föstudagur, mars 09, 2007

Powerade#6

Það blés ekki byrlega klukkan fimm, rigning og talsverður vindur. Fljótlega tók að lægja og rigningin breyttist í fíngerðan úða, sem minnkaði eftir því sem tíminn leið. Þegar ég kom upp í Árbæjarlaug var úrkoman að mestu hætt, en slydda á stígum. Ég var því hóflega bjartsýnn á að ná undir 40 mínútur. Það kom líka á daginn að fyrstu 5 kílómetrarnir voru hlaupnir í slabbi. Það er kannski ofmælt að segja að það hafi verið hált, en ég skrikaði samt í hverju skrefi. Tempóið til að byrja með var í kring um 4:10 og fyrstu 4 km hlaupnir á 16:23. Ég náði að komast niður á 4 mínútna meðal tempó eftir 7 kílómetra. Brekkan var bísna erfið mér og silaðist ég upp hana. Þar tapaði ég rúmri mínútu. Heildartíminn var 41:15, nokkuð nálægt því sem ég hafði vonast eftir með tilliti til aðstæðna. Annar eða þriðji maður á eftir mér reyndist vera fimmþúsundasti maðurinn í mark í Powerade hlaupunum. Mér fannst eitt augnablik að ég væri réttur maður á röngum tíma. Með upphitun og niðurskokki hljóp ég 14 kílómetra í dag. Nú er að gíra sig fyrir fyrsta maraþonið, en það ætla ég að þreyja eftir 9 daga. Planið framundan er því 25 km á laugardag á maraþon hraða og rólegt á þriðjudag og fimmtudag.

Engin ummæli: