föstudagur, apríl 20, 2007

Sumargjöfin í ár

Víðavangshlaup ÍR fór fram í gær við mjög góðar aðstæður, þótt hitinn hefði mátt vera örlítið hærri. Framkvæmd hlaupsins var almennt góð, nema hvað tímatakan klikkaði eitthvað. Ég var mjög ánægður þegar ég sá 18:16 á klukkunnu þegar ég skeiðaði undir hana, en það sljákkaði þó aðeins í mér þegar félagi Þórólfur tjáði mér að markklukkan væri 20 sekúndum of sein. Tíminn skv. því er því 18:36, sem er talsvert betra en opinbert markmið og nálægt því sem ég hafði gert mér vonir um (18:30). Um kvöldið fékk ég síðan 34 sekúndur í sumargjöf frá frjálsíþróttadeild ÍR í gær þegar tími minn var skráður 18:02, og ég í öðru sæti í mínum aldursflokki og því sextánda í heildina. Ég afþakka slíkar sumargjafir, því ekki vil ég skreyta mig með gefnum fjöðrum. Gamli ungmennafélagsandinn kraumar greinilega ennþá meðal þjóðarinnar.
Líklega hef ég endað í 25 sæti í heildina og því fimmta í aldursflokki.

Björn sonur minn er að fara að keppa í blaki um helgina í Ólafsvík. Ég fer með sem liðsstjóri. Ég tek hlaupaskóna með og skokka í skjóli jökuls.

Engin ummæli: