Ég hef lítið hlaupið síðan 22. júní. Ástæðan er sú að síðustu tvær helgar hef ég verið upptekinn við annað, fyrst var skagamótið í knattspyrnu 7. flokks drengja og síðasta vika og nýliðin helgi var undirlögð af ættarmóti sem ég tók þátt í að skipuleggja ég skrölti þó 9 kílómetra á mánudaginn og var frekar lúpulegur.
Ættarmótið var haldið á Lýsuhóli í Staðarsveit og tókst með eindæmum vel. Þegar saman kemur frábært fólk í frábæru veðri og borða saman hvítlauks- rósmarínkryddað holulamb getur útkoman ekki verið annað en góð.
Ég frétti það um helgina að ég er víst þess vafasama heiðurs aðnjótandi að vera afkomandi Björns Péturssonar bónda að Öxl í Breiðuvík á Snæfellsnesi og konu hans Þórdísar Ólafsdóttur. Björn þessi er alræmdasta fjöldamorðingja íslandssögunnar og gegnir nafninu Axlar Björn. Hann var hengdur árið 1595 fyrir níu morð, en samsekri konu hans var þyrmt vegna þess að hún var kona eigi einsömul. Sonur þeirra Sveinn "skotti" reyndist einnig vera ógæfumaður og var hengdur hálfri öld seinna eða 1648. Hann eignaðist tvo syni, Gísla "hrók" og Halldór. Gísli fetaði í fótspor forfeðra sinna og endaði í gálganum. Áður en það gerðist eignaðist hann soninn Magnús, sem varð þeirra gæfu aðnjótandi að eignast ekki börn. Halldór komst hinsvegar ágætlega til manns og gerðist ærlegur bóndi í Eyjafirði og eignaðist heilbrigð börn að því best er vitað. Af honum er ég kominn ásamt 20000 öðrum íslendingum.
Meðal afkomenda Halldórs (og forfeðra minna) eru þeir Eiríkur Hallgrímsson (1773 -1843) og sonur hans Guðlaugur Eiríksson (1807 - 1895) sem voru annáluð hreystimenni. Bjuggu þeir á Steinkirkju í Fnjóskadal. Um Guðlaug var sagt að hann hafi verið "hið mesta hraustmenni og æru prýddur heiðursmaður". Guðlaugur þessi var langafi afa míns Aðalsteins Eiríkssonar, sem var að minnsta kosti "æru prýddur heiðursmaður" ef ekki hið fyrra líka.
miðvikudagur, júlí 04, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli