mánudagur, desember 19, 2005

Bakþankar

Í gær varð ég fyrir því óláni að detta á tröppunum heima hjá mér og laska bakið á mér. Betur fór en á horfðist og reyndist ég óbrotinn og er þetta sennilega mar á milli rifja. Verkurinn er slæmur en skárri en í gær. Ég tek því rólega í dag og ætli ég hafi ekk hlaupið mitt síðasta hlaup á þessu ári. Annars fór ég 11 km á fimmtudaginn og 9,2 km í gærmorgun í roki og hríð. Hálkugormarnir komu sér afar vel í því færi.

miðvikudagur, desember 14, 2005

Meiri myrkraverk

Ég fór í Poweradeá fimmtudagskvöld síðast og gekk þolanlega miðað við ástundun síðustu vikna. Ég slefaði þetta á 44 mínútum rúmum og var orðinn æði þreyttur í rafveitubrekkunni. Ég halaði inn 7 stig og finnst mér það furðu gegna að eftir því sem ég er í lakara formi gengur mér betur í samanburði. Til að mynda hef ég nokkrum sinnum unnið minn aldursflokk í Víðavangshlaupi Hafnarfjarðar, sem haldið er á sumardaginn fyrsta ár hvert. Þá hef ég verið í slöku formi, en það vill mér til happs að hlaupið er afar fámennt og eru yfirleitt 3-4 í mínum aldursflokk. Þeir hinir sömu eru þá í lélegra formi en ég og í allt öðrum þyngdarflokki.
Ég hljóp ekkert um helgina,
6,5 á mánudag stígandi tempó í 5 km og rólega 1,5. Í gær fór ég 9 km byrjaði 6,5 rólega með skokkhópnum og tók svo 4x380 m stígandi á tempói 4:02, 3:52, 3:44, 3:36. Mér leið ágætlega eftir þetta og vonandi fer formið að koma.

föstudagur, desember 09, 2005

Myrkraverk

Í gærkveldi var hlaupið Powerade, veður var gott hiti yfir frostmarki og austan kaldi. Stígarnir voru auðir fyrir utan 10 m hálkukafla en skyggni var afleitt, sérstaklega þegar flóðljósin við Árbæjarlaug bar við sjóndeildarhring, þá sá ég ekki neitt og hljóp eftir minni. Tíminn var slakur, eða rúmar 44 mínútur, 15 sekúntur slakara en síðast og í betri aðstæðum. En þar sannast hið formkveðna að uppskeran er í samræmi við sáninguna. Ég hef nefninlega verið frekar latur við hlaupaæfingar og ekki náð 20 km á viku sl 3 vikur. Nú er bara að gyrða sig í brók og vera duglegri á aðventunni. Ég þarf fyrst og fremst að bæta við 12-15 km hlaupi einu sinni í viku, því að 5 km formið er ágætt, en heldur fer að halla undan fæti seinni hluta hlaups.

föstudagur, desember 02, 2005

Letinginn....

Ég er latur maður að eðlisfari og finnst fátt eins gefandi og að liggja uppi í sófa eða fletta í gegn um dagblöðin. Samt hef ég verið nokkuð duglegur síðustu vikur, nema hvað varðar hlaupin. Síðustu tvær vikur á undan þessari hef ég bara hlaupið einusinni hvora vikuna 9 km í hvort skipti. Þessi vika ætlar að verða betri því nú er ég búinn að hlaupa tvisvar eða samtals 18 km, og vikan er ekki búin. Ég ætla að reyna að hysja upp um mig brækurnar og vera duglegur fram að næsta Powerade hlaupi, því þar ætla ég að gera betur en síðast.

föstudagur, nóvember 18, 2005

Jólin nálgast...

Hlaupnir voru 10 staurasprettir í dag mislangir. Ég var hálf þreyttur, en færi og veður með ágætasta móti. Samtals voru hlaupnir 7 km í dag, ég er að spá í að fara í hádeginu á morgun og hætta snemma til að útrétta fyrir jólin og fjölskylduna.
Ég sá Kára Stefánsson í Kastljósinu í kvöld, og finnst hann frekar sjálfhverfur ef ég á að vera hreinskilinn. Þetta er eflaust ágætis maður og örugglega hörkugreindur, vinnusamur og ósérhlífinn. En það verður að segjast að hann er með afar sérstakan húmor.

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Blakmeistararar

Björn sonur minn og laukur sinnar ættar tók þátt í fyrri hluta íslandsmeistaramóti í krakkablaki um helgina. Hann hefur æft þessa íþrótt í rúmt ár núna og hefur mikið gaman af. Mótið gekk vel og vann hans lið sinn flokk (7.4 mix). Stjarnan hirti reyndar efstu þrjú sætin í þessum flokki og sínir það hversu gott verk þjálfararnir eru að vinna. Seinni hluti mótsins fer fram með hækkandi sól í höfuðstað norðurlands. Ekki veit ég hvernig þeir fara að því að finna út hver verður íslandsmeistari því margir krakkar flytjst upp um stig eftir þetta mót. Den tid den sorg, og ekki er það mitt að ákveða. Mótið var haldið af Aftureldingu og verður að segjast að þar unnu menn þrekvirki !! Tímasetningar stóðust í aðalatriðum og framkvæmd til fyrirmyndar.

laugardagur, nóvember 12, 2005

Laugardagsæfing #1

Í morgun fór ég 11 km með skokkhópnum upp í Heiðmörk. Tíkin var með í för og náði hún að slíta ólina sína snemma. Hún fékk því að hlaupa laus og liðug í þetta skipti. Það gekk vonum framan, en kannski var það vegna þess að Grétar var með sína tík og fylgdi Askja henni eftir. Ég þurfti að snúa við fyrr, þar sem ég þurfti að ná í Árna á fótboltaæfingu kl. 11. Kílómetrarnir 11 voru hlaupnir á c.a. klukkustund og gerir vikan því 39 km samtals.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Powerade

Í gærkveldi fór ég í mitt fyrsta Powerade hlaup, veður var þokkalegt snjóföl á jörðu og örlítil hálka. Ég var á hálkugormum og hjálpuðu þeir mér við að fóta mig. Ég gleymdi garminum þannig að ég var bara með skífuklukkuna mína, ég ákvað því að hlaupa eingöngu eftir hyggjuviti og líðan. Hlaupið fór frísklega af stað og hélt ég mér framarlega til að byrja með. Það átti eftir að koma mér um koll því ég var tíndur upp af þó nokkrum á 2 - 5 km. Eftir það hélt ég stöðu minni, fór fram úr einum og annar fór fram úr mér. Síðustu 3 km voru mér erfiðir og ég "dó" í rafveitubrekkunni. Einn hlaupari sótti fast að mér í brekkunni, en brekkan var honum greinilega jafn erfið og mér, þannig að ég hafði hann á lokasprettinum ef sprett skyldi kalla. Ég hef hlaupið þetta á c.a. 44 mínútum, sem er talsvert undir væntingum. Eftir á að hyggja er ég samt sáttur. Gormarnir hjálpuðu mér örugglega fyrstu 5 km, en voru íþyngjandi síðustu 3. Kannski hafa þriðjudagshlaupin líka eitthvað setið í mér (nú er ég farinn að afsaka mig full mikið). Skokkhópurinn ákvað að gleyma tímunum og líta á þetta hlaup sem góða tempóæfingu.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Skautahlaup

Í dag var ég venju fremur duglegur við hlaupin. Í hádeginu tók ég sýruæfingu í Elliðaárdalnum. 20 mínúturnar fór ég á 4,7 km, og þykir mér það gott miðað við árstíma og færi, því á köflum var býsna sleypt. Ég er að reyna að telja mér trú um að hálkan hafi haft af mér 300 metra í það heila. og sé ég því í formi til að hlaupa 5 km á 19:30, og 10 km á undir 41.
Seinni partinn lullaði ég með skokkhóp Garðabæjar 6,5 km. Ég keypti mér hálkugorma í Lyfju í Garðabæ og eru þeir þvílíkt þarfaþing í svona færi. Ég hljóp samtals 14 2/3 km í dag. Nú er stefnan tekin á Powerade nk fimmtudag og stefni ég á að hlaupa niður undir 41 mínútu, en að sjálfsögðu veltur það á veðri og færð.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Er ekki tilveran dásamleg...

Dagurinn var frekar stressaður framan af. Mikið að gera í vinnunni, enda mánaðarmót og þá er fjör í bankanum. Þegar heim var komið reimaði ég á mig hlaupaskóna og fór með Öskju í hlaupahópinn minn. Hún stóð sig með prýði og var eiganda sínum og sjálfri sér til sóma. Við hlupum u.þ.b. 10 km upp að og í kring um Vífilstaðavatn. Allt stress hvarf eins og dögg fyrir sólu, veðrið var frábært og færið gott. Þó þarf maður alltaf að hafa varan á þegar hlaupið er í snjó. Endaði daginn á að mála örlítið, spila við Björn og Guðfinnu. Horfði síðan á heimilisaltarið áður en ég fór að sofa.

miðvikudagur, október 26, 2005

Kuldi.....

Komst ekki í hlaupahópinn, þar sem ég þurfti að vinna aðeins lengur. Hljóp samt eftir að yngri börnin voru sofnuð, 5 km á góðu tempói (4:30) og síðan 3,5 km rólega samtals 8,5 km. Kalt var í veðri og norðan gola. Það virðist ekki fara í öndunarfærin á mér þessi kuldi og eru það nýmæli þegar ég á í hlut, vonandi verður framhald á því.

Við erum að undirbúa afmælisveislu fyrir Árna, en hann verður 6 ára á mánudaginn. Ég útbjó boðskort, þar sem þemað er "The Incredibles". Minn maður varð ekki smá hrifinn.

laugardagur, október 22, 2005

Út með hundinn

Dagurinn fór í námskeið, málningarvinnu og skokk, ég hljóp rúma 7 km mjög rólega. Tók tíkina mína með og var ekkert að stressa mig á tímanum. Hljóp þetta á 43 mínútum, en inni í því eru nokkur stopp. Veðrið var frábært og ekki annað hægt að segja en að haustið sé með ágætum hvað það varðar. Vikan gerði 26 km, betur má ef duga skal og stefni ég á 30 km næstu viku.

föstudagur, október 21, 2005

Hringavitleysa

Síðan ég kom frá San Fransisco hef ég reynt að stunda skokkhópinn minn reglulega. Það hefur gengið upp og ofan og þar helsta skýringin að ég fékk heiftarlegt þursabit á þriðjudaginn fyrir rúmri viku síðan. Ég gekk eins og giktveikt gamalmenni með gyllinæð í 3 daga á eftir. Svoleiðis hef ég ekki fengið síðan ég var 18 ára gamall eftir að hafa staðið boginn í heilann dag og mokað mold og grjóti af því að gröfukallinn var latur og vildi frekar liggja í sólbaði en að létta mér störfin. Þar með fór Powerade hlaupið út um þúfur og mætti ég ekki á æfingu fyrr en viku seinna, þ.e. í dag. Í dag fórum við 2x5x400m á tartan brautinni í kaplakrika, þ.e. tvær lotur af fimm fjögur hundruð metra sprettum. Tímarnir voru á bilinu 75 - 82 sekúndur, eða nánar tiltekið:

75, 79, 77, 80, 79
79, 81, 81, 82, 77

Samtals hljóp ég um 8 km í dag og 10,5 á þriðjudag.

Þessi óvelkomna pása hefur greinilega sett strik í reikninginn því að ég finn mikinn mun á þoli og þreki. Púlsinn fór ekki undir 140 í pásunum á milli spretta (2 min+), þannig að það er mikið verk fyrir höndum.

Kvöldið fór í að festa upp hillur og mála glugga, auk þess sem ég kláraði Harry Potter bókina nýjustu. Mér hefur einhvernvegin tekist að varðveita allavega hluta af barninu í mér. Fór allt of seint að sofa, en það er nú í lagi stöku sinnum.

miðvikudagur, september 21, 2005

San Fransisco og 23 km !!

Ég er staddur í San Fransisco á Oracle Open World. Þetta er gríðarlega stór rástefna með 35.000 þáttakendur. Það er svolítið fríkað að fylgjast með þessu öllu saman. Ameríkanar mega eiga það að þei kunna að skipuleggja svona atburði. T.d. gengur matartíminn ótrúlega snuðrulaust fyrir sig. Það væri fróðleg að sjá Íslendinga gefa 30.000 manns að borða á innan við klukkutíma. Við Gulli vorum að grínast með að Larry (Ellison CEO Oracle) hefði toppað frelsarann með því að metta 35.000.
Ég hef verið duglegur að hreyfa mig hér ytra eftir að mesta jet-laggið rjátlaði af mér. Á laugardag hljóp ég 9 km og 7 km á sunnudag. Hlaupið á sunnudaginn var erfitt, því ég hljóp upp og niður þessar bröttu brekkur í San Fransisco. Í gær prófaði ég gymmið hérna á hótelinu. Það er eitthvað með mig og líkamsræktarstöðvar, við náum ekki saman.
Í dag vann ég mikla hetjudáð. Ég hljóp nefninlega frá hótelinu að og yfir Golden Gate brúna. Mér hafði verið tjáð að það væru 6,5 mílur að brúnni og að brúin værr 2 km, þannig að þetta væru um 17 km leið. Annað kom á daginn og heildar vegalengdin var 23 km. Þetta tók ég á nákvæmlega 2 klst. Ég 'dó' í kring um 18 km, en hafði verið frekar hress fram að því. Ég er bara nokkuð ánægðu með sjálfan mig og það er ekkert fjarlægt að stefna á að taka fyrsta 1/2 maraþonið næsta sumar. Ég ætla þó ekki að gera það nema vera nokkuð viss um að klára það á 1:25 - 1:30 (maður hefur nú einhvern metnað ennþá).
Guðfinna er á leiðinni til mín þegar þetta er skrifað, ég hlakka mikið til að hitta hana. Á morgun ætla ég að hvíla mig.

sunnudagur, september 11, 2005

Rólegheit

Ekki var ég nú jafn aktífur um helgina og áætlað var, lullaði þó 6,5 km á 35 mínútum í morgun. Ég var frekar stirður, enda á það mun betur við mig að hlaupa seinni partinn. Við Guðfinna fórum í Húsdýragarðinn með litla settið (Anna og Árni) og Gunnar Ísak. Börnin skemmtu sér vel í góða veðrinu.

fimmtudagur, september 08, 2005

ekki dauður enn...

Ekki fór ég nú að hlaupa í gærkveldi, en ég hljóp með Garðabæjarhópnum núna áðan og sýndi Gísli sitt rétta innræti og lét okkur hlaupa tvö sett af 5x1mín spretti, þar sem við áttum að hlaupa eins og við gátum. Mér gekk ágætlega framan af, en maður var orðinn heldur slaklegur á síðustu sprettum. Við hlupum fyrsta settið niður flatirnar og seinna settið til baka (svolítið upp í móti). Ég varð reyndar hissa og ánægður með árangurinn (336 m, 383 m, 324 m, 352 m, 352 m, 313 m, 322 m, 324 m, 290 m, 295 m). Rosalega verður maður rólegur í fyrramálið :)
Hvort ég fer í Fjölnishlaupið á Laugardaginn veit ég ekki, en það er hætt við að þessir sprettir sitji í mér, og tíminn verði eftir því.

miðvikudagur, september 07, 2005

Út í buskann

Í gær hljóp ég 9,5 km á rólegu tempói, þetta 5:30-6:00 min/km. Það má segja að ég hafi hlaupið út í buskann, því ég hafði enga sérstaka áætlun um hlaupaleið. Ég tók ágætis hring úr mjódinni, yfir í Kópavog í gegn um kórahverfið upp á vatnsendahæð, inn í Breiðholt, fór í gegn um Vesturberg 78, þar sem ég bjó í árdaga og smákrókaleiðir í bakkahverfinu niður í mjódd. Veðrið var yndislegt og ákvað ég því að vera á rólegu nótunun og bara njóta þess að hlaupa. Formið finnst mér vera á uppleið, engin eymsli. Það verður spennandi að sjá hvernig mér gengur á laugardaginn. Planið fram að helgi er stutt og frískt hlaup í kvöld, kannski maður taki smá brautaræfingu, svo sem eins og 3x1000 svona til að stilla tempóið. Á morgun er planið að skokka létt með Garðabæjarhópnum.

sunnudagur, september 04, 2005

Framhald...

Eftir að við komum heim úr tjaldferðinni tókum við því rólega, og fórum að vinna í vikunni á eftir. Við Björn fórum reyndar eina nótt með göngutjald í Brynjudal og gengum síðan inn í Botnsdal daginn eftir og skoðuðum Glym. Askja fékk að slást í för og fannst henni þetta afar gaman. Þessi ferð reyndist mesta ævintýraferð. Við gengum upp norðanmegin við ána og gengum upp fyrir fossinn. Þar óðum við yfir og gengum sunnanmegin niður með henni. Fossinn og gljúfrið eru í einu orði sagt mögnuð og einkennilegt að maður skuli ekki hafa farið þetta fyrr.

Eftir að við komum heim úr tjaldferðinni, hef ég verið aðeins duglegri við hlaupin, en hef samt ekkert verið að hlaupa neitt sérstaklega langt. Yfirleitt verið að hlaupa tvisvar í viku og þetta 15 - 20 km í viku hverri. Þrátt fyrir þetta litla æfingamagn er ég samt að taka framförum !! Til að mynda er ég með eina æfingu sem ég held upp á og kalla 'sýruæfingu'. Hún er þannig að ég skokka rólega niður á ákveðinn stað í Elliðaárdalnum. Þar hleyp ég í 20 mínútur á keppnishraða (eða aðeins rólegar) og hleyp síðan rólega í mjóddina. Þetta losar 8 km. Í sumar hef ég farið úr því að hlaupa 4,3 km á þessum 20 mín, í 5 km. Síðasta slíka æfingin var núna á föstudag (5 km / 20 mín), og svo hljóp ég 5 km á 19:46 á Selfossi daginn eftir. Svei mér þá ef ég er ekki bara í nokkuð góðu formi. Nú er stefnan tekin á Fjölnishlaupið næstu helgi og stefni ég á að hlaupa 10 km á 40 mínútum. Takist það er ég mjög sáttur.

Skýrsla....

Jæja

Bloggið mitt er frekar slaklegt, en ég ætla að reyna að bæta mig. Frá Því að ég skrifaði síðast (22.6), hefur ýmislegt á daga mína drifið. Ég kom hekkinu niður og er ekkert meira um það að segja. Við fjölskyldan fórum í vikuferð til Spánar (rétt vestan við Malaga) ásamt tengdaforeldrum mínum, Gollu frænku og svo þeim Páli og Ingibjörgu. Tilefnið var 75 ára afmæli tengdamömmu. Við leigðum okkur eitt hús, sem var með einkasundlaug og garði. Þetta er eitthvað það sniðugasta sem við höfum gert. Nóg pláss og mikið næði, húsið var frábært og fór vel um alla. Veið gerðum sitt lítið af hverju, fórum einn dag á strönd, keyrðum til Gibraltar, fórum í skemmtigarð, lágum í leti á sundlaugarbakkanum, spiluðum Scrabble (Bjössi vann föður sinní fyrsta og örugglega ekki síðasta skiptið) og fleira. Ég fór þrisvar út að hlaupa, ég fór um kl 9 á morgnana áður en hitastigið fór yfir 30°. Ég hljóp þetta 6,5 - 10,2 km í hvert skipti og náði að safna 25 km. Seinasta daginn var ég aðeins seinna á ferðinni og komst ég að því að það er ekkert sniðugt að hlaupa í 30°, púlsinn var lengi að komast niður fyrir 130 eftir hlaupið. En þetta var ekkert sem sat í mér.
Eftir Spánarferðina fórum við hringferð í kring um landið með sérstakri áherslu á NA-land. Við gistum eina nótt á Akureyri, tvær nætur í Ásbyrgi, Þórshöfn og Vopnafirði, eina nótt í Atlavík og tvær á Krikjubæjarklaustri. Ég tók engar hlaupagræjur með mér í ferðina, enda finnst mér það ekki fara vel saman að stunda hlaup samhliða tjaldútilegu. Á Þórshöfn hittum við fyrir Ragnihildi mömmu Ingibjargar sambýliskonu Páls bróður Guðfinnu, og Guðrúnu dóttur Ragnhildar og hálfsystur Ingibjargar. Ragnhildur er að flytja til Egilstaða og var búslóðin meira og minna í kössum, en það var mjög gaman að hitta þær. Heimurinn er lítill komumst við að, því Guðrún er mjög góð vinkona Kötu frænku minnar á Egilstöðum og hún býr í gamla húsinu þeirra Kötu og Óla !! Við heimsóttum Helgu Maju og hennar fólk á Egilsstöðum. Maja og Magnús eru reyndar að flytja til Danmerkur í 1-2 ár, og var þeirra búslóð því líka í kössum. Það var mjög gaman að heimsækja þau og áttum við saman ánægjulega kvöldstund. Við gistum bara eina nótt á héraði, þar sem spáin var slæm. Við keyrðum því um kvöldið á Krikjubæjarklaustur og komum þangað upp úr miðnætti. Þar sem við hittum Eirík og Steinu og Hrafnhildi og Danna. Við hrepptum ágætisveður og skoðuðum m.a. Faðrárgljúfur, sem er frábær staður. Heim komum við vegmóð þann 19. júlí og var gott að koma heim, því heima er jú alltaf best.

miðvikudagur, júní 22, 2005

Nýr hlaupahópur í Garðabæ !!

Jæja, ég er orðinn stofnmeðlimur ásamt henni Katrínu ??dóttur undir styrkri leiðsögn Gísla Ásgeirssonar. Í gær var semsagt fyrsta æfing í hlaupahóp í Garðabæ, við vorum aðeins þrjú sem mættum að meðtöldum Gísla þjálfara. Hlaupið var rólega 7 km og tók gjörningurinn 40 mínútur sléttar. Veður var gott til hlaupa, skýjað og þurrt. Vindur var þó nokkur en ekki til vandræða. Ég vona að hið fornkveðna 'mjór er mikils vísir' reynist meira en orðin tóm. Nárinn hékk inni, fann þó örlítið fyrir honum. Nú verður maður bara að vera þolinmóður og byrja rólega og teygja vel.

Ég reif eitt birkitré upp með rótum í gærkveldi, stefnan er að vera búinn að gróðursetja hekkið áður en við förum út þann 30.

miðvikudagur, júní 15, 2005

Garðverkin

Ég hef lítið sem ekkert hlaupið vegna verks í nára. Við Björn hlupum 5 km fyrir nokkrum dögum og var ég frekar slæmur í náranum eftir, þrátt fyrir að hlaupið hefði verið mjög rólega. Hjólaði í vinnuna í morgun og fann örlítið til eftir það, þetta er vonandi allt að koma. Annars er nóg að gera í garðinum. Við erum að rífa upp gamalt og hálfdautt limgerði á lóðamörkunum og er ætlunin að planta einhverjum sígrænum runna þar, svo ætlum við að laga kantinn fyrir neðan hekkið, þannig að ég ætti að fá næga líkamsrækt næstu daga.

mánudagur, júní 06, 2005

Svimi og sæla

Helgin var góð, ég hljóp bæði á Laugardag og Sunnudag. Á Laugardaginn tók ég hundinn með mér upp að heiðmerkurhliði og til baka samtals 8,5 km. Vikan gerði sig því á 41,5 km. Í gær (sunnudag) fórum við fjölskyldan á vorhátíð barnakirkju Vegarins og skemmtu allir sér vel. Á eftir fórum við í sund niður í Laugardal og prófaði ég nýju keppnislaugina. Þetta er glæsilegt mannvirki og mjög gott að synda þar. Við Bjössi tókum nokkra spretti, hann vann einn, ég einn og tveir voru á pari, strákurinn er með mun betri sundtækni en ég (og þarf ekki mikið til), en ég er ennþá sterkari. Ég fór í krikann fyrir kvöldmat og hljóp 5x800 með 2:30 - 3:00 hvíld. Mér leist ekkert á blikuna eftir 2 spretti því mig svimaði svolítið og leið illa, en ákvað að láta reyna á það og hljóp 3 til viðbótar og sparaði mig aðeins og var bara í góðum gír. Sprettirnir voru á bilinu 2:49 - 2:58, þannig að ég er nokkuð sáttur. Í heildina hljóp ég 9,2 km og formið er að koma og ég vonast til að geta hlaupið miðnæturhlaupið á c.a. 41 mínútu. Annars er vinstra lærið að hrekkja mig. Mig grunar að ég sé með smá tognun þar. Ætli ég hvíli ekki í dag og sjái til á morgun.

laugardagur, júní 04, 2005

Látum verkin tala

Ég stóð ekki við það að hlaupa í hádeginu í gær. Var eitthvað aðeins tæpur í náranum að mér fannst og var þreyttur eftir gærdaginn. Ákvað að láta kroppinn njóta vafans. Hljóp hinsvegar heim í dag 6 km leið. Ég fór þetta á svona milli tempói upp á 4:48. var frekar þungur á mér, sem kannski helgast ða einhverju leiti af því að ég hélt á veskinu mínu og gemsanum og það munar um það þótt ótrúlegt sé (kannski þarf maður að fara að lyfta lóðum). Kvöldið fór í þrif og svo tókum við Björn í spil sem heitir “Osiris og Iris” sem er bísna skemmtilegt og ekki allt þar sem það er séð. Það byggir á því m.a. að skemma fyrir andstæðingnum, ekki ósvipað og í myllu eða skák, en þó allt öðruvísi. Læt þetta duga í bili, en ég held að ég sé að komast upp á lagið með að blogga....

fimmtudagur, júní 02, 2005

Gaman í Elliðaárdal

Í gær tók ég sýruæfingu í Elliðaárdalnum, þetta er æfing þar sem ég jogga rólega í c.a. 1,5 km og hleyp síðan á c.a. 85 - 90% púls í 20 mínútur (170 -180). Ég hleyp upp með Elliðaánum frá Breiðholtsbraut, upp að brúnni við Árbæjarlaug niður að og yfir stífluna og síðan niður með elliðaánum. Fyrsta 1.5 km er upp í móti, næstu 2.5 km eru nokkurnveginn á jafnsléttu og restin er niður í móti. Í gær hljóp ég 4.58 km á þessum 20 mín sem gerir 4:21 mín/km. Formið er að koma smátt og smátt því að síðast rétt slefaði ég 4.5 km og þar áður tæpa 4.4 km. Meðalpúlsinn er líka á niðurleið þannig að ég er að gera eitthvað rétt. Í dag ætla ég að skokka rólega í hádeginu 5 - 7 km á c.a. 5 mínútna tempói. Stefnan er að hlaupa c.a 40 km í þessari viku. Það eru 27 komnir í hús og aðeins 13 eftir, þannig að þetta ætti að hafast.

þriðjudagur, maí 31, 2005

Nú á að taka á því !!

Jæja, ég verð seint sakaður um að vera ofvirkur bloggari. En ég ætla nú að gera þar bragarbót á. Nú er ég farinn að skokka áftur eftir vetrarlangt hlé. Skólinn/vinnan/fjölskyldan er framar í forgangsröðinni. Skólinn er semsagt frá, nema hvað ég á eftir að taka við útskriftarskíteininu 11. júní. Ég ætla nú ekki að gera mikið úr því, kannski grilla aðeins fínni mat en venjulega.

Ég fjárfesti í forláta gps tæki fyrir hlaupara fyrir nokkrum vikum síðan. Græjan heitir Garmin 301 og er bæði hjartsláttarmælir og GPS tæki. Það eina sem vantar núna er að byggja MP3 spilara og þá er þetta orðið fínt. Annars hef ég aldrei komist upp á að hlaupa með músík í eyrunum. Mér finnst nefninlega gott að heyra ekki í tónlist þegar ég hleyp. Núna get ég semsagt fylgst með hvað ég hleyp langt og hratt og get ratað heim aftur ef ég tínist :)

Ég hef nú ekki hlaupið neitt sérstaklega oft eða langt þessar 4-5 vikur sem ég hef verið að gutla þetta. Þetta hafa verið þetta frá 15 til 35 km á viku, en nú á að gera bragarbót þar á. Í gær hljóp ég með Öskju upp að heiðmerkurhliðinu og heim aftur samtals 7 km, og í dag hljóp ég 12 km. Ég fór í Kaplakrika og tók 8x400 með 2 mínútna pásu, ég var að hlaupa þetta á rumlega 80 sek hvern sprett. Annars var garmurinn ekki mjög nákvæmur í kvöld. Hann hefur bætt c.a. 20 m við einhverja áfangana, þannig að tímarnir ættu að vera betri. Næst ætla ég að ýta sjálfur á 'lap' takkann. Annars var ég nokkuð hress, nema hvað vinstra lærið á mér er aðeins að stríða mér. Sennilega hef ég hlaupið aðeins of mikið á malbikinu í Elliðaárdalnum. Ofan á þetta hjólaði ég í og úr vinnu c.a. 40 mínútur total, þannig að í dag hef ég verið samtals í ríflega 2 tíma átaki og veitir ekki af því að viktin var frekar leiðinleg við mig í gær.

miðvikudagur, mars 09, 2005

Það brenna eldar

Nú eru allir orðnir vitlausir á fréttastofu RUV. Menn brigsla útvarpsráð og útvarpsstjóra um að láta annarleg (lesist pólitísk) sjónarmið ráða ákvörðun sinni um að mæla með og ráða Auðun Georg Ólafsson. Hvers á hann að gjalda !! Á hann að gjalda vináttu sinnar við Björn Inga Hrafnsson ?? Hvenær hefur vinátta verið talinn löstur. Vilja menn vinalausa menn í starfið.... spyr sá sem ekki veit. Og það að maðurinn sé framsóknarmaður gerir hann ekki óhæfann, þvert á móti. Það er kominn tími til að minnihlutahópar fái uppreisn æru í þessari stofnun. Erum við ekki öll orðin þreytt á að sjá þreitta, miðaldra hvíta karlmenn og konur vaða uppi með þröngsýnt (lesist vinstrisinnað) fréttamat. Það er kominn tími til að önnur sjónarmið fái að njóta sín. Það er ljóst að RUV veitir ekki af ferskum andblæ inn í það staða andrúm sem þar er. AGÓ er svo sannarlega ferskur blær, því hann hefur lítt komið að fréttamennsku. Hann er nánast hrein mey í því sambandi. Við getum alveg litið framhjá einhverjum bernskubrekum hjá Stöð 2 í því sambandi. Hann var nú einusinni bara krakki þá og þurfti aðeins að rasa út. Nú er honum farið að vaxa grön og er tilbúinn til að takast á við þau krefjandi verkefni sem bíða hans á nýjum vinnustað. Þar verður reynslan ekki að flækjast fyrir honum. Svo er alltaf gott að eiga vin í stað.

Annars er allt gott að frétta héðan úr Löngufit, við vorum að kaupa okkur nýjan bíl Hyundai Starex, og hugsum okkur gott til glóðarinnar í sumar. Þetta ku vera prýðis ferðabíll. Anna fór á sinfóníutónleika með skólanum í morgun og hafði gaman af. Árni er líka nýbúinn að fara. Björn er að fara að taka þátt í upplestrarkeppni í Garðaskóla á morgun og ætlar hann að lesa Borgarljóð eftir Tómas Guðmundsson.