Það datt í mig að taka þátt í Meistaramóti Öldunga í Laugardalshöllinni. Ég keypti forláta Adidas gaddaskó í Útilífi fyrir 2 vikum á spottprís og fannst tilvalið að vígja þá núna fyrr í dag. Upphaflega ætlaði ég bara að keppa í 3000 metra hlaupi, og stefna á að hlaupa á 10:30. Vegna áeggjan Steins Jóhannssonar lét ég líka vaða á 400 metrana, þrátt fyrir að aðeins væri 1 klst á milli hlaupa. Það er skemmst frá því að segja að ég hljóp fram úr mínum björtustu vonum. 400m/63,09 sek og 3km/10:24,33 sek er afrakstur dagsins.
400: Ég sparaði mig í 400 metrunum, og hljóp fyrri hringinn í 400 metrunum frekar afslappað, Seinni hringurinn var tekinn á meira trukki. Mér leið vel allan tímann og hef á tilfinningunni að ég geti hlaupið auðveldlega niður á 60 sek.
3000: Ég tók forystu strax og hélt henni fyrst um sinn, Starri nokkur Heiðmarsson (sem ku vera hálfbróðir þeirra Margeirsbræðra skv. öruggum heimildum) andaði allan tímann ofan í hálsmálið á mér og tók framúr mér um miðbik hlaups. Ég reyndi að líma mig á hann, en hann jók forystuna um 1-2 metra á hring. 400 metrarnir sátu verulega í mér og mér leist ekki á blikuna þegar 3 hringir voru eftir, orðinn lúinn og nett sýrður. Hvattur áfram af félaga Steini og Jóhanni Ingibergs minnkaði ég bilið örlítið á næst síðasta hring og þegar 200 metrar voru eftir fann ég auka orku, gaf allt í botn og hljóp fram úr keppinaut mínum þegar 150 metrar voru eftir. Starri átti ekki svar við þessu og endaði c.a. 3 sekúntum á eftir mér.
Ég er mjög sáttur við afraksturinn og kom sjálfum mér mest á óvart. Ég er bara rétt að byrja ;)
sunnudagur, febrúar 18, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli