þriðjudagur, október 31, 2006

Morgunstund

Í morgun var hátíð á mínum bæ, þar sem Árni er 7 ára í dag. Hann fékk kastala og kalla frá hinum fjölskyldumeðlinum => mikil lukka.
Ég ákvað að hlaupa í vinnuna og gerði það með láði 9 km á 37:10 sem gerir4:05 tempó. Þetta er ágætt sérstaklega miðað við að ég hljóp heim í gærkveldi á svipuðu tempói ( mínútu hægar). Núna líður mér vel og er tilbúinn til að takast á við verkefni dagsins.

Ég stefni á að taka eina brekkuæfingu fyrir powerade hlaupið og vonast til að komast undir 40 ef veður leyfir....

mánudagur, október 30, 2006

Heimfús

Joggaði 9 km í dag, heim úr vinnu í frábæru veðri. Þessi gjörningur tók tæpar 40 mínútur.
Á laugardaginn var farinn Álftaneshringurinn hinn meiri, samtals voru farnir 17 km. Nýju skórnir sem ég keypti eru eitthvað gallaðir, því það skellur mun hærra í hægri skó en þeim vinstri. Ég var líka óvenju þreyttur í baki og hægri fæti eftir þennan rólega dag. Ég ætla að skipta skónum.... Síðasta vika gerði sig á 35 km, sem er svo sem allt í lagi, en mætti vera meira. Þessi vika verður endaslepp þar sem á morgun á yngsti sonur minn 7 ára afmæli og á fimmtudag verður farið í sviðaveislu í tilefni 114 ára ártíðar ömmu hennar Guðfinnu. Ég ætla að reyna að skokka eitt hádegi til að vega á móti þessari skerðingu, því Powerade er í næstu viku og þá á að taka á því ef veður leyfir.

þriðjudagur, október 24, 2006

Nú er frost á fróni

Hljóp úr vinnunni beint í hlaupahópinn. Eins og vanalega lagði ég 5 mínútum of seint af stað svo ég þurfti að spretta úr spori. Ég er enn aðeins eftir mig eftir haustmaraþonið svo þetta var erfitt. Við hlupum í kring um Vífilsstaðavatn. Það var skítkald og ég loppinn á fingrum, en samt frábært. Samtals 18 km í dag og núna líður mér vel :D

laugardagur, október 21, 2006

1:26:56

Í dag er ég glaður í dag mun ég fagna !!

Haustmaraþonið fór fram í dag og hljóp ég 1/2 maraþon. Ég stillti garminn á hlaupafélaga og lét hann hlaupa leiðina á 1 1/2 tíma, sem var mitt opinbera markmið. Í laumi gældi ég við að fara niður á 1:28, en þegar upp var staðið fór ég niður fyrir 1:27, sem þýðir að meðaltempó var 4:07. Veður var frábært, hægur andvari og svalt. Mér leið vel allan tímann og það var ekki fyrr en c.a. 4 km voru eftir að ég fékk smá krampa í vinstra lærið (svipað og í powerade um daginn). Við það hægðist örlítið á mér á 18. kílómetra (4:26), en ég náði að halda dampi og síðasta kílómetrann fór ég undir 4 mínútur. Mér tókst að hlaupa nokkuð jafnt og var splittið nokkuð jafnt fyrir utan 18. km.

Vikuskamturinn hljóðar upp á 42,5 km þar af 25 í dag.

Svo er árshátíð Landsbankans í kvöld og þá verður fagnað.... af hófsemd þó ;)

laugardagur, október 14, 2006

Rok og rigning

Það voru 6 hraustmenni sem hlupu frá Ásgarði í morgun. Hlaupið var móti SA strekkingi og rigningu upp í Heiðmörk. Sem betur fór var hlýtt. Skammtur dagsins 80 km með meðalhraða upp á 5:30 og meðal púls 145. Einhverjir verkir í vinstri kálfa þýða að ég tek því rólega í næstu viku, en stefni þó á 1/2 maraþon næstu helgi...

fimmtudagur, október 12, 2006

Powerade #1

Fyrsta powerade hlaup vetrarins fór fram við kjöraðstæður, 12°C og hægur andvari. Margir tóku þátt og var talað um met í því samhengi. Helst var myrkrið að hrjá mig, því helmingur leiðarinnar er óupplýstur og seinasti 1,5 km er á móti sterkum flóðljósum á Fylkisvellinum. Tíminn var sæmilegur 40:50 og giska ég á að ég hefði allavega farið þetta 30 sek betur í dagsbirtu. Flesta kílómetra hljóp ég undir 4 mínútum, nema hvað km 8 og 9 voru nálægt 5 mínútum. Ég fékk krampa í vinstra læri eftir c.a. 7 km og losnaði ekki við hann fyrr en 500 metra frá marki. Ætli ég hafi ekki verið c.a. tuttugasti í mark. Vikuskammturinn stefnir í 50 km, sem er nauðsynlegt fyrir haustmaraþonið.

mánudagur, október 09, 2006

Mér finnst rigningin góð

Hljóp heim í frábæru veðri, andvari og mildur rigningarúði eftir mat hljóp til tengdó og hjálpaði þeim aðeins við að færa til skápa. Þau eru nefninlega að poppa upp húsið sitt, endurnýja bað og eldhús ásamt því að mála. Samtals 13 km í dag, þar af fyrstu 9 á c.a. 4:30 tempói

Næstum því undir 40

Fór í Geðhlaupið um helgina og hljóp í blíðskaparveðri 10 km á 40:01 .... segi og skrifa fjörutíu mínútur og einni sekúntu. Mig vantar að losna við 2 sekúntur til að varamarkmiði ársins sé náð. Dagur Egons dró mig áfram á km 2 - 4, annars hefði ég líklega farið þetta hægar. Brautin er frekar erfið, talsvert um brekkur þannig að ég er í sjálfu sér sáttur.... en samt ekki. Nú er bara að taka á því í powerade á fimmtudaginn.

Á föstudaginn var haustfagnaður hlaupahópsins. Harpa og Engilbert voru gestrisnin uppmáluð og Gísli og Guðjón fóru á kostum.

Annars er ég ekki búinn að vera neitt sérlega duglegur að hlaupa síðustu vikur. Kílómetramagn sem hér segir:

1-7. okt 33 km (þ.m.t. geðhlaupið)
24-30. sept: 41 km, þar af voru 25 hlaupnir í frábæru veðri í Danmörku
17-23 sept: 34 km
10- 16. sept: 10,5 km
3 - 9 sept: 39 km

Ég þarf aðeins að taka í afturendann á mér og ná amk 45 km á viku ef ég á að gera einhverjar rósir.

Stefnan er að taka powerade hlaupin í vetur og haust og vormaraþon (1/2 núna í okt)