föstudagur, maí 09, 2008

Flugleiðahlaupið

Mér hefur alltaf fundist orðið Flugleiðir vera fallegra en Icelandair. Icelandair er eflaust skynsamlegt nafn í markaðsstarfi erlendis, en afhverju að breyta því hérlendis ?

Nóg um það. Ég hljóp allavega þessa 7 kílómetra á 27:30 sem eru rúmum 20 sekúntum lakari árangur en í fyrra. Ég var illa fyrir kallaður, enda var ég að vinna fram yfir miðnætti kvöldið áður og fékk einungis 5 tíma svefn um nóttina. Ég fann það strax á öðrum kílómetra að þetta yrði streð. Ég sparaði mig því aðeins á 5. og 6. kílómetra til að eiga smá orku eftir fyrir endasprettinn, sem var hvortveggja í senn undan vindi og brekku.

Veður var frábært og ekki fékk ég útdráttarverðlaun frekar en fyrri daginn. Ég rifjaði það upp að ég fékk einungis ein útdráttarverðlaun í uppskeruhátíð Powerade fyrir ári síðan, þrátt fyrir að hafa tekið þátt í öllum hlaupunum. Ég held að mitt nafn hafi eitt verið eftir í pottinum þegar ég loksins fékk forláta geisladiskaspilarahaldara fyrir hlaupabelti. Mjög praktískt og mikið notað ... eða þannig.

fimmtudagur, maí 01, 2008

Hérastubbur á 39:57

Ég þreytti hérahlaup breiðabliks í dag og skreið undir 40 mínúturnar. Það er tæpri mínútu betri tími en á sama tíma fyrir ári, en þá hljóp ég Fjölnishlaupið á 40:49. Það gefur mér góðar vonir um að hlaupa Icelandair hlaupið niður á 26 mínútur að viku liðinni. Ég er svona einum mánuði betri en í fyrra, því ég hljóp heilsuhlaup Laugaskokks á 39:59 sællar minningar fyrir réttum 11 mánuðum síðan.

Nú þarf ég að taka rólegu hlaupin rólegar og lengra og tempó hlaupin hraðar.

Árni sonur minn og Ásgeir vinur hans tóku 5 kílómetrana í nefið. Ásgeir á 23:56 og Árni á 24:30. Nokkuð vel af sér vikið hjá 8 ára guttum.