föstudagur, júní 22, 2007

Allur að koma til

Í dag var Yasso dagur. Veður með eindæmum gott, hægur vestan andvari og 13 stig á mæli.
Tók 10 spretti og svo einn 400 metra í endann. Tímarnir talsvert betri en síðast allir á 2:51 eða 2:52 nema sá 9. var á 2:54 og 10 á 2:49. 400 metra spretturinn var farinn á 77 sekúntum, enda farið að draga af gamla manninum þegar hér var komið við sögu. Í fyrramálið skunda ég á skagann með yngsta soninn og horfi á hann iðka boltaspark. Mikil tillhlökkun á mínum bæ.

þriðjudagur, júní 19, 2007

Skokkað heim....

Veður er með besta móti þessa dagana til hlaupa og almennrar útivinnu, þ.e. stillt, hófleg sól og temmilegur hiti. Skokkaði heim úr vinnu á rétt rúmum 38 mínútum. Þar fyrir utan var stunduð garð- og málningarvinna. Framundan er Skagamótið í knattspyrnu, ég kemst því hvorki í Esjuhlaupið né Miðnæturhlaupið í ár. Í staðin verður skokkað á skaganum.
Í tilefni kvenréttindadagsins er rétt að óska konum til hamingju með daginn. Heldur fannst mér vera lítil stemming á Austurvelli þegar ég lagði af stað heim á leið. Hugsanlega voru þarna 50 - 70 manns (kvenns ??) með Kristínu Ástgeirsdóttur við gjallarhornið. Það vekur upp spurningar hvort jafnréttistbaráttan sé á einhverjum villigötum. Mín skoðun er ekki fastmótuð, en í mínum huga er jafnrétti það að allir fái sömu tækifæri óháð kyni, litarhafti eða trú. Á því eru þó augljósar undantekningar, t.d. kæmist ég seint í kvennakór, og heldur væri það ankannalegt ef múslími væri vígður prestur hinnar evangelísku lúthersku kirkju. Reynar grunar mig að þar innanborðs séu einhverjir trúleysingjar.

sunnudagur, júní 17, 2007

Gullpabbi Garðabæjar

Þjóðhátíðardagurinn er í dag um land allt. Veður stillt og meinhægt, úrkomulaust og sólin glennti sig öðru hvoru. Ég fór með Árna og Önnu í hið árlega víðavangshlaup Garðabæjar. Reyndar er ekki hlaupið á víðavangi, heldur á fótboltavellinum. Hvað um það, við komum heim verðlaunum hlaðin. Árni varð þriðji í sínum flokki rétt á eftir nágrannavini sínum honum Ásgeiri. Anna fékk silfur í tíu ára flokknum og undirritaður hlaut gull í pabbaflokknum. Ég ber því nafnbótina Gullpabbi Garðabæjar þetta árið. Það þykir mér mikill heiður. Reyndar er það mér mikill heiður að vera faðir barnanna minna óháð íþróttaafrekum því þau eru talsvert í móðurættina.

Dagurinn var hefðbundinn, skrúðganga, lúðrasveit, fjallkona, hoppukastalar og kvenfélagskaffi. Við Björn kíktum á gospeltónleika í Hellisgerði seinnipartinn. Það var ágætis skemmtun, en rennslið hefði mátt vera betra. Strákarnir okkar sáu mér fyrir örlitlum hjartsláttartruflunum undir lok leiksins, en Serbarnir voru lagðir að velli með minnsta mun.

laugardagur, júní 16, 2007

Heiðmörk í strekkingsvindi.

Fór með Gísla, Gerði og Jóhanni upp í Heiðmörk. Samtals 23 kílómetrar í dag. Tempóið var frekar rólegt, enda er ég að reyna að temja mér skynsemi í löngu hlaupunum. Strekkings Suðaustanáttin var dásamleg. Þegar hlýtt er í veðri og farið er hægt er nefninlega ekkert að rokinu. Vikan gerði sig á 52 kílómetra sem er alveg þokkalegt.

fimmtudagur, júní 14, 2007

Tíu og hálfur Yasso

Ekkert var hlaupið á þriðjudag vegna slappleika. Húsasmiðjuhlaupið og æfingin á mánudag eiga líklega einhvern hlut að máli. Líklega hef ég ekki verið nógu duglegur að borða orkuríkan mat, því ég hef misst 1,5 kíló á einni viku. Ég hef því innbyrt sérlega mikinn mat síðustu tvo daga og líður mér mun betur.
Í hlaupahópinn bættust við tveir nýjir meðlimir, þau heita Anna og Árni. Ég gleymi þeim nöfnum líklega ekki því ég á tvö börn sem bera þessi fallegu nöfn. Í dag var Yasso dagur. Ég hljóp 10 slíka spretti og manaði svo Guðmund í einn 400 metra sprett í lokin (Gísli... má það ?). Tímarnir á sprettunum voru: 2:57, 2:59, 2:55, 2:54, 2:55, 2:55, 2:54, 2:56, 2:56, 2:53. Ég var kominn í netta endorfín vímu á síðasta spretti og reyndist hann mér í raun léttastur svo einkennilega sem það hljómar. 400 metra spretturinn var á 73 sek. Flesta sprettina hljóp ég á negatífu splitti, ég gaf örlítið í síðustu 200 metrana. Samtals voru hlaupnir 18 kílómetrar í dag.

Mér fann mig vel í dag. Ég hef þá trú að taka þátt í tveimur 10 kílómetra keppnishlaupum með viku millibili gerir mér gott. Nú er bara að missa ekki dampinn og ná amk. 4 æfingum á viku í sumar, þar af tveim með mikill ákefð, eina langa og eina til tvær léttar og þægilegar.

mánudagur, júní 11, 2007

Rykkir á Álftanesi

Ég mætti í hópinn minn í fyrsta skipti í allt of langan tíma. Gísli var þar kominn frá útlöndum, þar sem hann hefur dvalið í vellystingum. Hann kveðst nú reiðubúinn að tala inn á fleiri pókerþætti. Einnig voru þar fyrir þær stöllur Harpa og Inga. Teknir voru 6 rykkir, þar sem fjölbreytnin var í fyrirrúmi. Sumir voru upp í mót, en aðrir undan halla eða á sléttlendi. Helmingur rykkjana var á móti vindi og hinn með vindinn í bakið. Þetta gekk allt saman ljómandi vel, en ég er ekki frá því að laugardagurinn sitji örlítið í mér, samtals 11,5 kílómetrar í dag. Kvöldið notaði ég til að festa upp nýtt sturtusett og horfa á lokaþáttinn af Heros.

laugardagur, júní 09, 2007

Húsasmiðjuhlaupið 39:15

VIð feðgar tókum þátt í Húsasmiðjuhlaupinu í dag. Björn og Árni hlupu 3 kílómetra og ég 10. Björn varð annar í sínum flokki og hljóp á 14:00, Árni hljóp á 14:30, sem verður að teljast mjög góður árangur hjá ekki eldri dreng.
Sjálfur hljóp ég kílómetrana 10 á 39:15, sem er besti tími minn í mörg ár. Byrjaði að elta Þórólf og tókst það fram á 3. kílómetra, en þá seig hann framúr mér. 50 metrum fyrir aftan mig var Ívar Auðunn og hélst sá munur allt hlaupið. Þetta hélt mér við efnið og ég ætlaði ekki að láta hann komast of nálægt mér. Það tókst sem betur fer og kláraði ég hlaupið með nokkuð örugga forystu á hann. Nú er mánuður í næsta 10 kílómetra hlaup og þá vonast ég til að bæta þennan tíma talsvert. Í mínum villtustu draumum fer ég undir 38:00. Millitímarnir voru annars sem hér segir:

1. 3:37 3:37
2. 3:49 7:26
3. 4:01 11:27
4. 4:13 15:40
5. 4:26 20:06
6. 4:05 24:11
7. 3:49 28:00
8. 3:33 31:33
9. 3:46 35:19
10. 3:56 39:15


miðvikudagur, júní 06, 2007

Rok

Ég skrölti út í krika í gærkveldi, hljóp þar 2 km á 8 mínútum og var ekkert að klára mig þannig lagað. Samtals einungis 5,5 kílómetrar.
Mér finnst vera komið nóg af roki og rigningu í bili. Stefnan er tekin á Húsasmiðjuhlaupið næstkomandi laugardag.

sunnudagur, júní 03, 2007

Sunnudagstúrinn

Í dag hlóp ég 15km á 75 mínútum. Byrjaði rólega fyrstu 6 kílómetrana, en jók tempóið uppúr því. Gærdagurinn sat aðeins í mér og var ég frekar lúpulegur fram eftir degi.

39:59

Heilsuhlaup Laugaskokks og Landsbankans fór fram í dag og tók ég þátt. Það var hlýtt en talsverður vindur. Ég byrjaði frekar hratt og ætlaði að sjá til hvað ég entist. Það gekk ágætlega til að byrja með, en jafnt og þétt dró af mér. Ég tók glæsilegan endasprett þegar ég sá að ég átti möguleika á að skríða undir 40 mínúturnar. Hvattur áfram af starfsmönnum hlaupsins tókst mér að skríða svona líka nett undir þær. Annars voru kílómetrarnir 10 hlaupnir á eftirfarandi tímum:
3:44, 3:42, 4:04, 4:12, 4:14, 3:57, 3:59, 3:59, 4:20, 3:50.

Framkvæmd hlaupsins var frábær og eiga Laugaskokkarar þakkir skildar.

Ég er sáttur miðað við veður og slælega ástundun síðustu vikna.