miðvikudagur, október 26, 2005

Kuldi.....

Komst ekki í hlaupahópinn, þar sem ég þurfti að vinna aðeins lengur. Hljóp samt eftir að yngri börnin voru sofnuð, 5 km á góðu tempói (4:30) og síðan 3,5 km rólega samtals 8,5 km. Kalt var í veðri og norðan gola. Það virðist ekki fara í öndunarfærin á mér þessi kuldi og eru það nýmæli þegar ég á í hlut, vonandi verður framhald á því.

Við erum að undirbúa afmælisveislu fyrir Árna, en hann verður 6 ára á mánudaginn. Ég útbjó boðskort, þar sem þemað er "The Incredibles". Minn maður varð ekki smá hrifinn.

laugardagur, október 22, 2005

Út með hundinn

Dagurinn fór í námskeið, málningarvinnu og skokk, ég hljóp rúma 7 km mjög rólega. Tók tíkina mína með og var ekkert að stressa mig á tímanum. Hljóp þetta á 43 mínútum, en inni í því eru nokkur stopp. Veðrið var frábært og ekki annað hægt að segja en að haustið sé með ágætum hvað það varðar. Vikan gerði 26 km, betur má ef duga skal og stefni ég á 30 km næstu viku.

föstudagur, október 21, 2005

Hringavitleysa

Síðan ég kom frá San Fransisco hef ég reynt að stunda skokkhópinn minn reglulega. Það hefur gengið upp og ofan og þar helsta skýringin að ég fékk heiftarlegt þursabit á þriðjudaginn fyrir rúmri viku síðan. Ég gekk eins og giktveikt gamalmenni með gyllinæð í 3 daga á eftir. Svoleiðis hef ég ekki fengið síðan ég var 18 ára gamall eftir að hafa staðið boginn í heilann dag og mokað mold og grjóti af því að gröfukallinn var latur og vildi frekar liggja í sólbaði en að létta mér störfin. Þar með fór Powerade hlaupið út um þúfur og mætti ég ekki á æfingu fyrr en viku seinna, þ.e. í dag. Í dag fórum við 2x5x400m á tartan brautinni í kaplakrika, þ.e. tvær lotur af fimm fjögur hundruð metra sprettum. Tímarnir voru á bilinu 75 - 82 sekúndur, eða nánar tiltekið:

75, 79, 77, 80, 79
79, 81, 81, 82, 77

Samtals hljóp ég um 8 km í dag og 10,5 á þriðjudag.

Þessi óvelkomna pása hefur greinilega sett strik í reikninginn því að ég finn mikinn mun á þoli og þreki. Púlsinn fór ekki undir 140 í pásunum á milli spretta (2 min+), þannig að það er mikið verk fyrir höndum.

Kvöldið fór í að festa upp hillur og mála glugga, auk þess sem ég kláraði Harry Potter bókina nýjustu. Mér hefur einhvernvegin tekist að varðveita allavega hluta af barninu í mér. Fór allt of seint að sofa, en það er nú í lagi stöku sinnum.