miðvikudagur, júlí 22, 2009

Laugavegurinn 2009

Laugavegurinn 2009 mun standa uppúr sem einn af hápunktum ársins hjá mér. Ég komst í hlaupið af biðlista og var lengi að koma mér í gang með æfingar. Byrjaði eiginlega ekki fyrr en seinnipartinn í apríl. Ég hljóp eitt maraþon í undirbúningnum og er því lýst í annarri færslu.
Þegar ég skráði mig á biðlistann var það með hálfum hug því ég var ekki viss um að ég gæti undirbúið mig sómasamlega fyrir hlaupið. Veturinn var erfiður og hlaupamagnið í sögulegu lágmarki. Þegar ég fékk póstinn frá keppnishöldurum ákvað ég þó að láta slag standa og reyna að undirbúa mig sómasamlega fyrir þrekraunina. Ef undirbúningurinn færi í vaskinn myndi ég þó allavega geta skrölt þetta á 8 klukkutímum og reynt að njóta leiðarinnar.

Undirbúningur:
Undirbúningurinn var ekki langur, en þar sem ég hafði hlaupið nokkuð reglulega í rúm 15 ár taldi ég að það kæmi ekki mikið að sök. Fyrsta hlaup væri hvort sem er meira könnunarleiðangur en keppni. Eftir maraþonið hélt ég áfram að auka við æfingamagnið og hljóp ég eitt langt hlaup í viðbót, einnig tók ég þátt í miðnæturhlaupinu og tók 10 kílómetrana á 40:37 sem ég er mjög sáttur við. Ég reyndi að hafa æfingarnar fjölbreyttar og hafa hæfilega blöndu af rólegum og hröðum æfingum, brekkum og sléttlendi. Það tókst að mestu, nema hvað ég hefði átt að æfa uppgöngu og niðurhlaup í miklum bratta sérstaklega. Tveim vikum fyrir hlaupið gekk ég leiðina á tveim dögum ásamt syni mínum, bróður mínum og hans syni og einum öðrum feðgum. Fyrri daginn var niðaþoka og rigning, þannig að ég fékk ekki mikla tilfinningu fyrir fyrri hluta leiðarinnar. Seinni daginn var háskýjað og þurrt, jafnvel lét sólin svo lítið að sýna sig öðru hvoru.
Eftir gönguna fór fjölskyldan í 9 daga tjaldútilegu um Vestfirði. Ég náði að æfa þokkalega og hafði ágæta tilfinningu fyrir hlaupinu. Heim var komið að kveldi miðvikudags. Fimmtudagurinn fór í rólegheit. Bíllinn var þrifinn og farið yfir búnað. Um kvöldið útbjó ég mér orkubita að hætti Gísla. Ég bætti um betur og súkkulaðihjúpaði þá. Það var aðallega gert til að losna við klístrið og fá smá auka koffín.

Stóri dagurinn:
Ég sótti gögnin á föstudeginum og pakkaði ofan í tösku. Veðurspáin var nokkuð góð, hægviðri, sæmilegur hiti og að mestu þurrt, en í ljósi þess að veður á hálendi Íslands getur brugðið til beggja vona pakkaði ég meiru en minna niður. Fyrir háttinn smurði ég mér tvær góðar samlokur með smjöri, skinku, osti, grænmetissmyrju og brakandi fersku salatblaði úr garði tengdaforeldra minna. Að auki setti ég banana, appelsínusafa og kókflösku í nestisboxið. Ég fór að sofa um tíu leitið, þar sem rútan átti að fara kl. 4:30 frá Engjaveginum.
Laugardagsmorguninn 18 júlí vaknaði ég klukkan 3:50, gúffaði í mig vel söltum hafragraut og pakkaði niður nestinu. Það var syfjaður hópur sem lagði af stað frá Reykjavík. Ég var í fyrsta ráshóp og voru því helstu sleggjurnar í minni rútu. Í Hrauneyjum var stoppað og etinn árbítur. Meðan pöpullinn stóð í morgunverðarbiðröðinni snæddi ég minn heimagerða árbít og ræddi við félaga Lárus um landsins gagn og nauðsynjar. Við renndum inn í Landmannalaugar hálftíma fyrir hlaup og hafði ég því í nógu að snúast við að græja mig fyrir hlaupið. Veðrið var frábært og ákvað ég á síðustu stundu að vera í hnébuxum, stuttermabol og vindjakka, þar sem eg vissi ekki hvernig veðrið væri á skerinu. Ég var nestaður brúsa af orkudrykk og tveim orkustöngum. Tveim mínútum fyrir hlaup var ég svo kominn í stíuna og ekkert annað að gera en að bíða eftir rásflautunni. Planið var að taka þetta á 6 klst og nú var að sjá hvort það tækist.

Landmannalaugar - Hrafntinnusker (1:10:30):
Þegar gall í rásflautunni mjakaðist hópurin upp eftir einstiginu. Ég í hógværð minni hafði plantað mér aftast í röðina og fyrstu 200 metrarnir voru röltir á 3 mínútum. Tilfinning var góð, næringarástand gott og smá tími til að rabba við gamlan skólafélaga sem ég hafði ekki séð í nokkurn tíma. Smám saman greiddist úr hópnum og röltið varð að röskri göngu með smá skokki inn á milli. Ég færði mig smám saman framar í hópinn. Þegar út í keppni er komið, vilja föðurlegar ráðleggingar mér eldri og reyndari manna gleymast, og það gerðist hér. Fljótlega var ég kominn á hæla Rakelar Ingólfsdóttur og fleiri sem ég vissi að voru að stefna á 5:30. Lágvær innri rödd sagði mér að slaka á og hægja á, en í innstæðulausu sjálfsáliti mínu þaggaði ég snarlega niður í henni -- ég var svo mikið að "fíla" mig -- Ég kom inn í Höskuldarskála á tímanum 1:10:30 sem er allt of hratt. Þar stoppaði ég í eina mínútu og gaf mér góðan tíma til að fá mér vatn og orkudrykk og losa um reimar á vinstri skó, sem ég hafði reimt aðeins of fast.

Hrafntinnusker - Álftavatn (1:11:35):
Fljótlega eftir að ég lagði af stað frá skerinu fór ég að finna fyrir stífleika aftan í hægra læri. Ég ákvað því að hægja aðeins á mér og sjá hvort þetta lagaðist ekki. Það gerðist því miður ekki og bröltið á fyrsta leggnum var farið að segja til sín. Ég virkaðir þungur og þreyttur og ferðin niður Jökultungurnar var mjög erfið. Þarna kom berlega í ljós að ég kann illa að hlaupa niður brattar brekkur. Neðarlega í brekkunni þusti vinnufélagi minn, Róbert Gunnarsson fram úr mér og virkaði hann mjög léttur á fæti. Ég ákvað með sjálfum mér að reyna að fylgja honum eftir því ég taldi að ég ætti að vera hraðari en hann á jafnsléttu, þó hann hefði augljóslega talsverða yfirburði í brekkunum. Eftir Grashagakvíslina tekur við nokkuð sléttur og greiðfær kafli og þar hélt ég ágætis dampi. Þó var ég kominn með leiðinda sting í vinstri ristina, ekki þó svo mikinn að það háði mér. Í bakþankanum var samt sú staðreynd að það voru einmitt verkur á þessum stað sem héldu mér frá hlaupum í tvo mánuði fyrir 2-3 árum síðan. Tíminn í Álftavatni var 2:23 eða talsvert frá áætluðum tíma. 21 kílómetri að baki og 34 eftir (kom reyndar í ljós að þeir voru bara 32).

Álftavatn - Emstrur (1:46:28)
Ég stoppaði stutt í Álftavatni og hljóp svo með Róberti á meðan mér entist þrek til. Hann var sprækur og skildu leiðir við Bratthálskvíslina. Ég sá þarna að líklega myndi takmark mitt um að slefa undir 6 tímana ekki nást, því skrefin voru þung. Ég missti hvern hlauparann á fætur öðrum fram úr mér og ég var farinn að sætta mig við plan B, sem var að fara undir 6:30 og hafa gaman af þessu. Við Bláfjallakvíslina stoppaði ég, setti vindjakkann minn í töskuna mína og skipti um drykkjarbrúsa. Ég hafði bara etið hálfa orkustöng fram að þessu og var í góðu næringarástandi. Áfram hélt ég og enn var ég að missa menn framúr mér, þar á meðal Ásgeir Elíasson Bibbukall sem var föngulegur í appelsínugula bolnum sínum. Nú tók við erfiðasti hluti leiðarinnar. Það byrjaði að rigna fljótlega eftir að ég beygði út af veginum og kaldur vindur blés í fangið. Mér fannst þetta þó eiginlega betra en verra, því þetta frískaði mig upp. Sandurinn er lúmskt erfiður að hlaupa í og þegar þarna var komið við sögu var ég orðinn mjög þreyttur í fótunum. Tempóið á hlaupunum var í kring um 6 mín/km, talsvert hægar en ég hafði gert mér vonir um (5 min/km var meira í takt við mínar væntingar). Á leiðinni mætti ég ferðamönnum, sem undantekningalítið hvöttu mig áfram. Það varð meira virði eftir því sem á leið. Við fallegan læk hitti ég fyrir fornvin minn Halldór Lárusson, sem var á göngu ásamt fleira fólki. Urðu þar stuttir fagnaðarfundir og hélt ég áfram undir dynjandi hvatningarhrópum. Áfram var haldið eftir söndunum og niður brekkuna í Botna á ágætis dampi (ég hleypti engum fram úr mér þar !!).

Emstrur - Húsadalur (2:06:28):
Í Botnum náði Lárus mér og hlupum við samsíða um það bil kílómetra. Hann var þá kominn 5 mínútum á undan mér, því hann var í næsta ráshóp á eftir mér. Lárus var nokkuð léttur á fæti og þar kom að leiðir skildu. Brekkan niður að Emstru á var erfið og komst talsverð möl ofan í skóna mína. Þurfti ég því að staldra við og tæma skóna áður en haldið var yfir brúna. Þegar hér var komið við sögu leið mér þokkalega, en var enn þungur á mér. Ég var alveg laus við krampa og meltingartruflanir. Það eina sem amaði að mér voru þungir fætur, sem greinilega voru ekki alveg nógu vel undirbúnir undir þessa áreynslu. Verkirnir voru heldur skárri og ég var orðinn nokkuð viss um að slefa þetta undir 6:30.
Við Ljósánna tóku hressir starfsmenn á móti mér og fékk ég mér Bounty bita og kók í tilefni þess. Þar var mér sagt að einungis 5 kílómetrar væru eftir, en ég hafði gizkað á 6 til 7. Ég sá því að líklega færi ég undir 6:20 ef ég dæi ekki á Kápunni. Við rætur Kápunnar hitti ég fyrir hlaupara sem var á síðustu bensíndropunum. Ég laumaðist í neyðarbirgðir mínar (heimalagaður orkubiti) og bauð honum. "Ég er ekki í aðstöðu til að neita neinu" sagði þessi ágæti maður um leið og hann tók við lífsbjörginni. Á þessum lokakafla fann ég óvænt að átti nóg eftir og gekk rösklega upp Kápuna og fór eins hratt og ég þorði niður hana. Eftir að yfir Þröngánna var komið setti ég í annan gír og hljóp upp brekkuna og blastaði svo niður stíginn að Húsadal eins og druslan dró. Síðustu 100 metrarnir voru teknir á spretthlaupstempói, því ég sá að ég átti möguleika á að fara undir 6:15. Það tókst þó ekki, því lokatíminn var 6:15:05. Móttökurnar í markinu voru mjög góðar, starfsmenn boðnir og búnir til að hlú að örþreyttum og skjögrandi þátttakendum.

Húsadalur - Garðabær
Ég var mjög sáttur við frammistöðuna þegar í mark var komið. Sérstaklega með að ég hafi átt nóg inni. Líklega hef ég átt innstæðu fyrir tíma á bilinu 6:05 - 6:10, en varla undir það. Það er þó erfitt að dæma um það, því ég fór of bratt af stað. Það eru fullt af ef-um sem aldrei verður svarað.
Stemmingin í Húsadal var með eindæmum góð og einhvernveginn fannst mér eins og allir væru sigurvegarar þar með talinn undirritaður. Ég hitti Lárus í karlatjaldinu og var hann súrsáttur við sitt hlutskipti. Tíminn rétt slefaði yfir 6 tímana. 10 sekúntum betri tími og hann hefði verið sætsáttur ;) Eftir sturtu og "heita" pottinn sem reyndar var hlandvolgur settumst við niður í grilltjaldinu og fengum okkur ljúffengar lambasneiðar með tilheyrandi jukki. Við Lárus sátum á borði með heiðurshjónunum Erni og Báru og ofurhlauparanum Gunnlaugi, sem er laundrjúgur yfir afrekum sínum (og hefur efni á því). Fyrsta rúta heim og áttum við Lárus gott spjall saman á leiðinni heim. Gerðum upp hlaupið og rifjuðum upp valin atriði úr Nætur- og Dagvaktinni. Þegar heim var komið var tekið á móti hinum 45 ára 363 daga gamla húsbónda með kostum og kynjum. Góður endir á góðum degi.

Uppgjör
Framkvæmd hlaupsins var á heimsmælikvarða, stemmingin og þjónustulund starfsmanna var með eindæmum góð. Gögnin sem við fengum í hendur voru frábær og öll aðstaða á marksvæði til fyrirmyndar. Viðmót almennra ferðamanna var síðan til að kóróna upplifunina.
Eftir á að hyggja held ég að ég hafi átt inni c.a. 10 mínútur en varla mikið meira en það. Um það er þó ómögulegt að segja ef ég hefði farið mér hægar upp að skeri. Ég hef það á tilfinningunni að ég geti tiltölulega auðveldlega komist niður á 5:30 - 5:40, en þá þarf ég að bæta nokkra hluti eins og t.d. hlaup upp og niður brattar brekkur og bæta styrktaræfingum í æfingaprógrammið og síðast en ekki síst að bæta gæði og magn hlaupaæfinga.

Debut

Laugardaginn 6. júní síðastliðinn þreytti ég frumraun mína í maraþon hlaupi. Ákvörðunin var tekin í lok apríl, þannig að ekki var langur tími til skipulegs undirbúnings. Ég hugsaði hlaupið meira sem æfingu fyrir laugavegshlaupið en einhvern sperring við að ná topp tíma. Veturinn hafði verið afspyrnuslakur og ég því ekki í góðu formi. Undirbúningur hófst í viku 17, en hlaupið var þreytt í viku 23 og spannaði því aðeins 7 vikur. Markmiðið var að hlaupa skynsamlega og halda mér meiðslalausum. Hvort tveggja heppnaðist svosem þokkalega, en eftir á að hyggja hefði kannski átt að hlaupa oftar í viku. Æfingaálag vikanna var sem hér segir:

vika - fjöldi æfinga / km heild / lengsta hlaup / athugasemd
17: 3 / 31 / 20

18: 3 / 38 / 20
19: 2 / 23 / 12
20: 2 / 25 / 17
21: 2 / 50 / 32 / langa hlaupið var mjög erfitt og lenti ég á vegg eftir 25 kílómetra
22: 2 / 48 / 35 / langa hlaupið mjög þægilegt
23: 3 / 42,2 / 69

Það voru því ekki nema tvö löng hlaup í undirbúningnum, og mánudaginn fyrir hlaupið tók ég fulla Yasso æfingu niðri í Kaplakrika. Það var með vilja gert því maraþonið átti jú að vera æfing frekar en keppni.
Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur. Hiti um 15 stig sól og hæg norðanátt. Hlaupið var haldið inni í 100 kílómetra hlaupinu sem fram fór inni í Fossvogsdal og Grafarvogi. Brautin er tvær 5 kílómetra slaufur og hljóp ég því ríflega 4 slaufur. Planið var að hlaupa þetta á 3:40 og lagði ég af stað á tæplega 5 min/km tempói (c.a. 3:30 heildartími), því ég átti von á að gott væri að eiga innstæðu fyrir hraðaminnkun á síðari stigum. Drykkjarstöðvar voru á 2,5 kílómetra millibili og ákvað ég að stoppa c.a. 10 sekúntur á hverri stöð og gefa mér góðan tíma til drykkju. Þetta gekk vel fyrstu 25 kílómetrana, en þá fann ég að þreytan væri farin að segja til sín, ég hægði því aðeins á mér, en hélt ágætis dampi. Loka tíminn var 3:37:45 sem ég er mjög sáttur við. Ég var aldrei nálægt þessum vegg sem margir lenda á og var fljótur að jafna mig á hlaupinu og mætti á æfingu á þriðjudeginum lítið þreyttur - æfingin heppnaðist því fullkomlega. Ég stefni á að bæta tíma minn verulega í næsta maraþon hlaupi og þá verð ég vonandi lengur að jafna mig ;)

Langt síðan síðast....

Það er liðinn langur tími síðan ég síðast skrifaði eitthvað hér. Ástæðan er fyrst og fremst sú að ég skrái nú allar æfingar á hlaup.com (þeirri frábæru síðu). Ég ætla að reyna að summera upp síðasta ár í þessari færslu og nota það svo til að skrifa um þau keppnishlaup sem ég fer í og tel þess virði að skrásetja.

Sumarið 2008 var laklegt hlaupasumar (en mjög gott að öðru leyti). Ég var latur í júlí og meiddist smávegis á fæti í ágúst, nóg til að komast ekki í Reykjavíkurmaraþonið. Bankarnir hrundu yfir þjóðina og þá tóku við erfiðar vikur og mánuðir fyrir okkur sem vinnum í banka (sem og aðra) og hljóp ég lítið sem ekkert fram að áramótum.

Ég ákvað að taka þátt í gamlárshlaupi ÍR og náði furðanlega góðum tíma 43:21 sem ég var mjög sáttur við miðað við það sem á undan var gengið. Tók líka powerade hlaup 8. janúar á 44:03.

Ég byrjaði aftur að hlaupa reglulega í janúar, svona 2-3 í viku. Það var mikið vinnuálag á mér fyrstu þrjá mánuði ársins og var stundum erfitt að finna hentugan tíma til hlaupaiðkunar.

Það var svo ekki fyrr en í Apríl að ég fann hlaupagleðina aftur, minna að gera í vinnunni og sólin hærra á lofti. Ég gat að vísu ekki hlaupið í 2 vikur vegna smá meiðsla, en eftir sumardaginn fyrsta hef ég verið meiðslalaus og aukið æfingamagnið jafnt og þétt.

Í byrjun júní hljóp ég fyrsta maraþonið mitt og tók laugaveginn síðasta laugardag. Báðir þessir viðburðir verðskulda sér færslu.

föstudagur, maí 09, 2008

Flugleiðahlaupið

Mér hefur alltaf fundist orðið Flugleiðir vera fallegra en Icelandair. Icelandair er eflaust skynsamlegt nafn í markaðsstarfi erlendis, en afhverju að breyta því hérlendis ?

Nóg um það. Ég hljóp allavega þessa 7 kílómetra á 27:30 sem eru rúmum 20 sekúntum lakari árangur en í fyrra. Ég var illa fyrir kallaður, enda var ég að vinna fram yfir miðnætti kvöldið áður og fékk einungis 5 tíma svefn um nóttina. Ég fann það strax á öðrum kílómetra að þetta yrði streð. Ég sparaði mig því aðeins á 5. og 6. kílómetra til að eiga smá orku eftir fyrir endasprettinn, sem var hvortveggja í senn undan vindi og brekku.

Veður var frábært og ekki fékk ég útdráttarverðlaun frekar en fyrri daginn. Ég rifjaði það upp að ég fékk einungis ein útdráttarverðlaun í uppskeruhátíð Powerade fyrir ári síðan, þrátt fyrir að hafa tekið þátt í öllum hlaupunum. Ég held að mitt nafn hafi eitt verið eftir í pottinum þegar ég loksins fékk forláta geisladiskaspilarahaldara fyrir hlaupabelti. Mjög praktískt og mikið notað ... eða þannig.

fimmtudagur, maí 01, 2008

Hérastubbur á 39:57

Ég þreytti hérahlaup breiðabliks í dag og skreið undir 40 mínúturnar. Það er tæpri mínútu betri tími en á sama tíma fyrir ári, en þá hljóp ég Fjölnishlaupið á 40:49. Það gefur mér góðar vonir um að hlaupa Icelandair hlaupið niður á 26 mínútur að viku liðinni. Ég er svona einum mánuði betri en í fyrra, því ég hljóp heilsuhlaup Laugaskokks á 39:59 sællar minningar fyrir réttum 11 mánuðum síðan.

Nú þarf ég að taka rólegu hlaupin rólegar og lengra og tempó hlaupin hraðar.

Árni sonur minn og Ásgeir vinur hans tóku 5 kílómetrana í nefið. Ásgeir á 23:56 og Árni á 24:30. Nokkuð vel af sér vikið hjá 8 ára guttum.

fimmtudagur, apríl 17, 2008

Enginn er verri þótt hann svitni.

Skrapp í Ásgarð í gærmorgun. Hitaði upp 4 km og tók svo 18 mínúta pýramídaprógramm á level 9. Ég var frekar þreyttur og kraftlaus - ekki veit ég eftir hvað, en kláraði þetta samt. Endaði svo á 5 km á 5 mínútna tempói.

mánudagur, apríl 14, 2008

Bretti á sunnudegi

Ég tók þægilega á því í Ásgarði í gær. 11 kílómetrar á brettinu, sem inniélt 9 mínútna brekkuprógram, 30 mínútna fartlek og upphitun/niðurskokk. Ég fann ekki mikið fyrir eftirköstum Flóahlaupsins, enda stillti ég álaginu í hóf.

laugardagur, apríl 12, 2008

Fjör í flóanum

Ég ásamt Árna 8 ára syni mínum og Frosta vini hans og sálufélaga tókum þátt í Flóahlaupi Samhygðar í dag. Við vorum seinir fyrir og mættum ekki á staðinn fyrr en 5 mínútum fyrir hlaup. Ég hljóp því án upphitunar. Ég byrjaði bratt að venju á 3:42 en það dró fljótlega af mér og lullaði ég restina á c.a. 4:08 tempói. Síðasta kílómetrann hljóp ég á 3:48. Tíminn endaði í 40:22. Piltarnir stóðu sig eins og hetjur og hlupu kílómetrana 3 á 14:30. Veður var yndislegt og ég er sáttur við árangurinn. Nú er bara að skrölta undir 40 í næsta hlaupi. Eftir kaffihlaðborð var haldið í sund á Selfossi og átti ég þar notalegt pottspjall við aðra hlaupara. Nú er ég búinn að graðga í mig lambalæri. Frábær endir á góðum degi.

fimmtudagur, apríl 10, 2008

Rólegur æsingur

Tók 6x400 niðri í Kaplakrika. Fór þá á hóflegum hraða (1:28, 1:21; 1:20; 1:21; 1:20; 1:26) þar sem ég er að gæla við að fara austur fyrir fjall og taka þátt í Flóahlaupinu. Þar verður ekki stefnt á neinn sérstakan tíma heldur á góða tempóæfingu. Mér skilst að þar sé boðið upp á kaffihlaðborð og bíð ég spenntur eftir því.

Rólegheit

Þriðjudagshlaupið var mjög rólegt og þægilegt 10,5 km á klukkutíma. Mér leið mun betur en á Sunnudaginn var. Vinstri fóturinn er enn að stríða mér án þess að ég sé almennilega meiddur. Þetta finnst mér bagalegt, því ósjálfrátt hef ég tilhneygingu til að hlífa mér.... kannski er þetta merki um að skynsemin aukist með aldrinum.