tók síðan 3 kílóetra á 3:30 - 3:40 tempói og skokkaði svo niður 1 kílómtetra. Vikan sú gerði sig því á 25 kílómetra, sem er full lítið fyrir minn smekk.

Í gærkveldi reimaði ég á mig hlaupaskóna og skeiðaði niður í krika. Tók þar 5x1000 metra með 200 metra rólegu joggi og mínútu hvíld. Tímarnir ekkert til að hrópa húrra fyrir. Tímarnir voru 3:39, 3:34, 3:33, 3:32 og 3:31. Samtals 12 kílómetrar lagðir að baki.

þriðjudagur, maí 22, 2007

Annaðhvort er maður að þessu eða ekki...

Í þar síðustu viku var ég að þessu, hljóp 64 km, í síðustu viku var ég ekki að þessu og hljóp 0 km. Þessi vika ætlar að verða skárri. Skokkskammtur það sem af er 18 kílómetrar. Úr vinnu á mánudegi og í vinnu í morgun. Bæði skiptin á þokkalegu tempói.
Að öðru og léttvægara. Ný stjórn er fædd. Það var léttara yfirbragð á Samfylkingarmönnum. Sumir Sjálfstæðismenn voru glaðir, en aðrir minna glaðir. Glaðastir voru þeir fjandvinir Björn Bjarna og Guðlaugur Þór. Súrust voru Sturla og stelpurnar. Ég er á þeirri skoðun að Geir hafi guggnað á að afsetja Björn og skipa Guðfinnu í hans stað. Þar kemur tvennt til, í fyrsta stað er erfitt að stugga við Engeyjarættinni og í annan stað hefði verið erfitt að láta Björn fara vegna þess að þá hefði þessi ríkisstjórn átt erfitt með að skafa af sér baugsstimpilinn sem framsókn hefur klínt á hana. Björn B getur því þakkað Hreini Loftssyni öðrum mönnum fremur framlengt líf í ráðherrastóli. Mér líst annars vel á stjórnina og vona að hún vinni af heilindum landi og þjóð til heilla.

laugardagur, maí 12, 2007

Langur Laugardagur

Ég fór út rétt fyrir 8 í morgun og hljóp inn í Heiðmörk í morgunsvalanum tæpa 11 kílómetra á rólegu tempói, kom heim klukkan 9 og ræsti Árna son minn, því hann átti að mæta á knattspyrnuæfingu hálftíma síðar. Mætti niður í Ásgarð á slaginu hálf tíu og fór aðra ferð upp í heiðmörk með hlaupahópnum. Það var fjölmenni eða 13 manns og er vonandi að það haldi áfram að fjölga í hópnum. Veður var gott þurrt og hóflegur vindur, það er gott að hafa skjól af norðanáttinni í Vífilstaðahlíðinni. Samtals hljóp ég 28 kílómetra í dag, mestallt rólegt (5:30 - 6:10 tempó), en lét freistast að skeiða niður fyrir 4 mínútna tempó niður að hliði (c.a. 2 km). Núna líður mér vel. Vikuskammturinn 64,5 kílómetrar, sem er að ég held með því mesta sem ég hef afrekað hingað til. Dagskrá það sem eftir er dagsins:

1. Kíkja í kosningakaffi Sjálfstæðismanna
2. Fara niður í bæ að skoða risessuna
3. Kjósa rétt
4. Snæða síðbít
5. Horfa á austur-evrovision og kosningasjónvarpið. Sukka í snakki og gosi á meðan

Að gersamlega í aðra sálma þá er hér spá mín um kosninganiðurstöður:

B: 10%
D: 37%
F: 6%
I: 4%
S: 26%
V: 17%

Sjálfstæðismenn og Samfylking mynda stjórn eftir að stjórnarmyndunarviðræður kaffibandalagsins fara út um þúfur vegna prinsippfestu VG.

Nú er bara að sjá hvernig þetta gengur eftir

fimmtudagur, maí 10, 2007

Yasso á fallegum vordegi

Veður fer sífellt batnandi þessa dagana, hitastig stígur hvern dag og hægist á vindi. Í dag var Yasso dagur í Kaplakrika. Gísli var hjólandi og er enn ekki búinn að jafna sig í lærinu. Vonandi nær hann þessari óværu úr sér hið fyrsta.

Ég var léttklæddur, en þó vel innan siðsemismarka. Ég fékk félaga í Yasso sprettunum, Jason fylgdi mér 7 spretti, en Helge 3. Þetta eru menn sem ættu að geta farið 10 km undir 40 fyrir sumarlok ef þeir æfa eins og menn. Mig grunar reyndar að Jason sé tilbúinn til þess núna. Það er mikill munur að hafa einhvern á sama tempói á svona æfingum. Samtals 17,5 kílómetrar í dag.

Sprettirnir voru sem hér segir (hvíldarskokktíminn í sviga)
1. 2:59 (2:52)
2. 3:00 (2:52)
3. 2:57 (2:48)
4. 2:56 (2:52)
5. 2:55 (2:58)
6. 2:54 (2:47)
7. 2:54 (3:11)
8. 2:59 (2:45)
9. 2:59 (2:43)
10. 2:55

Síðan tók ég einn 400 metra sprett í lokin á 1:23 upp á grínið (because I can ;).

Mér leið vel allan tímann og var aldrei alveg að klára mig. Ég er því mjög ánægður með formið á mér þessa dagana og hef ekki komið eins vel undan vetri í 10 ár.

Svo vil ég að endingu leggja það til að við hættum þáttöku okkar í Evróvision. Þetta er eitt stórt samsæri sem við fáum því miður ekki að taka þátt í.

þriðjudagur, maí 08, 2007

Hver vegur að heiman er vegurinn heim

Hljóp ekkert um helgina, en fór þess í stað í smáferðalag um Snæfellsnes með bræðrum mínum á sunnudeginum. Hljóp heim úr vinnu á mánudegi og aftur í vinnuna á þriðjudagsmorgun. Þetta eru rúmir 9 kílómetra leið. Hæg norðan átt og svalt er fyrirtaks veður. Ég hljóp þetta á ágætis tempói og er bara nokkuð ánægður með ástandið á mér þessa dagana.

föstudagur, maí 04, 2007

Icelandair hlaupið...

Icelandair hlaupið var haldið í kvöld. Ég tók þátt í fyrsta skipti, veður var ágætt, hægviðri en svalt. Ég ákvað að hlaupa léttklæddur og reyndist það þjóðráð. Byrjaði bratt eins og venjulega, fljótlega fann ég að 1.maí hlaupið sat í mér og reyndi ég að stilla mig eftir því. Það gekk ágætlega að mestu, en rosalega var 6. kílómetrinn strembinn. Ég kláraði hlaupið á 27:05 sem gerir meðal tempó upp á 3:52. Þetta gerir 23. sæti í heildina og 8. í aldursflokku. Ég er nokkuð sáttur við það, en veit að ég á að geta talsvert betur en þetta, jafnvel farið niður á 26:30 á góðum degi eftir næga hvíld (og eins og 3 góðar laugardagsæfingar). Félagar mínir í skokkklúbb Garðabæjar fjölmenntu og voru sjálfum sér og sveitarfélagi til sóma.

þriðjudagur, maí 01, 2007

Hlaupið til heiðurs hinum vinnandi stéttum

Ég var latur um helgina og hljóp ekki neitt (skamm skamm), en við Árni sonur minn keyrðum í dag upp í Grafarvog og þreyttum hið árlega 1. maí hlaup Fjölnis. Þar var við stjórnvölinn Guðlaug Baldvinsdóttir, en við störfuðum saman hjá Hug hf um skamma hríð.
Árni stóð sig eins og hetja og hljóp þessa átjánhundruð metra á 9:44, ekki illa af sér vikið hjá 7 ára snáða. Undirritaður hljóp 10 km og sóttist ferðin greitt fyrri hlutann. Fystu 2 km voru hlaupnir á 7:03, en þá fór að draga af mér, enda hef ég verið of latur við löngu hlaupin. Tíminn við 5 km markið var rétt rúmar 19 mínútur. Bakaleiðin var erfið, því hún var mest á brattann og heldur á móti vindi en hitt. Vindurinn var vaxandi er leið á hlaupið og bísna erfiður mér (og öðrum) á áttunda og níunda kílómetranum, beint í fangið og leiðin upp í móti.
Ég sá það fljótlega upp úr miðju hlaupi að tíminn yrði ekkert til að hrópa húrra fyrir og dró ég því heldur úr ákefðinni seinustu þrjá kílómetrana. Heildartíminn var c.a. 40:49 og er ég nokkuð sáttur miðað við aðstæður og form.

föstudagur, apríl 27, 2007

Gæðaæfing á fimmtudegi

Það var sannkölluð gæðaæfing í gær. Gæðaæfingar eru víst æfingar sem eru þannig að maður er á mörkunum að ofgera sér. Skipun dagsins voru 8 Yasso sprettir. Það var frekar vindasamt í Kaplakrika (að venju liggur mér við að segja) ogtók það sinn toll þegar á leið. Tímarnir (ásamt hvíldarjoggtímunum) voru sem hér segir:
  1. 2:58 / 2:12
  2. 3:03 / 2:19
  3. 2:59 / 2:33
  4. 3:02 / 2:23
  5. 3:03 / 2:36
  6. 3:07 / 3:18
  7. 3:13 / 2:47
  8. 3:06 /

Ég var mjög þreyttur eftir þetta og lá eins og slytti allt kvöldið uppi í sófa. Ég þarf greinilega að fara að taka löngu helgarhlaupin af meiri alvöru. Ég fann ekkert fyrir verk í fæti, sem eru góðar fréttir.

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Lognið hlær svo dátt í Hafnarfiði

Joggaði niður í krika um kvöldið. Mér leist ekki á blikuna því ég fékk verk í vinstri fóturinn við hvert skref strax í upphafi. Á tímabili var ég að hugsa um að labba til baka, en ákvað að harka þetta af mér. Þegar á tratanið var komið hvarf verkurinn eins og dögg fyrir sólu. Ég tók einn 1500 metra sprett í líflegu logninu (skv. skilgreiningu Gísla er alltaf logn í Hafnarfirði). Ég skrölti þetta á 5:15 sem gerir 3:30 tempó. Ég á að geta miklu betur, en var eitthvað lúpulegur. Samtals voru hlaupnir rúmlega 6 km í kvöld.

sunnudagur, apríl 22, 2007

Ekkert skjól af jökli...

Blakhelgin er að baki. Ég var liðsstjóri hjá 3. flokki karla. Liðstjórastarfið er stórlega vanmetið, en það felst í því að smala liðinu á leikina sína, stjórna upphitun og blása liðsmönnum baráttuanda í brjóst. Þetta er geysilega gefandi og skemmtilegt starf, en um leið krefjandi.

Ég hafði hugsað mér gott til glóðarinnar að komast út að hlaupa um miðjan dag þegar langt hlé var á milli leikja. Þetta reyndust tálvonir, því við misstum einn liðsmanninn í meiðsl og því þurfti að sinna af ábyrgð. Meiðslin reyndust ekki alvarleg og varð hann keppnishæfur á sunnudeginum.

Ég komst þó út um kvöldið eftir æsispennandi úrslitaleik í 2. flokki karla, þar sem HK menn sigruðu KA menn í æsispennandi viðureign. Skjólið sem ég vonaðist til að jökullinn veitti var ekkert, því vindáttin var stíf NA átt með úrkomu og sjávarroki. Kílómetrarnir urðu 12 í þetta sinn.

Vikan er því uppá 51 km samtals.

föstudagur, apríl 20, 2007

Sumargjöfin í ár

Víðavangshlaup ÍR fór fram í gær við mjög góðar aðstæður, þótt hitinn hefði mátt vera örlítið hærri. Framkvæmd hlaupsins var almennt góð, nema hvað tímatakan klikkaði eitthvað. Ég var mjög ánægður þegar ég sá 18:16 á klukkunnu þegar ég skeiðaði undir hana, en það sljákkaði þó aðeins í mér þegar félagi Þórólfur tjáði mér að markklukkan væri 20 sekúndum of sein. Tíminn skv. því er því 18:36, sem er talsvert betra en opinbert markmið og nálægt því sem ég hafði gert mér vonir um (18:30). Um kvöldið fékk ég síðan 34 sekúndur í sumargjöf frá frjálsíþróttadeild ÍR í gær þegar tími minn var skráður 18:02, og ég í öðru sæti í mínum aldursflokki og því sextánda í heildina. Ég afþakka slíkar sumargjafir, því ekki vil ég skreyta mig með gefnum fjöðrum. Gamli ungmennafélagsandinn kraumar greinilega ennþá meðal þjóðarinnar.
Líklega hef ég endað í 25 sæti í heildina og því fimmta í aldursflokki.

Björn sonur minn er að fara að keppa í blaki um helgina í Ólafsvík. Ég fer með sem liðsstjóri. Ég tek hlaupaskóna með og skokka í skjóli jökuls.

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Rólegheit

Í dag var litli Garðabæjarhringurinn farinn á hóflegum hraða, samtals 8 km í dag. Vikan er komin í 31 km. Nú er stefnan tekin á ÍR hlaupið á sumardaginn fyrsta. Opinbert markmið er 19 mínútur á kílómetrana 5. Óopinbert markmið er talsvert metnaðarfyllra, en verður ekki gefið upp að sinni.

Brekkur bæta

Aldrei þessu vant fór ég á mánudagsæfingu hjá skokkhópnum. Gísli er vandaður maður og lét okkur svitna í Hafnarfirði. Tókum nokkrar brekkur í Setberginu. Ég var nokkuð sprækur og fann minna fyrir þessu en ég átti von á. Hefði verið til í einn sprett í viðbót. Við Helge hinn þýski tókum reyndar óvænt og óundirbúið 100 metra spretteinvígi á hitaveitustokknum í Hraunsholtinu. Ég hafði hann á hraðaúthaldinu, en ef Helge æfir sig samviskusamlega held ég að það verði erfitt fyrir mig, kominn á þennan aldur að hafa við honum. Samtals 12,5 km í dag

mánudagur, apríl 16, 2007

Leti og páskaeggjaát

Ég hef verið latur að hlaupa upp á síðkastið. Það hafa einhver smávægileg meiðsli í vinstra fæti verið að plaga mig. Suma daga er þetta svo slæmt að ég finn til í hverju skrefi, en aðra finn ég ekki fyrir þessu. Sennilega eitthvað í sinabreiðunum .... án þess að ég þykist vera einhver sérfræðingur.

Annars er skýrsla frá síðustu færslu á þessa leið:

  • Mánudagur 2. apríl: Við Bjössi fórum á hlaupabretti í Ásgarði. Ég byrjaði á brekkuprógrammi. Ég var eitthvað illa fyrir kallaður, en harkaði þetta samt af mér. Samtals 9 km
  • Þriðjudagur 3. apríl: Skokkaði með hópnum 9 km. Var slæmur í fætinum seinni hlutan af hlaupinu, þótt ekki væri hratt farið.
  • 4 - 14 apríl: Hvíld og páskaeggjaát.
  • Sunnudagur 15. apríl: Komið nóg af hvíld og tími til að reyna á fótinn. Tók 6 Yassó spretti í Kaplakrika. Tempóið var stöðugt þ.e. 3:00, 3:00, 3:01; 2:59, 2:59, 3:00. Ég er sáttur við það sérstaklega þegar haft er í huga að ég hef ekki hreyft mig í 12 daga og suðvestanáttin var nokkuð frískleg. Ég fann fyrir örlitlum verk í fætinum , en ekkert til að hafa stóráhyggjur af. 11 km í dag.

föstudagur, mars 30, 2007

Yasso á fimmtudegi

Bart Yasso heitir kall nokkur í Ameríku sem hefur hlaupið fleiri maraþon en flestir auk fleiri afreka. Við hann er kennd æfing, svokallaðir Yasso sprettir, sem er lýst hér http://www.malbein.net/skokk/?p=253.
Ég hljóp 6x800 metra spretti á 3 mínútum sléttum með 400 metra joggi á 2 mínútum. Þetta gekk allt eftir og er ég bísna ánægður með það. Samkvæmt Yasso fræðunum á ég að geta hlaupið heilt maraþon á 3 klukkustundum ef ég klára 10 spretti á 3 mínútum. Síðasti spretturinn tók aðeins í, þannig að ég áætla að maraþon tími hjá mér sé c.a. 3:10 eins og staðan er í dag. Samtals voru hlaupnir 11 km í dag

miðvikudagur, mars 28, 2007

Enginn titill....

Kláraði Ameríkudvölina með 11 km skokki á föstudaginn, fór rólega allan tímann, tempóið rétt undir 5 min/km.

Í gær hitti ég skokkhópinn eftir langt hlé. Joggaði 9 km út á Álftanes

Í kvöld tók ég netta bretta æfingu. 2 km upphitun, 2,5 km á 3:40 tempói, 1,5 km á 4:00 og 1 á 3:50. Samtals 8 km í kvöld.

Ég varð einnig vitni að því að Stjarnan fékk deildarbikarinn í blaki.

miðvikudagur, mars 21, 2007

10 mílur á 70 mínútum

Skammtur dagsins var 10 mílur á 70 mínútum sem gerir tempó upp á 7 mínútur á mílu. Á mannamáli eru þetta 16 kílómetrar og meðaltempó 4:22 min/km. Ég fór út með því markmiði að hlaupa rólega, því hlaup gærdagsins var frekar hratt. Ekki stóð ég við þetta og yfirleitt var ég á 4:10 tempói, utan km 4 - 6, sem ég var tók á 5:00 tempói. Síðustu 10 kílómetrarnir voru á rétt rúmum 41 mínútu, síðustu 2 km voru vel undir 4 mínútna tempói og síðustu 500 metrarnir voru bísna hraðir (< 3:20). Það sem ég er ánægðastur með er að meðalpúlsinn er ekki nema 161 bpm, og fór ekki upp fyrir 170 fyrr en á endasprettinum.

Það skal viðurkennt að ég er frekar lúinn núna og fæturnir eru eins og spítur. Það er krefjandi að hlaupa stöðuglega á steypu, þannig að ég ætla ekki að hlaupa neitt á morgun. Ætli ég prófi ekki stigvélina sem er hér niðri.

Eftir hlaupið sporðrenndi ég 400 gramma steik með léttbjórnum Budvizer.

þriðjudagur, mars 20, 2007

Fitubollurnar í vestri

Nú er ég í USA, nánar tiltekið í Orlando. Tilefnið er námskeið á vegum bankans, og fyrir áhugasaman heitir það "Optimizing Oracle SQL, Intensive". Ég fer ekki nánar út í það....

Ekki hljóp ég maraþon um síðustu helgi eins og áætlað var. Síðasta vika fór í hálfgert slen og aumingjaskap. Það háði mér reyndar ekki í hinu daglega lífi, en þegar ég reyndi að hlaupa var ég slappur og þreklaust. Ég treysti mér því ekki til að hlaupa 42 kílómetrana. Það bíður betri tíma.

Ég fór hinsvegar 10 kílómetra í dag. Þar af 3 kílómetra á keppnistempói, eða á tímanum 10:23. Hér rétt hjá hótelinu er ríflega 500 metra stígur, sem liggur í kring um snotra tjörn með gosbrunni. Mér leið ágætlega allan tímann og hefði getað farið þetta hraðar. Kannski maður komist undir 10 mínútur í sumar.

Ameríkanar eru holdug þjóð, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Ég er eins og títuprjónn innan um allar bollurnar. Kaninn kjagar út úr bílunum sínum inn á veitingastaðina og úðar í sig 'juicy' steikum og meðlæti. Steikur undir 200 grömmum flokkast sem forréttur á þeim bæ. Á námskeiðinu er einnig séð dyggilega til þess að allir fái nóg að borða. Þar eru á boðstólnum sætabrauð, hnetusmjörsstangir, snakkpokar, gosdrykkir, smákökur og annað sætmeti.

mánudagur, mars 12, 2007

Helgin....

Ekkert hljóp ég á Laugardegi, þar sem ég var með verk í fæti. Spurning hvort ekki sé tími til kominn að skipta um skóbúnað. Ég fór rúma 12 kílómetra á Sunnudagskvöldið. Byrjaði löturhægt, en jók tempóið jafnt og þétt. Endaði á meðaltempói rétt undir 5 mín/km.
Í morgun fann ég örlítið fyrir verk í jarkanum, en ekkert til að hafa stóráhyggjur af.

föstudagur, mars 09, 2007

Powerade#6

Það blés ekki byrlega klukkan fimm, rigning og talsverður vindur. Fljótlega tók að lægja og rigningin breyttist í fíngerðan úða, sem minnkaði eftir því sem tíminn leið. Þegar ég kom upp í Árbæjarlaug var úrkoman að mestu hætt, en slydda á stígum. Ég var því hóflega bjartsýnn á að ná undir 40 mínútur. Það kom líka á daginn að fyrstu 5 kílómetrarnir voru hlaupnir í slabbi. Það er kannski ofmælt að segja að það hafi verið hált, en ég skrikaði samt í hverju skrefi. Tempóið til að byrja með var í kring um 4:10 og fyrstu 4 km hlaupnir á 16:23. Ég náði að komast niður á 4 mínútna meðal tempó eftir 7 kílómetra. Brekkan var bísna erfið mér og silaðist ég upp hana. Þar tapaði ég rúmri mínútu. Heildartíminn var 41:15, nokkuð nálægt því sem ég hafði vonast eftir með tilliti til aðstæðna. Annar eða þriðji maður á eftir mér reyndist vera fimmþúsundasti maðurinn í mark í Powerade hlaupunum. Mér fannst eitt augnablik að ég væri réttur maður á röngum tíma. Með upphitun og niðurskokki hljóp ég 14 kílómetra í dag. Nú er að gíra sig fyrir fyrsta maraþonið, en það ætla ég að þreyja eftir 9 daga. Planið framundan er því 25 km á laugardag á maraþon hraða og rólegt á þriðjudag og fimmtudag.

miðvikudagur, mars 07, 2007

Sjósund nei takk

Nokkrir vinnufélaga minna eru haldnir kvalalosta, sem lýsir sér í því að hvern miðvikudag fara þeir niður í Nauthólsvík og baða sig í sjónum. Sjórinn er um 2°C þessa dagana og skilst mér að hámark sælunnar sé þegar tilfinningin fyrir útlimum hverfur. Ég fór ekki í sjósund í dag, en skokkaði með tveim félögum mínum, frá Jóni Sigurðssyni að "ylströndinni". Veður var frábært og skokkið var rólegt. Eftir að hafa horft upp á fullorðna karlmenn veltast um í sjónum hélt ég áfram meðfram sjónum. Samtals 10 km í dag, og Powerade á morgun. Ef veður verður hagstætt reyni ég að fara undir 40 mín.

laugardagur, mars 03, 2007

Lengsta hlaup æfinnar....

Ég vaknaði snemma í morgun, borðaði staðgóðan árbít og fór út að hlaupa kl 8:15. Leiðin lá í Hafnarfjörð þar sem ég sótti þjálfarann í Suðurbæjarlaugina. Mikil hálka var á götum og stígum og hafði það talsverð áhrif á hraðann. Hlaupahópurinn fór síðan upp í Heiðmörk. Samtals hljóp ég 30 km, meðaltempó 5:30 og meðalpúls 147. Splittið var verulega negatíft, því eftir 15 km var meðaltempóið rétt tæpar 6 min/km. Mér leið vel allan tímann og tel að ég verði tilbúinn í heilt maraþon eftir 2 vikur.

Vikuskammturinn er 51 km.

föstudagur, mars 02, 2007

Á réttri braut....

Í gærkveldi var tekin fyrsta brautaræfing vetrarins, mér til mikillar gleði. Gísli er harður húsbóndi og fyrirskipaði pýramýdaæfingu, þ.e. 200, 400, 600, 800, 1000, 800, 600, 400, 200.
Tímarnir reyndust sem hér segir:

------ Tími min/km
- 200 00:33 2:45
- 400 01:19 3:18
- 600 02:05 3:28
- 800 02:50 3:33
- 1000 03:38 3:38
- 800 02:50 3:33
- 600 02:03 3:25
- 400 01:14 3:05
- 200 00:33 2:45

Eins og glöggir lesendur sjá er ég hraðari í seinni hlutanum, ástæðan er sú að ég sparaði mig í fyrri hlutanum, því ég var ekki viss um formið. Það reyndist betra en ég ætlaði og kýldi ég soldið meira á það. En ég neita því ekki að síðustu 200 metrarnir tóku meira í en þeir fyrstu.

Þetta reyndist hin mesta gæðaæfing og 11 km er afrakstur dagsins. Viktin stóð í 68 kg eins og venjulega. Það ætlar að ganga hægt að flísa þessi 3 kg af mér :(

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Þriðjudagur til þrautar

Fór á brettið 9,5 km, og tók smá í lóðin.
  • Upphitun 3 km
  • Hraðaleikur 6,5 km:
    1 km rólegt
    1 km hratt (tempó <3:30)
    1 km rólegt
    1 km hratt (tempó <3:30)
    1 km rólegt
    1 km vaxandi hraði (4:30 - 4:00)
    0,5 km rólegt

Ég var eitthvað illa fyrir kallaður til að byrja með, en hresstist þegar á leið. Ég er ekki ennþá dauður úr öllum æðum. Viktin er nokkuð stöðug í 68 kg.

laugardagur, febrúar 24, 2007

Þreyttur og slappur á Laugardegi

Ég er ekki sjálfum mér líkur þessa dagana og var ég þungur á mér í dag. Rúmir 17 rólegir kílómetrar og ég var þreyttur allan tímann. Vonandi hristist þetta slen úr mér hið fyrsta. Markmið komandi viku er meiri svefn, hollari matur og meiri hreyfing.

föstudagur, febrúar 23, 2007

Nútíminn er trunta....

Nútímáþjóðfélag er drifið áfram af dugnaði, og er ég þar engin undantekning. Sökum anna í vinnu og einkalífi hefur hlaupahópurinn orðið að víkja um sinn. Ég vona þó að á því verði nú breyting. Ég hef notað aðstöðuna í íþróttamiðstöðinni okkar garðbæinga á kvöldin. Þar eru mjög góð hlaupabretti sem komast yfir 22 km/klst (sem er meira en heimsmetshraði í hálfu maraþoni).
Skammtur kvöldsins var tæpir 7 km, sem samanstóð af 2 km upphitun á 5:00 tempói, brekkupýramída (3,4 km) og hröðum 1,2 km. Ég var ekki eins sprækur og síðast þegar ég tók þessa æfingu og hægði á mér um miðbik. Sennilega sitja hlaup helgarinnar enn í mér.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Sprengidagur

Át saltket og baunir í hádeginu og um kvöldið. Talsverður gæðamunur þar á, og var saltketið hér heima mun betra en mötuneytissaltketið (sem þó var með skásta móti). Skakklappaðist 7 km á brettinu í kvöld. Byrjaði á 3 rólegum kílómetrum (reyndar með góðum endaspretti síðustu 400 metrana). Kíkti aðeins í tækin og endaði svo á 4 kílómetrum með stigvaxtandi hraða (17:44). Náði að hlaupa úr mér verstu harðsperrurnar eftir átök sunnudagsins.

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Meistaramót öldunga innanhúss....

Það datt í mig að taka þátt í Meistaramóti Öldunga í Laugardalshöllinni. Ég keypti forláta Adidas gaddaskó í Útilífi fyrir 2 vikum á spottprís og fannst tilvalið að vígja þá núna fyrr í dag. Upphaflega ætlaði ég bara að keppa í 3000 metra hlaupi, og stefna á að hlaupa á 10:30. Vegna áeggjan Steins Jóhannssonar lét ég líka vaða á 400 metrana, þrátt fyrir að aðeins væri 1 klst á milli hlaupa. Það er skemmst frá því að segja að ég hljóp fram úr mínum björtustu vonum. 400m/63,09 sek og 3km/10:24,33 sek er afrakstur dagsins.

400: Ég sparaði mig í 400 metrunum, og hljóp fyrri hringinn í 400 metrunum frekar afslappað, Seinni hringurinn var tekinn á meira trukki. Mér leið vel allan tímann og hef á tilfinningunni að ég geti hlaupið auðveldlega niður á 60 sek.
3000: Ég tók forystu strax og hélt henni fyrst um sinn, Starri nokkur Heiðmarsson (sem ku vera hálfbróðir þeirra Margeirsbræðra skv. öruggum heimildum) andaði allan tímann ofan í hálsmálið á mér og tók framúr mér um miðbik hlaups. Ég reyndi að líma mig á hann, en hann jók forystuna um 1-2 metra á hring. 400 metrarnir sátu verulega í mér og mér leist ekki á blikuna þegar 3 hringir voru eftir, orðinn lúinn og nett sýrður. Hvattur áfram af félaga Steini og Jóhanni Ingibergs minnkaði ég bilið örlítið á næst síðasta hring og þegar 200 metrar voru eftir fann ég auka orku, gaf allt í botn og hljóp fram úr keppinaut mínum þegar 150 metrar voru eftir. Starri átti ekki svar við þessu og endaði c.a. 3 sekúntum á eftir mér.

Ég er mjög sáttur við afraksturinn og kom sjálfum mér mest á óvart. Ég er bara rétt að byrja ;)

Halló Akureyri

Í síðustu viku varfjölskyldan í höfuðstað norðurlands í tilefni af vetrarfríi í Flataskóla. Fjölskyldan stundaði skíðaíþróttina frá mánudegi til fimmtudags 2 - 4 klst á dag. Allir tóku stórstígum framförum. Á föstudaginn var bálhvasst í Hlíðarfjalli og brugðum við okkur í lognið á Dalvík og skíðuðum í Böggvistaðafjalli í fyrsta, en ekki síðasta sinn. Snjór var nær enginn fyrir norðan og ef ekki væri búið að finna upp snjógerðarvélar væri fátt um fína drætti. Nú er talað um það af fullri alvöru að setja upp skíðalyftu á Kaldbak.

Húsbóndinn komst tvisvar út að hlaupa.

Miðvikudagur: Tók sýruæfingu í kring um flugvöllinn í launhálku og norðan kalda. 5,1 km á 20 mínútum, samtals 11,3 km
Fimmtudagur: Brekkuæfing, 6x250 metrar á 1.03 - 1.16 sek. Brekkan var brött og ég er sáttur. Samtals 8,3 km

föstudagur, febrúar 09, 2007

Powerade #5

Ég telfdi fjöltefli við páfann framan af degi, og var ekki viss um hvort ég kæmist í hlaupið. Það skánaði allt þegar leið að kveldi, svo ég ákvað að láta slag standa. Kom upp í Árbæjarlaug kl 19:50 og rétt náði að skrá mig og heilsa þeim sem vildu kannast við mig.
Veðrið var frábært, vægt frost og þéttur snjór á stígum. Ég hljóp án hálkugorma og reyndist það rétt ákvörðun, því snjórinn var stamur. Tempóið var nokkuð jafnt miðað við hvað brautin er hæðótt. Ég var sprækur framan af og var að mér sýndist í c.a. 10 sæti þegar 3 km voru að baki. Þá var þreytan aðeins farin að segja til sín og 3-4 jogguðu framúr mér á 4. kílómetra. Eftir það fór ég fram úr einum og einn fram úr mér. Rafveitubrekkan var erfið, en þó ekki eins og í fyrstu tveim hlaupunum, svo ég tali nú ekki um í fyrra. Trausti Valdimarsson dró verulega á mig í brekkunni svo ég þurfti að gefa vel í síðasta kílómetrann. Sem betur fer keyrði hann sig út í brekkunni, þannig að ég náði að hafa hann á síðustu 500 metrunum. Tíminn var 41:45 og meðaltempó því 4:11. Garmurinn var óvenju nákvæmur, og mældi hann vegalengdina 9,99 km. Það bar helst til tíðinda að félagi Þórólfur var á eftir mér, en mig grunar að hann hafi slegið slöku við æfingar eftir að hann gerðist pabbi.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

12 á þriðjudegi

Í dag hljóp ég samtals 12 rólega kílómetra. Ég var þreyttur í dag, líklega ávöxtur æfinga undanfarinna daga. Vonandi hristi ég þetta af mér fyrir fimmtudaginn. Ef ekki, þá verður bara að hafa það.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Ekkert mál

Tók góða brettaæfingu í kvöld tæpa 10 km auk 300 metra sundspretts á eftir. Æfingin var sem hér segir:

  1. Upphitun 2,8 km á 4:48 - 5:00 tempói. Púls 130 - 135 bpm
  2. Brekkupýramídi á erfiðleikastigi 10. 3,55 km púls 169 - 172 bpm
  3. 3,2 km hratt (12:30) byrjaði í 4:17 en jók hraðan fljótlega í 4:00 og 3:46. Púlsinn var stöðugur í 170 - 173 og ég leyfði mér að auka hraðan hressilega síðustu 500 metra. Hraðast fór ég 2:43 og fór létt með það.
  4. Rólegt jogg 300 m

Formið er á hraðri uppleið, en nú er verkefni næstu 2 mánaða að ná viktinni aðeins niður, því nú sýndi hún 68,2.

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Þetta er allt að koma

24 km á laugardagsmorgni á 5:06 meðaltempói. Snjór yfir öllu og stöku hríð, hiti um og undir frostmarki. Leiðin lá inn í Kópavog fyrir Kársnesið og upp Fossvogsdal og Elliðaárdal upp að stíflu. Hljóp síðan sömu leið til baka, nema hvað ég stytti mér leið í Kópavoginum. Þetta var tekið á negatífu splitti og voru síðustu 12 kílómetrarnir hlaupnir á c.a. 4:50 tempói.

Vikuskammturinn 57 kílómetrar og formið er á uppleið.

Nú ætla ég að gíra mig inn á Powerade hlaupið á fimmtudaginn, það þýðir væntanlega erfið en snörp æfing á mánudag og rólegt á þriðjudag með nokkrum stuttum hraðaaukningum.

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

3 km á 10:55 !!

Í kvöld fór ég á bretti 9 km. Þetta var frekar áköf æfing, upphitun og niðurskokk frekar hratt með 3 km á miklum hraða, hélt 3:42 tempói allan tímann og bætti í síðustu 500 metrana.

2 km frekar hröð upphitun (10:00)
3 km mjög hratt (10:55)
4 km á vaxandi hraða (18:55)
samtals: 9 km / 39:50

Mér leið vel allan tímann og fékk aldrei á tilfinninguna að ég væri að klára mig. Formið er því allt að koma og spennandi að sjá hvað kemur út úr powerade hlaupinu eftir viku.

Viktin er á réttri leið 66,95 kg.

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Ég er brettatöffari

Síðasta vika var frekar klén, en þessi ætlar að verða skárri. Samtals hef ég lagt að baki 27 km og stefni á amk 60, með löngum laugardegi.

Ég komst ekki í hlaupahópinn á laugardaginn, en rolaðist 7 km á 40 mínútum á sunnudeginum. Tók tíkina með og var hún frekar leiðinleg þennan dag og nennti ekki að hlaupa. Ég þurfti því að draga greyið hálfpartinn á eftir mér. Það var rigningarúði og ég ekki í stuðinu.


Tók brekkupýramýdann í gærkveldi (3,36 km). Byrjaði á erfiðleikastigi 10 og hélt hann út í c.a. 9 mínútur og minnkaði þá hraðann hressilega, enda hallinn 14% og ég orðinn andstuttur. Jók þó aðeins við ferðina í lokin. Þegar ég held út 18 mínútur á 10 er ég orðinn nokkið góður held ég. Þessi æfing finnst mér hjálpa mér mikið í brekkuþoli. Að öðru leyti var þessi æfing 2 km upphitun og 2,6 km á vaxandi hraða, byrjaði í 13 km/klst og endaði í 18-20 km síðustu 200 metrana. Samtals 8 km. Viktin var jákvæð og sýndi 67,4 kg. Ég stend enn við að vera kominn niður í 64-65 kg í vor.

Í kvöld var hlaupinn stóri Garðabæjarhringurinn samtals 12 km á sléttum klukkutíma. Þetta ver negatíft splitt. Fyrri hluta leiðarinnar var ég samferða hlaupahópnum, en síðri hlutinn hljóp ég í kring um Ása hverfið og kláraði kílómetrana 12 á hitaveitustokknum. Það var launhált í kvöld.

Íslendingar féllu með sæmd í viðureign sinni við Danmörk í HM í handbolta. Miðað við höfðatölu þjóðanna unnum við hinsvegar stórsigur.

laugardagur, janúar 27, 2007

Fjör á föstudegi

Það er nóg að gera í vinnunni, þannig að það gefst minni tími til kroppatamninga en venjulega. Ég skrapp þó á brettið í kvöld og tók smá í tækin á milli setta. 7 km samtals sem samanstóð af 2 km upphitun á 10 mínútum, 3 km hratt á 11:25 og síðan 2 km þar sem ég tók 2x(500 þokkalegur hraði + 500 hratt) á samtals 8 mínútum. Þetta tók hressilega í og finn ég að formið er ekki alveg upp á sitt besta.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Strákarnir okkar.....

Strákarnir okkar spiluðu á röngunni í gær, en réttunni í dag. Ég vara samt við of mikilli bjartsýni, því það þarf að halda mótið út. Frakkaleikurinn var sigur varnarinnar með þá Alexander, Sigfús og Sverri í broddi fylkingar og Birki í geigvænlegu stuði í fyrri hálfleik.

Læddi mér á brettið eftir leikinn og tók brekkupýramídann. Byrjaði á erfiðleikastigi 10, en fann fljótt að ég var ekki í stuði í kvöld og þurfti að minnka hraðann í brattasta kaflanum. Náði þó að fara 3.35 km á þessum 18 mínútum og samtals 5 km þegar upphitun er meðtalin. Púlsinn var > 180 í 14 mínútur og telst þetta því vera góð sýruæfing. Viktin sýndi 68,5 og verð ég að fara að taka mig á til að koma henni niður í 65 fyrir maí eins og yfirlýst markmið er.

sunnudagur, janúar 21, 2007

13 - 10

13 km rólegt um Garðabæ og Kópavog í 10° frosti og stillti veðri. Veðrið var fallegt og félagsskapurinn góður.

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Seint telst ég sundmaður góður...

Ég hef aldrei verið þekktur fyrir sundfimi, þó ég teljist þokkalega syndur. Skriðsundið hjá mér er mikill bægslagangur og notast ég því mest við bringusundið og baksundið. Ástæðan fyrir því að ég er að básúna þetta er, að ég synti í kvöld heila 1100 metra á sléttum hálftíma. Lengra hef ég aldrei synt í einu. Þetta kom ekki til af góðu, því ég ætlaði á brettið. Ég uppgötvaði svo að ég hafði gleymt stuttbuxunum heima Þar sem ég er spéhræddur maður og annt um mannorðið, kunni ég ekki við að hlaupa á sundskýlunni. Sundið tók þokkalega í, þar sem ég er ekki vanur slíkri hreyfingu í þessu magni. Í heild er ég sáttur við afrekið og mikið var gott að svamla í heita pottinum á eftir.

sunnudagur, janúar 14, 2007

Gæðaæfing

Það var fjölmennur hópur sem lagði upp frá sundlaug Garðabæjar að morgni laugardags. 12 manns og ein tík fóru í halarófu upp í Heiðmörk og pjökkuðust áfram í þungu færi. Veðrið var gott, vægt frost, gola og smáhríð öðru hvoru. Það var sérstök stemming að hlaupa í gegn um fallegan furulund í hríðarkófinu. Askja mín var alsæl í snjónum lagði að baki talsvert lengri leið en ég. Þegar út á veg var komið stóðumst við Grétar ekki mátið og tókum nokkra hressandi hraðaaukningar. Að hlaupa í svona færi reynir allt öðruvísi á mann en venjulega. Ökklar og kálfar styrkjast sérstaklega og hraðaaukningarnar upp og niður brekkur taka hressilega í lærvöðva. Það sat í mér þreyta eftir Powerade hlaupið og var ég þægilega þreyttur það sem eftir lifði dags. 13,8 km lagaðir að baki í dag og vikan samtals 33 km. Þetta var góð vika og erfiðari en kólómetrafjöldinn segir til um. Nýliðarnir í hópnum eru efnilegir og það verður gaman að kljást við þá þegar líða tekur á árið.

föstudagur, janúar 12, 2007

44:20 í þæfingsfærð

Powerade fór fram í kvöld, 110 þáttakendur og stemmingin góð. Veður var ágætt, en eftir ríflega snjókomu dagsins var færið erfitt, hálkugormar voru málið. Ég byrjaði brattur, fullur sjálfstraust og hélt ágætum hraða mestallt hlaupið. Ég hengdi mig fljótlega aftan í Þórólf (nýbakaðan föður) og tókst furðanlega að halda í við hann. Rafveitubrekkan var tekin með trukki og fór ég fram úr Þórólfi, en efst í henni dó ég gersamlega og Þórólfur fór fram úr mér við annan mann (skynsamur maður Þórólfur). Ég staulaðist meðfram lóninu í mark.
Þetta var frábært hlaup og mjög góð tempóæfing.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Veikasti hlekkurinn

Joggaði rösklega heim úr vinnu 9,2 km á 40:30. Kalt í veðri, en stillt. Ein tánöglin datt af þegar ég var að snyrta þær. Táin er búin að vera að angra mig síðustu daga og endaði á þennan veg. Þetta þykir mér leitt, en sennilega er skynsamlegt að taka smá hlé frá hlaupum.

laugardagur, janúar 06, 2007

Langur laugardagur

Það var mjög gott hlaupaveður í dag, vægt frost og hægur vindur. Hlaupahópurinn var óvenju vel mannaður í dag, þar sem þrír fræknir nýliðar mættu. Allt eru þetta menn sem hafa stundað boltaíþróttir af kappi á yngri árum (án þess að ég sé að gefa í skyn að þetta séu aldraðir menn, enda yngri en ég). Hlaupið var upp með læknum og upp í Heiðmörk. Nýliðarnir skildu við okkur hjá mastrinu, en ég, Gísli, Sveinn og Grétar fórum lengri leiðina heim. Samtals hljóp ég 21 km á 2 kls og 2 mínútum, meðal púls var 142bpm. Það er langt síðan ég hef hlaupið svona langt og situr þetta rólega hlaup því meira í mér en ella.
Samtals hef ég því hlaupið 45 - 46 km í þessari viku.

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Innipúki....

Ég daðra við hlaupabretti þessar vikurnar. Í gær hljóp ég 1 km upphitun og 5 kílómetra á brekkuprógrammi þar sem hlaupið var í 2 mín/0% halla + 2 mínútur/5% halla, þetta gerði ég á stöðugum 4:36 min/km tempói.
Í kvöld fór ég niður í Ásgarð og tók 7 km á brettinu, sem skiptist þannig:
  1. Upphitun - 2 km á 5:00 tempói
  2. Píramídinn 3,3 km á 18 mínútum á erfiðleikastigi 9 , reyndar jók ég hraðann talsvert um miðbik. Næst prófa ég erfiðleikastig 10.
  3. Hratt á 0% halla 2,7 km á 10 mínútum. Byrjaði á 4:00 og jók hraðann jafnt og þétt niður í 3:20.

Á milli setta fór ég í tækin og tók maga, brjóst og handleggi. Teygði vel í heita pottinum á eftir.

mánudagur, janúar 01, 2007

Uppgjör ársins

Um áramót er til siðs að líta yfir farinn veg síðustu 12 mánaða og horfa fram til næstu 12. Heilt yfir er ég sáttur við árið. Það byrjaði ekki vel þar sem ég fór illa í bakinu á aðventunni og byrjaði ekki að hlaupa af viti fyrr en í mars. Ég kom mér í ágætis form og hljóp Heilsuhlaup Krabbameinsfélagsins á 40:20 í strekkingsvindi. Um hvítasunnuhelgina slasaðist ég aftur í baki og var frá í 3 - 4 vikur af þeim 0rsökum. Ég æfði vel í sumarfríinu, sérstaklega þegar við fórum á vestfirðina. Meðal annars fór ég inn og út Reykjarförðinn 23 km og upp á Breiðdalsheiði 2 dögum síðar 22 km. Í kjölfarið fórum við til Svíðjóðar og tókst mér að hlaupa sæmilega þar, þrátt fyrir merltingarfæratruflanir með tilheyrandi vökvatapi. Selfosshlaupið voru vonbrigði þar sem ég ætlaði að ná undir 40 mínútum, en veðrið gerði þann draum að engu. 3 km endasprettur í strekkingsmótvindi var of mikið fyrir mig. Ég hljóp 1/2 maraþon í haustmaraþoninu á 1:26:57 og var ég alsæll með það. Einnig hljóp ég 3 poweradehlaup á þokkalegum tímum. Árið endaði svo með stæl á 39:26. Þar með var aðalmarkmiði ársins náð.

Árið sem er að ganga í garð er óskrifað blað, en ég stefni á að bæta besta árangur minn í 10 km götuhlaupi. 38:21 er tími sem er viðmiðið þetta árið. Það verða liðin 10 ár frá því að ég náði þessum árangri og er því viðeigandi að reyna að bæta það. Svo stefni ég á að fara niður á 1:24 í hálfu og debútera í heilu (ég gef ekki upp áætlaðan tíma).

Á elleftu stundu !!

Langþráðu takmarki náð í gamlárshlaupi ÍR, 10 km voru farnir á undir 40 mínútum, nánar tiltekið 39:26. Aðstæður voru frábærar, logn og hiti við frostmark. Ég byrjaði hlaupið hratt og voru fyrstu 5 kílómetrarnir á 19:15. Það var launhált á Seltjarnarnesinu, þannig að það dró aðeins af mér á 6. kílómetra, en með góðri aðstoð Dags Egonssonar og spretti niður Tjarnagötuna tókst mér að ná takmarkinu.

Árið verður annars gert upp í sér pistli....