miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Sumarið er tíminn...

Ég hef ekki fundið hjá mér þörf fyrir að blogga síðasta mánuðinn. Þessi mánuður hefuð þó síður en svo verið tíðindalítill. Ég hef hlaupið minna en vonir stóðu til, en hef þó náð að taka 2 æfingar á viku.

Við fjölskyldan gerðum víðreist í fríinu. Fimm nætur að Hólum í Hjaltadal, skoðuðum þar meðal annars Síldarminjasafnið, Vesturfarasetrið, Hólastað, Skagann, Kántríbæ og gengum upp í Gvendarskál svo eitthvað sé tínt til. Þarna náði ég 2 snörpum sprettum

Eftir þetta fórum við suður Kjöl í Kirkjulækjarkot þar sem við vorum 4 nætur í góðu yfirlæti. Frekar lítið hlaupið, en náði þó að sperra mig einu sinni hraða 8 kílómetra.

Leiðin lá svo í Skaftafell 3 nætur, einn sprettur þar upp að Svínafellsjökli og til baka 13 kílómetrar söfnuðust þar í sarpinn. Í Skaftafelli skoðuðum við Svartafoss og bræður hans, gengum áleiðis inn í Morsárdal og sandinn til baka.

Veðurspáin var ótrygg, en við ákváðum samt að skella okkur á Höfn, þar sem við undum tvær nætur og jafn marga daga. Ég tók 5 yassóa á nýju tartaninu, en unglingalandsmótið var haldið þarna helgina áður. Á Höfn hittum við fyrir vinnufélaga minn hann Jón Garðar, og áttum við saman notalega kvöldstund í pallhýsinu hans.

Heim var haldið þar sem veðurspáin var frekar köld og blaut á NA landi. Heima var veður frábært og náðum við að þvo þvotta og mála einn skjólvegg áður en við héldum norður heiðar í brúðkaup Páls og Ingibjargar. Páll þessi er bróðir Guðfinnu. Einn 21 kílómetra heiðmerkurtúr .

Til Akureyrar var haldið á miðvikudagsmorgni, Guðfinna fór í skólann meðan við hin í fjölskyldunni undum okkur við aðra hluti. Ég náði að jogga 16 kílómetra hring vítt og breitt um sunnanverðan Akureyrarbæ. Það hafði góð áhrif á matarlistina mína. Á fimmtudegi héldum við sem ekki lærðum til berja í Hörgárdal, þar voru væn ber sem voru etin með stæl um kvöldið.

Að öðru leyti var ekki hlaupið fyrir norðan, en til gamans má geta að brúðkaupið tókst með eindæmum vel og voru allir sjálfum sér til sóma, jafnt brúðhjón sem aðrir veislugestir.

Á mánudag hljóp ég heim úr vinnu og hjólaði sömu leið í vinnu daginn eftir.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bjarnsteinn!
Komdu í Yassó á fimmtudaginn!

Bjarnsteinn sagði...

Ég komst því miður ekki í gær.... vonandi fer að rætast úr hjá mér