sunnudagur, júní 17, 2007

Gullpabbi Garðabæjar

Þjóðhátíðardagurinn er í dag um land allt. Veður stillt og meinhægt, úrkomulaust og sólin glennti sig öðru hvoru. Ég fór með Árna og Önnu í hið árlega víðavangshlaup Garðabæjar. Reyndar er ekki hlaupið á víðavangi, heldur á fótboltavellinum. Hvað um það, við komum heim verðlaunum hlaðin. Árni varð þriðji í sínum flokki rétt á eftir nágrannavini sínum honum Ásgeiri. Anna fékk silfur í tíu ára flokknum og undirritaður hlaut gull í pabbaflokknum. Ég ber því nafnbótina Gullpabbi Garðabæjar þetta árið. Það þykir mér mikill heiður. Reyndar er það mér mikill heiður að vera faðir barnanna minna óháð íþróttaafrekum því þau eru talsvert í móðurættina.

Dagurinn var hefðbundinn, skrúðganga, lúðrasveit, fjallkona, hoppukastalar og kvenfélagskaffi. Við Björn kíktum á gospeltónleika í Hellisgerði seinnipartinn. Það var ágætis skemmtun, en rennslið hefði mátt vera betra. Strákarnir okkar sáu mér fyrir örlitlum hjartsláttartruflunum undir lok leiksins, en Serbarnir voru lagðir að velli með minnsta mun.

Engin ummæli: