miðvikudagur, júlí 22, 2009

Debut

Laugardaginn 6. júní síðastliðinn þreytti ég frumraun mína í maraþon hlaupi. Ákvörðunin var tekin í lok apríl, þannig að ekki var langur tími til skipulegs undirbúnings. Ég hugsaði hlaupið meira sem æfingu fyrir laugavegshlaupið en einhvern sperring við að ná topp tíma. Veturinn hafði verið afspyrnuslakur og ég því ekki í góðu formi. Undirbúningur hófst í viku 17, en hlaupið var þreytt í viku 23 og spannaði því aðeins 7 vikur. Markmiðið var að hlaupa skynsamlega og halda mér meiðslalausum. Hvort tveggja heppnaðist svosem þokkalega, en eftir á að hyggja hefði kannski átt að hlaupa oftar í viku. Æfingaálag vikanna var sem hér segir:

vika - fjöldi æfinga / km heild / lengsta hlaup / athugasemd
17: 3 / 31 / 20

18: 3 / 38 / 20
19: 2 / 23 / 12
20: 2 / 25 / 17
21: 2 / 50 / 32 / langa hlaupið var mjög erfitt og lenti ég á vegg eftir 25 kílómetra
22: 2 / 48 / 35 / langa hlaupið mjög þægilegt
23: 3 / 42,2 / 69

Það voru því ekki nema tvö löng hlaup í undirbúningnum, og mánudaginn fyrir hlaupið tók ég fulla Yasso æfingu niðri í Kaplakrika. Það var með vilja gert því maraþonið átti jú að vera æfing frekar en keppni.
Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur. Hiti um 15 stig sól og hæg norðanátt. Hlaupið var haldið inni í 100 kílómetra hlaupinu sem fram fór inni í Fossvogsdal og Grafarvogi. Brautin er tvær 5 kílómetra slaufur og hljóp ég því ríflega 4 slaufur. Planið var að hlaupa þetta á 3:40 og lagði ég af stað á tæplega 5 min/km tempói (c.a. 3:30 heildartími), því ég átti von á að gott væri að eiga innstæðu fyrir hraðaminnkun á síðari stigum. Drykkjarstöðvar voru á 2,5 kílómetra millibili og ákvað ég að stoppa c.a. 10 sekúntur á hverri stöð og gefa mér góðan tíma til drykkju. Þetta gekk vel fyrstu 25 kílómetrana, en þá fann ég að þreytan væri farin að segja til sín, ég hægði því aðeins á mér, en hélt ágætis dampi. Loka tíminn var 3:37:45 sem ég er mjög sáttur við. Ég var aldrei nálægt þessum vegg sem margir lenda á og var fljótur að jafna mig á hlaupinu og mætti á æfingu á þriðjudeginum lítið þreyttur - æfingin heppnaðist því fullkomlega. Ég stefni á að bæta tíma minn verulega í næsta maraþon hlaupi og þá verð ég vonandi lengur að jafna mig ;)

Engin ummæli: