Við Björn fórum til New York í sex daga. Tilgangur ferðarinnar var þríþættur. Í fyrsta lagi að kaupa gítar fyrir Björn, í öðru lagi að skoða stórborgina og í þriðja en ekki síðasta lagi að fara á tónleika með uppáhalds tónlistarmanni okkar feðga. Sá heitir Phil Keaggy og spilar feykivel á gítar. Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða rafmagnaðan eða órafmagnaðan. Gítarinn sem Björn keypti er forláta Gibson Les Paul Studio, hvítur að lit, gott hljóðfæri sem þægilegt er að spila á og hljómar vel.
Í New York skoðuðum við m.a. American Museum of Natural History, Empire State bygginguna, NBC, Rockefeller Center, Frelsisstyttuna, Ellis Island, World Trade Center reitinn og Kínahverfið. Við fórum á söngleikinn Spamalot, sem er byggður á hugmyndum frá Monty Python hópnum. Það er skemmst frá því að segja að það var mjög skemmtilegt.
Á föstudeginum tókum við bílaleigubíl og keyrðum sem leið lá til Kingston í NY fylki. Þetta er smábær 100 kílómetra fyrir norðan New York borg, og var víst um tíma höfuðborg fylkisins árið 1777 (sú fyrsta). Tónleikarnir voru haldnir í lítilli kirkju og voru þeir tvískiptir. Í fyrri hluta þeirra stóð hann einn á svið með kassagítar að vopni. Phil notar mikið tækni sem kallast á ensku looping, sem byggist á því að hann tekur upp stef og byggir síðan ofan á það öðrum stefum. Þannig getur hann verið eins manns hljómsveit. Eftir hlé stigu á stokk bassaleikarinn Toni Levin og trymbillinn Jerry Marcotta. Þeir félagar eru ef til vill frægastir fyrir að spila reglulega með Peter Gabriel, og spiluðu þeir meðal annars á því víðfræga lagi Sledge Hammer.
Phil bað náðarsamlegast um að fá að spila á nýja gítarinn hans Björns. og varð hann góðfúslega við þeirri bón, það var ekki leiðinlegt og fékk gítarinn góða dóma hjá meistaranum.
Hvað varðar hlaupaiðkun, þá var hún hófleg. Ég reimaði fjórum sinnum á mig skóna. Fyrsta skiptið fórum við Björn saman upp í Central Park, Björn fékk einhver eymsli í hné, þannig að skokkið var styttra en til stóð. Í Kingston tók ég hraða 6 kílómetra. Að lokum hljóp ég 9,7 km hring í Central park tvisvar sinnum. Fyrra skiptið í 30 stiga hita og seinna skiptið í 20 stigum. Seinna skiptið var mun þægilegra en hið fyrra. Tempóið var þokkalegt eða c.a. 4:10-4:15 min/km.
miðvikudagur, ágúst 29, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli