fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Góðar og slæmar fréttir

Fór á brettið í hádeginu, 5 km á 16 km/kls hraða allan tíma og max halla upp á 3%. Tíminn var 18:45. Púlsinn steig nokkuð jafnt og þétt upp í 180. Það er eitthvað annað en á mánudagskvöld þegar hann rauk upp á fyrstu 3 mínútunum á sama hraða og ég þurfti að hægja ferðina verulega. Þetta voru góðu fréttirnar. Slæmu fréttirnar eru þær að ég tognaði lítillega í kálfa eftir átökin. Líklega vegna þess að ég hitaði ekki nógu vel upp .... reyndar hitaði ég alls ekkert upp :D, því þetta átti að vera skyndiæfing. Kannski verð ég vitrari með hækkandi aldri. Ég verð vonandi orðinn góður á laugardaginn kemur.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

(S)labb

Komst ekki í hlaupahópinn vegna vinnu, en hljóp heim. Það sóttist seint, enda færið frekar slæmt í hlákunni. Þessir 9,3 km tóku liðlega 50 mínútur.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Leti

Það fór lítið fyrir hreyfingu um helgina af ýmsum ástæðum, sem ég ætla ekki að tíunda hér. Fór 8 km á bretti í Ásgarði í kvöld og var þungur á mér einhverra hluta vegna. Tók 7 km á 29:30 og var á 175 - 180 bpm mestallan tímann. Ég á að geta betur en þetta. Viktin sagði 67,5 kg og ætla ég að reyna að halda þessari vikt fram eftir vetri og létta mig um 3 kg fyrir sumarið.

föstudagur, nóvember 24, 2006

Álftanesrykkir og brekkupúl á bretti

Í gær var rykkjaæfing á Álftanesinu. Það var hált á útleiðinni, svo ég tók eins og 2 hraðaaukningar. Vaselínbrekkan var tekin á góðu tempói og annar rykkur upp að Hrafnistu í Hafnarfirði. Rólegt jogg heim 10,5 km á rétt rúmri klukkustund.

Fór með Gulla vinnufélaga mínum í þreksal Landsbankans í hádeginu. Fór á brettinu 10 km á 45 mínútum. Tók eitthvað prógram sem heitir "rolling hills". Það tók ágætlega í og var ég á 175 - 180 bpm í c.a. 40 mínútur (9 km). Viktin var með jákvæðasta móti heil 65,5 kg. Vikan er nú komin upp í 39 km.

Smáhugleiðing um hlaupaskó: Ég keypti mér Asics Kayano skó vorið 2005 og hljóp á þeim um sumarið. Þetta sumar var nárinn eitthvað að stríða mér, en samt ekki þannig að það háði mér á hlaupum. Ég fann fyrir eymslum þegar ég kólnaði. Ekki tengdi ég þetta skónum þá. Á miðvikudaginn var hljóp ég hraða 5 km á brettinu á þessum skóm og það var eins og við manninn mælt að náravesenið tók sig upp aftur.
Í gær fór ég á nýju New Balance 1060 skónum mínum og í dag á gömlu New balance 1023 og finn ekkert til í náranum. Nú legg ég Kayano skónum fyrir fullt og allt og kaupi ekki svoleiðis skó aftur. Áður en ég keypti Kayano skóna var ég á Asics Nimbus skóm og fann ég aldrei fyrir neinum meiðslum í þeim. Nimbus eru reyndar einir bestu skór sem ég hef átt. Ég hef líka átt nokkra Reebok skó og líkaði vel framan af, en missti trú á loftpúðaskó þegar sprakk á öðrum skónum og ég tók ekki eftir því fyrr en einn rigningardaginn þegar skvampaði í öðrum þeirra.
Mergur málsins: Skór skipta máli

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Dagur hlaupabrettisins

Ég fór í hádeginu á hlaupabretti. Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af þessum tækjum, finnst meira gefandi að hlaupa úti við. Hluti af upplifuninni er nefninlega að njóta náttúrunnar sem Guð skapaði og handverks mannanna. Ilmur af birki, rjúpa á steini, svell á vatni, kaldur norðangarri, lárétt rigning, fallegur garður, vegaframkvæmdir, húsaviðgerðir, jólaseríur í gluggum og tunglskin eru allt hlutir sem þeir sem svitna á hlaupabretti fara á mis við.
En sem sagt þá fór ég á svona tæki í dag og lét mér duga 5 km á mesta hraða sem brettið bauð upp á (16km/klst = 4:45 mín/km). Þetta reyndist mér léttara en ég átti von á og geri ég þetta aftur við tækifæri.

Rólegt

Skammtur dagsins 13 km af rólegu joggi mestan part, enda bíður færið ekki upp á annað. Færið þokkalegt og farið að hlána, ætli ég fari ekki á hlaupabretti svo sem eins og einusinni í vikunni til að fá almennilega hraðaæfingu.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Íþróttapabbi ársins....

Ekkert var hlaupið um helgina því ég var á þeytingi um stór-stór garðabæjarsvæðið með börnin mín á hin ýmsu íþróttamót. Helgin byrjaði klukkan 7 á laugardagsmorgunn þegar við Árni keyrðum til Keflavíkur á fótboltamót í 7. flokki. Það gekk vel, og sigruðu sinn riðil. Við feðgar fórum vígreifir heim. Þvínæst fór ég í Mosfellsbæjinn til að sjá Björn á Íslandsmótinu í blaki í 3. flokki. Og síðan lá leiðin til Selfoss þar sem Anna var að keppa í trompfimleikum. Ég rann í hlað kl 21:00. Dagurinn í dag byrjaði kl. 6:40, því fyrsti leikur Björns byrjaði kl 8. Færðin setti strik í reikninginn og þurfti ég að moka mig út úr innkeyrslunni. Það er mun skemmtilegra að sjá börnin sín svitna af áreynslu, en að gera það sjálfur.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Einn með sjálfum mér

Strætó var seinn, svo ég missti af félögum mínum í skokkhópnum. Reyndar grunar mig að mætingin hafi verið dræm (jafnvel engin) vegna veðurs (norðan strekkingur og 5 stiga frost). Það kom sér því vel að mér lyndir sérlega vel við sjálfan mig. Ég fór litla Garðabæjarhringinn með afbrigðum. Tók 4x300-500 m brekkuspretti undan vindi og einn kílómetra áfanga eftir flötunum (tempó 3:34). Ég klæddi mig eftir veðri, var í flíspeysu undir vindjakkanum og með skíðahanska, mér var því aldrei kalt. Samtals hljóp ég 11 km í dag. Brekku og áfangaæfingar eru þess eðlis að þær ganga nær mér en löngu æfingarnar eða styttri á jöfnum eða vaxandi hraða. Ég hef þá trú að ein áfangaæfing í viku sé nauðsynleg ef maður vill bæta sig í 5 - 10 km hlaupi. Þær eru til þess fallnar að auka hraða í fótum og bæta sprettþolið, sem kemur sér sérstaklega vel síðasta 1 - 1,5 km í hlaupi. Ég stefni á að taka amk. eina slíka æfingu í viku.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Brrrrrrrrrrrr

Í gær var kalt, hlaupahópurinn joggaði í rólegheitum litla Garðabæjarhringinn, fullrólega kannski því mér var kalt og átti erfitt með að koma hita í kroppinn. Fingurnir voru eins og grýlukerti og ég fékk ekki hita í þá fyrr en eftir 35 mínútna hlaup. Afrakstur dagsins var 12 km á rúmlega 5 mínútna meðaltempói.
Á mánudag hljóp ég mitt eigið "Hlaupið undan vindi" hlaup úr vinnu og heim. Vonandi næ ég 40 km þessa vikuna, en á laugardaginn verður ekki þverfótað fyrir íþróttaviðburðum hjá börnunum mínum, svo hlaupin verða að víkja er ég hræddur um. Það verður bara gaman...

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Lognið á eftir storminum...

Í gær (Laugardag) var fallegt vetrarveður og hægur vindur. Ég var ekki alveg í stuðinu um morguninn að fara í hlaupahópinn, en fór 12 km sídegis á meðan lærið var í ofninum. Meðaltempó var um 5 min/km og engin þreyta í mér eftir powerade. Við keyptum lambaket frá Austurlambi og erum ekki svikin af því. Lærið bragðist dásamlega og gott að fá prótein svona stuttu eftir hlaup.
Vikuskammturinn var 29 km

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Slagveður og heitur pottur

Powerade hlaupoið fór fram með pompi og prakt í kvöld í roki og rigningu. Þegar upp var staðið hljóp ég kílómetrana 10 á 41:57, sem verður að teljast gott miðað við aðstæður. Mun hvassara var í enda hlaups en byrjun og mér skilst að það eigi enn eftir að versna.

Á þriðjudaginn lullaði ég 7 km með 4 stuttum hraðaaukningum.

laugardagur, nóvember 04, 2006

Gagn og gaman

Á fimmtudaginn var gagn, þá hljóp ég heim úr vinnu á móti roki og regni, kílómetrarnir 10 voru farnir á 44:26 eða 4:25 tempói. Ég er sáttur við það því þetta var ekkert auðvelt. Um kveldið voru étin Svið að íslenskum sið.

Í dag var gaman, því veður var með besta móti. Fremur hlýtt í veðri, gola og tært loft eftir rigningu næturinnar. Dagsskammturinn var 17 km sem farinn var á tiltölulega jöfnum hraða, þó tók ég 3 góða rykki.

Vikan var 45,5 km. Ég er dulítið þreyttur í baki. Sennilega vegna þess að nú eru meiri hlaup á malbiki en áður og ég tók 3 hraðar æfingar í vikunni. Næsta vika verður rólegri, nema í Powerade að sjálfsögðu.

Ég skipti skónum sem ég keypti hjá Daníel í Afreksvörum og fékk 1060 skóna. Hinir voru eitthvað að angra mig og þessir eru mun betri. Þjónustan var til fyrirmyndar og þarna versla ég aftur.