Í gær var rykkjaæfing á Álftanesinu. Það var hált á útleiðinni, svo ég tók eins og 2 hraðaaukningar. Vaselínbrekkan var tekin á góðu tempói og annar rykkur upp að Hrafnistu í Hafnarfirði. Rólegt jogg heim 10,5 km á rétt rúmri klukkustund.
Fór með Gulla vinnufélaga mínum í þreksal Landsbankans í hádeginu. Fór á brettinu 10 km á 45 mínútum. Tók eitthvað prógram sem heitir "rolling hills". Það tók ágætlega í og var ég á 175 - 180 bpm í c.a. 40 mínútur (9 km). Viktin var með jákvæðasta móti heil 65,5 kg. Vikan er nú komin upp í 39 km.
Smáhugleiðing um hlaupaskó: Ég keypti mér Asics Kayano skó vorið 2005 og hljóp á þeim um sumarið. Þetta sumar var nárinn eitthvað að stríða mér, en samt ekki þannig að það háði mér á hlaupum. Ég fann fyrir eymslum þegar ég kólnaði. Ekki tengdi ég þetta skónum þá. Á miðvikudaginn var hljóp ég hraða 5 km á brettinu á þessum skóm og það var eins og við manninn mælt að náravesenið tók sig upp aftur.
Í gær fór ég á nýju New Balance 1060 skónum mínum og í dag á gömlu New balance 1023 og finn ekkert til í náranum. Nú legg ég Kayano skónum fyrir fullt og allt og kaupi ekki svoleiðis skó aftur. Áður en ég keypti Kayano skóna var ég á Asics Nimbus skóm og fann ég aldrei fyrir neinum meiðslum í þeim. Nimbus eru reyndar einir bestu skór sem ég hef átt. Ég hef líka átt nokkra Reebok skó og líkaði vel framan af, en missti trú á loftpúðaskó þegar sprakk á öðrum skónum og ég tók ekki eftir því fyrr en einn rigningardaginn þegar skvampaði í öðrum þeirra.
Mergur málsins: Skór skipta máli
föstudagur, nóvember 24, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli