fimmtudagur, desember 28, 2006

Litla kakóhlaupið og jólasteikur...

Það hefur lítið verið hlaupið á aðventunni af ýmsum orsökum. Tíðin hefur verið með eindæmum leiðinleg og einnig hefur verið nóg að gera í undirbúningi fyrir hátíðarnar.
22. des: Litla kakóhlaupið fór fram með viðhöfn og hlupum við 4,5 km um ljósum prýddar götur Garðabæjar. Jólatréð þeirra Hörpu og Engilberts var valið fallegasta jólatré bæjarins og segir í umsögn dómnefndar að þar sé á ferð látlaust, en fagurskapað tré sem nái vel þeirri lágstemmdu hátíðarstemmingu sem einkennir hin fyrstu jól á Betlehemsvöllum.
25.des: Ég vaknaði á undan öðrum fjölskyldumeðlimum og hljóp 10 kílómetra rólega. Frekar þungur á mér eftir veisluhöld undangenginna daga.
27. des: Hljóp rösklega heim úr vinnu með þéttan sunnanblæ í fangið. Kílómetrarnir 9,2 voru hlaupnir á 40:10. Ég var frekar þungur á mér og þreyttur
28. des: Hljóp í vinnu við svipaðar aðstæður og í gær, en vindurinn þó frekar í bakið, mjög þungur á mér og þurfti stundum að fara fetið í myrkrinu Síðustu 2 kílómetrarnir voru þó teknir með trukki og dýfu og náði ég að taka 9 km rétt undir 40 mínútur.

Nú er stefnan tekin á gamlárshlaupið og vonandi verða aðstæður góðar í þetta sinn...

laugardagur, desember 16, 2006

Laugardagur til lukku

Tölti í Hlaupahópinn, þar sem voru mætt Gísli, Jón Bæring, Grétar með Skrámu og Harpa með Engilbert. Það var happafengur, því Engilbert er sprækur með eindæmum. Hlupum rólega út á Álftanes. Gísli hljóp heim á spíssnum og tók Engilbert þá á rás. Ég fylgdi honum stóra Álftaneshringinn og heim. Tempóið fór nipur í 4:20 og var ég bísna lúinn eftir þetta, enda ekki alveg búinn að jafna mig eftir Powerade hlaupið, sem situr enn í mér. Nú er bara að vona að Engilbert láti sjá sig oftar svo maður fái nú að spreyta sig á alvöru hlaupara (ef einhver úr hópnum les þetta þá bið ég hinn sama um að reyna að móðgast ekki). Samtals 15,3 km í dag og vikan gerir sig á 35 km.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Powerade #3

Powerade hlaupið fór fram í kvöld í froststillu. Snjór og svell var á göngustígnum og færið því örlítið hált, þrátt fyrir að ég væri á hálkugormunum. Tíminn var svipaður og ég bjóst við 41:43. Ég lagði frekar rólega af stað eða á rétt rúmlega 4 mínútna tempói. Hlaupið var áreynslulítið, sem borgaði sig í rafveitubrekkunni, en þar tíndi ég upp einn. Þar áður hafði ég tekið fram úr tveim hlaupurum. Þetta er ánægjuleg tilbreyting, því yfirleitt hefur þetta verið á hinn veginn. Minnstu munaði reyndar að ég drægi Írisi Önnu uppi, en það munaði 10 metrum að það tækist.
Kuldinn reyndist mér erfiður ljár í þúfu, og það var ekki fyrr en á 5. kílómetra að ég fékk hitatilfinningu í fingurna. Í heild hljóp ég 13 km í kvöld og þriðjudagsæfingin sat lítið sem ekkert í mér.
Ég ætla að leggja áherslu á róleg og löng hlaup fram á þorrann, með stöku hlaupabrettasprettum.

miðvikudagur, desember 13, 2006

Kapp frekar en forsjá

Ég held áfram að vera innilegukind. Tók góða brettaæfingu, þ.e. 2 km upphitun og 18 mínútna brekkuæfingu. Nú tók ég erfiðleikastig 8 og réð bærilega við það, kíldi hraðan meira að segja hressilega upp síðustu 3 mínúturnar, samtals 3 km þar. Að lokum tók ég einn hraðan kílómetra (vaxandi hraða) á 3:50. Endaði í 20 km/klst eða 3 min/km. Samtals 6 km í dag. Þetta er sennilega ekki skynsamlegt m.t.t. þess að powerade hlaup er á fimmtudaginn, en ég lít á powerade hlaupin sem tempóæfingar og þar sem ég hef ekki verið að Veðurspáin er hagstæð, hiti í kring um frostmark og hægur andvari. Vonandi verður færið sæmilegt, en hætt er við að það verði svellbunkar hér og þar.

laugardagur, desember 09, 2006

Innipúki

Ég er orðinn innipúki, og það kemur ekki til af góðu. Ég er búinn að vera með kvef undanfarna daga og því ekki þorað að hlaupa úti í kuldanum. Fór því á bretti í morgun, en hitti hlaupafélaga mína í anddyrinu á Ásgarði. Samtals 9 km, þar af voru 5 hraðir (18:33). Ég hljóp þetta á engum halla, þar sem mér er í mun að ofgera mér ekki. Hinir 4 voru hlaupnir fyrir og eftir sprettinn og voru á þægilegum saltketshraða. Ég laumaði mér í lyftingatækin á milli átaka. Gott að taka heita pottinn og gufubaðið út á eftir.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Nútíminn er trunta

Ég hef lítið komist í hlaup að undanförnu. Kálfameiðslin síðan á fimmtudag sátu í mér á föstu- og laugardag, en núna er ég orðinn góður af þeim. Lennti í smá vinnutörn svo ég komst ekki í hlaupahópinn í gær, en fór þess í stað á hlaupabretti í Ásgarði um kvöldið. Ég var hálftíma á því og hljóp 6 km. Tók 18 mínútna brekkuprógram, þar sem hallinn fór upp í 14%. Ég var fullur sjálfstrausts og stillti erfiðleikastigið á 10 (af 12). Það reyndist allt of erfitt svo ég lækkaði hraðann. Ætli ég prófi ekki 8 næst. Eftir þetta tók ég 2,8 km á 4:12 tempói til að byrja með, en jók hraðann síðustu 500 metrana. Gott að slaka á í heita pottinum á eftir.