þriðjudagur, maí 22, 2007

Annaðhvort er maður að þessu eða ekki...

Í þar síðustu viku var ég að þessu, hljóp 64 km, í síðustu viku var ég ekki að þessu og hljóp 0 km. Þessi vika ætlar að verða skárri. Skokkskammtur það sem af er 18 kílómetrar. Úr vinnu á mánudegi og í vinnu í morgun. Bæði skiptin á þokkalegu tempói.
Að öðru og léttvægara. Ný stjórn er fædd. Það var léttara yfirbragð á Samfylkingarmönnum. Sumir Sjálfstæðismenn voru glaðir, en aðrir minna glaðir. Glaðastir voru þeir fjandvinir Björn Bjarna og Guðlaugur Þór. Súrust voru Sturla og stelpurnar. Ég er á þeirri skoðun að Geir hafi guggnað á að afsetja Björn og skipa Guðfinnu í hans stað. Þar kemur tvennt til, í fyrsta stað er erfitt að stugga við Engeyjarættinni og í annan stað hefði verið erfitt að láta Björn fara vegna þess að þá hefði þessi ríkisstjórn átt erfitt með að skafa af sér baugsstimpilinn sem framsókn hefur klínt á hana. Björn B getur því þakkað Hreini Loftssyni öðrum mönnum fremur framlengt líf í ráðherrastóli. Mér líst annars vel á stjórnina og vona að hún vinni af heilindum landi og þjóð til heilla.

Engin ummæli: