föstudagur, apríl 27, 2007

Gæðaæfing á fimmtudegi

Það var sannkölluð gæðaæfing í gær. Gæðaæfingar eru víst æfingar sem eru þannig að maður er á mörkunum að ofgera sér. Skipun dagsins voru 8 Yasso sprettir. Það var frekar vindasamt í Kaplakrika (að venju liggur mér við að segja) ogtók það sinn toll þegar á leið. Tímarnir (ásamt hvíldarjoggtímunum) voru sem hér segir:
  1. 2:58 / 2:12
  2. 3:03 / 2:19
  3. 2:59 / 2:33
  4. 3:02 / 2:23
  5. 3:03 / 2:36
  6. 3:07 / 3:18
  7. 3:13 / 2:47
  8. 3:06 /

Ég var mjög þreyttur eftir þetta og lá eins og slytti allt kvöldið uppi í sófa. Ég þarf greinilega að fara að taka löngu helgarhlaupin af meiri alvöru. Ég fann ekkert fyrir verk í fæti, sem eru góðar fréttir.

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Lognið hlær svo dátt í Hafnarfiði

Joggaði niður í krika um kvöldið. Mér leist ekki á blikuna því ég fékk verk í vinstri fóturinn við hvert skref strax í upphafi. Á tímabili var ég að hugsa um að labba til baka, en ákvað að harka þetta af mér. Þegar á tratanið var komið hvarf verkurinn eins og dögg fyrir sólu. Ég tók einn 1500 metra sprett í líflegu logninu (skv. skilgreiningu Gísla er alltaf logn í Hafnarfirði). Ég skrölti þetta á 5:15 sem gerir 3:30 tempó. Ég á að geta miklu betur, en var eitthvað lúpulegur. Samtals voru hlaupnir rúmlega 6 km í kvöld.

sunnudagur, apríl 22, 2007

Ekkert skjól af jökli...

Blakhelgin er að baki. Ég var liðsstjóri hjá 3. flokki karla. Liðstjórastarfið er stórlega vanmetið, en það felst í því að smala liðinu á leikina sína, stjórna upphitun og blása liðsmönnum baráttuanda í brjóst. Þetta er geysilega gefandi og skemmtilegt starf, en um leið krefjandi.

Ég hafði hugsað mér gott til glóðarinnar að komast út að hlaupa um miðjan dag þegar langt hlé var á milli leikja. Þetta reyndust tálvonir, því við misstum einn liðsmanninn í meiðsl og því þurfti að sinna af ábyrgð. Meiðslin reyndust ekki alvarleg og varð hann keppnishæfur á sunnudeginum.

Ég komst þó út um kvöldið eftir æsispennandi úrslitaleik í 2. flokki karla, þar sem HK menn sigruðu KA menn í æsispennandi viðureign. Skjólið sem ég vonaðist til að jökullinn veitti var ekkert, því vindáttin var stíf NA átt með úrkomu og sjávarroki. Kílómetrarnir urðu 12 í þetta sinn.

Vikan er því uppá 51 km samtals.

föstudagur, apríl 20, 2007

Sumargjöfin í ár

Víðavangshlaup ÍR fór fram í gær við mjög góðar aðstæður, þótt hitinn hefði mátt vera örlítið hærri. Framkvæmd hlaupsins var almennt góð, nema hvað tímatakan klikkaði eitthvað. Ég var mjög ánægður þegar ég sá 18:16 á klukkunnu þegar ég skeiðaði undir hana, en það sljákkaði þó aðeins í mér þegar félagi Þórólfur tjáði mér að markklukkan væri 20 sekúndum of sein. Tíminn skv. því er því 18:36, sem er talsvert betra en opinbert markmið og nálægt því sem ég hafði gert mér vonir um (18:30). Um kvöldið fékk ég síðan 34 sekúndur í sumargjöf frá frjálsíþróttadeild ÍR í gær þegar tími minn var skráður 18:02, og ég í öðru sæti í mínum aldursflokki og því sextánda í heildina. Ég afþakka slíkar sumargjafir, því ekki vil ég skreyta mig með gefnum fjöðrum. Gamli ungmennafélagsandinn kraumar greinilega ennþá meðal þjóðarinnar.
Líklega hef ég endað í 25 sæti í heildina og því fimmta í aldursflokki.

Björn sonur minn er að fara að keppa í blaki um helgina í Ólafsvík. Ég fer með sem liðsstjóri. Ég tek hlaupaskóna með og skokka í skjóli jökuls.

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Rólegheit

Í dag var litli Garðabæjarhringurinn farinn á hóflegum hraða, samtals 8 km í dag. Vikan er komin í 31 km. Nú er stefnan tekin á ÍR hlaupið á sumardaginn fyrsta. Opinbert markmið er 19 mínútur á kílómetrana 5. Óopinbert markmið er talsvert metnaðarfyllra, en verður ekki gefið upp að sinni.

Brekkur bæta

Aldrei þessu vant fór ég á mánudagsæfingu hjá skokkhópnum. Gísli er vandaður maður og lét okkur svitna í Hafnarfirði. Tókum nokkrar brekkur í Setberginu. Ég var nokkuð sprækur og fann minna fyrir þessu en ég átti von á. Hefði verið til í einn sprett í viðbót. Við Helge hinn þýski tókum reyndar óvænt og óundirbúið 100 metra spretteinvígi á hitaveitustokknum í Hraunsholtinu. Ég hafði hann á hraðaúthaldinu, en ef Helge æfir sig samviskusamlega held ég að það verði erfitt fyrir mig, kominn á þennan aldur að hafa við honum. Samtals 12,5 km í dag

mánudagur, apríl 16, 2007

Leti og páskaeggjaát

Ég hef verið latur að hlaupa upp á síðkastið. Það hafa einhver smávægileg meiðsli í vinstra fæti verið að plaga mig. Suma daga er þetta svo slæmt að ég finn til í hverju skrefi, en aðra finn ég ekki fyrir þessu. Sennilega eitthvað í sinabreiðunum .... án þess að ég þykist vera einhver sérfræðingur.

Annars er skýrsla frá síðustu færslu á þessa leið:

  • Mánudagur 2. apríl: Við Bjössi fórum á hlaupabretti í Ásgarði. Ég byrjaði á brekkuprógrammi. Ég var eitthvað illa fyrir kallaður, en harkaði þetta samt af mér. Samtals 9 km
  • Þriðjudagur 3. apríl: Skokkaði með hópnum 9 km. Var slæmur í fætinum seinni hlutan af hlaupinu, þótt ekki væri hratt farið.
  • 4 - 14 apríl: Hvíld og páskaeggjaát.
  • Sunnudagur 15. apríl: Komið nóg af hvíld og tími til að reyna á fótinn. Tók 6 Yassó spretti í Kaplakrika. Tempóið var stöðugt þ.e. 3:00, 3:00, 3:01; 2:59, 2:59, 3:00. Ég er sáttur við það sérstaklega þegar haft er í huga að ég hef ekki hreyft mig í 12 daga og suðvestanáttin var nokkuð frískleg. Ég fann fyrir örlitlum verk í fætinum , en ekkert til að hafa stóráhyggjur af. 11 km í dag.