föstudagur, júlí 20, 2007

44 - 16081

Í dag hefur jörðin farið 44 hringi í kring um sólina og snúist 16081 hring í kring um sjálfa sig síðan ég leit dagsins ljós. Ég á semsagt afmæli í dag. Ég vaknaði í morgun við afmælissöng, og ég verð að segja að þar fer fallegasti kór heimsins. Á degi sem þessum staldra ég gjarnan við og hugleiði líf mitt, fortíð og framtíð. Ég er gæfumaður í lífinu og finnst ég vera ríkasti maður á jarðríki eigandi 3 heilbrigð og vel gerð börn og frábæra eiginkonu. Ég ætla ekki að fara með nánari útlistanir á því, en læt nægja að segja að þeir sem halda því fram að þeirra eigin börn séu fallegust og best hafa því miður rangt fyrir sér því auðvitað eru það mín börn ;)

Í gærkveldi hljóp ég mitt síðasta hlaup .... 43 ára, ég ákvað að fara niður í Kaplakrika og taka eitt 3 kílómetra test. Þegar þangað var komið var einhver fótboltaleikur í gangi og þurfti ég að bíða í 20 mínútur eftir að komast á tartanið. Það var í lagi þar sem hlýtt var í veðri og gaman að horfa á unga fríska menn eigast við á knattspyrnuvellinum. Ég fékk að sjá þrjú mörk, þar af eitt víti og meira að segja einn brottrekstur á síðustu sekúndu leiksins, en þá höfðu Haukar skallað boltann í netið hjá ÍH mönnum við lítinn fögnuð markmanns þeirra. Það endaði með því að sá þurfti að yfirgefa völlinn.

Þegar leikmennhöfðu yfirgefið völlinn læddist ég á völlinn og tók mín 3 kílómetra á vaxtandi tempói eða 3:42, 3:40; 3:35 samtals 10:57. Þetta er ágætt miðað við stopula ástundun. Hún horfir vonandi til betri vegar núna í framhaldinu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með daginn. Miðað við aldur er hraðinn góður ;)