föstudagur, nóvember 11, 2005

Powerade

Í gærkveldi fór ég í mitt fyrsta Powerade hlaup, veður var þokkalegt snjóföl á jörðu og örlítil hálka. Ég var á hálkugormum og hjálpuðu þeir mér við að fóta mig. Ég gleymdi garminum þannig að ég var bara með skífuklukkuna mína, ég ákvað því að hlaupa eingöngu eftir hyggjuviti og líðan. Hlaupið fór frísklega af stað og hélt ég mér framarlega til að byrja með. Það átti eftir að koma mér um koll því ég var tíndur upp af þó nokkrum á 2 - 5 km. Eftir það hélt ég stöðu minni, fór fram úr einum og annar fór fram úr mér. Síðustu 3 km voru mér erfiðir og ég "dó" í rafveitubrekkunni. Einn hlaupari sótti fast að mér í brekkunni, en brekkan var honum greinilega jafn erfið og mér, þannig að ég hafði hann á lokasprettinum ef sprett skyldi kalla. Ég hef hlaupið þetta á c.a. 44 mínútum, sem er talsvert undir væntingum. Eftir á að hyggja er ég samt sáttur. Gormarnir hjálpuðu mér örugglega fyrstu 5 km, en voru íþyngjandi síðustu 3. Kannski hafa þriðjudagshlaupin líka eitthvað setið í mér (nú er ég farinn að afsaka mig full mikið). Skokkhópurinn ákvað að gleyma tímunum og líta á þetta hlaup sem góða tempóæfingu.

Engin ummæli: