miðvikudagur, júní 22, 2005

Nýr hlaupahópur í Garðabæ !!

Jæja, ég er orðinn stofnmeðlimur ásamt henni Katrínu ??dóttur undir styrkri leiðsögn Gísla Ásgeirssonar. Í gær var semsagt fyrsta æfing í hlaupahóp í Garðabæ, við vorum aðeins þrjú sem mættum að meðtöldum Gísla þjálfara. Hlaupið var rólega 7 km og tók gjörningurinn 40 mínútur sléttar. Veður var gott til hlaupa, skýjað og þurrt. Vindur var þó nokkur en ekki til vandræða. Ég vona að hið fornkveðna 'mjór er mikils vísir' reynist meira en orðin tóm. Nárinn hékk inni, fann þó örlítið fyrir honum. Nú verður maður bara að vera þolinmóður og byrja rólega og teygja vel.

Ég reif eitt birkitré upp með rótum í gærkveldi, stefnan er að vera búinn að gróðursetja hekkið áður en við förum út þann 30.

miðvikudagur, júní 15, 2005

Garðverkin

Ég hef lítið sem ekkert hlaupið vegna verks í nára. Við Björn hlupum 5 km fyrir nokkrum dögum og var ég frekar slæmur í náranum eftir, þrátt fyrir að hlaupið hefði verið mjög rólega. Hjólaði í vinnuna í morgun og fann örlítið til eftir það, þetta er vonandi allt að koma. Annars er nóg að gera í garðinum. Við erum að rífa upp gamalt og hálfdautt limgerði á lóðamörkunum og er ætlunin að planta einhverjum sígrænum runna þar, svo ætlum við að laga kantinn fyrir neðan hekkið, þannig að ég ætti að fá næga líkamsrækt næstu daga.

mánudagur, júní 06, 2005

Svimi og sæla

Helgin var góð, ég hljóp bæði á Laugardag og Sunnudag. Á Laugardaginn tók ég hundinn með mér upp að heiðmerkurhliði og til baka samtals 8,5 km. Vikan gerði sig því á 41,5 km. Í gær (sunnudag) fórum við fjölskyldan á vorhátíð barnakirkju Vegarins og skemmtu allir sér vel. Á eftir fórum við í sund niður í Laugardal og prófaði ég nýju keppnislaugina. Þetta er glæsilegt mannvirki og mjög gott að synda þar. Við Bjössi tókum nokkra spretti, hann vann einn, ég einn og tveir voru á pari, strákurinn er með mun betri sundtækni en ég (og þarf ekki mikið til), en ég er ennþá sterkari. Ég fór í krikann fyrir kvöldmat og hljóp 5x800 með 2:30 - 3:00 hvíld. Mér leist ekkert á blikuna eftir 2 spretti því mig svimaði svolítið og leið illa, en ákvað að láta reyna á það og hljóp 3 til viðbótar og sparaði mig aðeins og var bara í góðum gír. Sprettirnir voru á bilinu 2:49 - 2:58, þannig að ég er nokkuð sáttur. Í heildina hljóp ég 9,2 km og formið er að koma og ég vonast til að geta hlaupið miðnæturhlaupið á c.a. 41 mínútu. Annars er vinstra lærið að hrekkja mig. Mig grunar að ég sé með smá tognun þar. Ætli ég hvíli ekki í dag og sjái til á morgun.

laugardagur, júní 04, 2005

Látum verkin tala

Ég stóð ekki við það að hlaupa í hádeginu í gær. Var eitthvað aðeins tæpur í náranum að mér fannst og var þreyttur eftir gærdaginn. Ákvað að láta kroppinn njóta vafans. Hljóp hinsvegar heim í dag 6 km leið. Ég fór þetta á svona milli tempói upp á 4:48. var frekar þungur á mér, sem kannski helgast ða einhverju leiti af því að ég hélt á veskinu mínu og gemsanum og það munar um það þótt ótrúlegt sé (kannski þarf maður að fara að lyfta lóðum). Kvöldið fór í þrif og svo tókum við Björn í spil sem heitir “Osiris og Iris” sem er bísna skemmtilegt og ekki allt þar sem það er séð. Það byggir á því m.a. að skemma fyrir andstæðingnum, ekki ósvipað og í myllu eða skák, en þó allt öðruvísi. Læt þetta duga í bili, en ég held að ég sé að komast upp á lagið með að blogga....

fimmtudagur, júní 02, 2005

Gaman í Elliðaárdal

Í gær tók ég sýruæfingu í Elliðaárdalnum, þetta er æfing þar sem ég jogga rólega í c.a. 1,5 km og hleyp síðan á c.a. 85 - 90% púls í 20 mínútur (170 -180). Ég hleyp upp með Elliðaánum frá Breiðholtsbraut, upp að brúnni við Árbæjarlaug niður að og yfir stífluna og síðan niður með elliðaánum. Fyrsta 1.5 km er upp í móti, næstu 2.5 km eru nokkurnveginn á jafnsléttu og restin er niður í móti. Í gær hljóp ég 4.58 km á þessum 20 mín sem gerir 4:21 mín/km. Formið er að koma smátt og smátt því að síðast rétt slefaði ég 4.5 km og þar áður tæpa 4.4 km. Meðalpúlsinn er líka á niðurleið þannig að ég er að gera eitthvað rétt. Í dag ætla ég að skokka rólega í hádeginu 5 - 7 km á c.a. 5 mínútna tempói. Stefnan er að hlaupa c.a 40 km í þessari viku. Það eru 27 komnir í hús og aðeins 13 eftir, þannig að þetta ætti að hafast.