mánudagur, júní 06, 2005

Svimi og sæla

Helgin var góð, ég hljóp bæði á Laugardag og Sunnudag. Á Laugardaginn tók ég hundinn með mér upp að heiðmerkurhliði og til baka samtals 8,5 km. Vikan gerði sig því á 41,5 km. Í gær (sunnudag) fórum við fjölskyldan á vorhátíð barnakirkju Vegarins og skemmtu allir sér vel. Á eftir fórum við í sund niður í Laugardal og prófaði ég nýju keppnislaugina. Þetta er glæsilegt mannvirki og mjög gott að synda þar. Við Bjössi tókum nokkra spretti, hann vann einn, ég einn og tveir voru á pari, strákurinn er með mun betri sundtækni en ég (og þarf ekki mikið til), en ég er ennþá sterkari. Ég fór í krikann fyrir kvöldmat og hljóp 5x800 með 2:30 - 3:00 hvíld. Mér leist ekkert á blikuna eftir 2 spretti því mig svimaði svolítið og leið illa, en ákvað að láta reyna á það og hljóp 3 til viðbótar og sparaði mig aðeins og var bara í góðum gír. Sprettirnir voru á bilinu 2:49 - 2:58, þannig að ég er nokkuð sáttur. Í heildina hljóp ég 9,2 km og formið er að koma og ég vonast til að geta hlaupið miðnæturhlaupið á c.a. 41 mínútu. Annars er vinstra lærið að hrekkja mig. Mig grunar að ég sé með smá tognun þar. Ætli ég hvíli ekki í dag og sjái til á morgun.

Engin ummæli: