þriðjudagur, maí 01, 2007

Hlaupið til heiðurs hinum vinnandi stéttum

Ég var latur um helgina og hljóp ekki neitt (skamm skamm), en við Árni sonur minn keyrðum í dag upp í Grafarvog og þreyttum hið árlega 1. maí hlaup Fjölnis. Þar var við stjórnvölinn Guðlaug Baldvinsdóttir, en við störfuðum saman hjá Hug hf um skamma hríð.
Árni stóð sig eins og hetja og hljóp þessa átjánhundruð metra á 9:44, ekki illa af sér vikið hjá 7 ára snáða. Undirritaður hljóp 10 km og sóttist ferðin greitt fyrri hlutann. Fystu 2 km voru hlaupnir á 7:03, en þá fór að draga af mér, enda hef ég verið of latur við löngu hlaupin. Tíminn við 5 km markið var rétt rúmar 19 mínútur. Bakaleiðin var erfið, því hún var mest á brattann og heldur á móti vindi en hitt. Vindurinn var vaxandi er leið á hlaupið og bísna erfiður mér (og öðrum) á áttunda og níunda kílómetranum, beint í fangið og leiðin upp í móti.
Ég sá það fljótlega upp úr miðju hlaupi að tíminn yrði ekkert til að hrópa húrra fyrir og dró ég því heldur úr ákefðinni seinustu þrjá kílómetrana. Heildartíminn var c.a. 40:49 og er ég nokkuð sáttur miðað við aðstæður og form.

Engin ummæli: