fimmtudagur, desember 28, 2006

Litla kakóhlaupið og jólasteikur...

Það hefur lítið verið hlaupið á aðventunni af ýmsum orsökum. Tíðin hefur verið með eindæmum leiðinleg og einnig hefur verið nóg að gera í undirbúningi fyrir hátíðarnar.
22. des: Litla kakóhlaupið fór fram með viðhöfn og hlupum við 4,5 km um ljósum prýddar götur Garðabæjar. Jólatréð þeirra Hörpu og Engilberts var valið fallegasta jólatré bæjarins og segir í umsögn dómnefndar að þar sé á ferð látlaust, en fagurskapað tré sem nái vel þeirri lágstemmdu hátíðarstemmingu sem einkennir hin fyrstu jól á Betlehemsvöllum.
25.des: Ég vaknaði á undan öðrum fjölskyldumeðlimum og hljóp 10 kílómetra rólega. Frekar þungur á mér eftir veisluhöld undangenginna daga.
27. des: Hljóp rösklega heim úr vinnu með þéttan sunnanblæ í fangið. Kílómetrarnir 9,2 voru hlaupnir á 40:10. Ég var frekar þungur á mér og þreyttur
28. des: Hljóp í vinnu við svipaðar aðstæður og í gær, en vindurinn þó frekar í bakið, mjög þungur á mér og þurfti stundum að fara fetið í myrkrinu Síðustu 2 kílómetrarnir voru þó teknir með trukki og dýfu og náði ég að taka 9 km rétt undir 40 mínútur.

Nú er stefnan tekin á gamlárshlaupið og vonandi verða aðstæður góðar í þetta sinn...

laugardagur, desember 16, 2006

Laugardagur til lukku

Tölti í Hlaupahópinn, þar sem voru mætt Gísli, Jón Bæring, Grétar með Skrámu og Harpa með Engilbert. Það var happafengur, því Engilbert er sprækur með eindæmum. Hlupum rólega út á Álftanes. Gísli hljóp heim á spíssnum og tók Engilbert þá á rás. Ég fylgdi honum stóra Álftaneshringinn og heim. Tempóið fór nipur í 4:20 og var ég bísna lúinn eftir þetta, enda ekki alveg búinn að jafna mig eftir Powerade hlaupið, sem situr enn í mér. Nú er bara að vona að Engilbert láti sjá sig oftar svo maður fái nú að spreyta sig á alvöru hlaupara (ef einhver úr hópnum les þetta þá bið ég hinn sama um að reyna að móðgast ekki). Samtals 15,3 km í dag og vikan gerir sig á 35 km.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Powerade #3

Powerade hlaupið fór fram í kvöld í froststillu. Snjór og svell var á göngustígnum og færið því örlítið hált, þrátt fyrir að ég væri á hálkugormunum. Tíminn var svipaður og ég bjóst við 41:43. Ég lagði frekar rólega af stað eða á rétt rúmlega 4 mínútna tempói. Hlaupið var áreynslulítið, sem borgaði sig í rafveitubrekkunni, en þar tíndi ég upp einn. Þar áður hafði ég tekið fram úr tveim hlaupurum. Þetta er ánægjuleg tilbreyting, því yfirleitt hefur þetta verið á hinn veginn. Minnstu munaði reyndar að ég drægi Írisi Önnu uppi, en það munaði 10 metrum að það tækist.
Kuldinn reyndist mér erfiður ljár í þúfu, og það var ekki fyrr en á 5. kílómetra að ég fékk hitatilfinningu í fingurna. Í heild hljóp ég 13 km í kvöld og þriðjudagsæfingin sat lítið sem ekkert í mér.
Ég ætla að leggja áherslu á róleg og löng hlaup fram á þorrann, með stöku hlaupabrettasprettum.

miðvikudagur, desember 13, 2006

Kapp frekar en forsjá

Ég held áfram að vera innilegukind. Tók góða brettaæfingu, þ.e. 2 km upphitun og 18 mínútna brekkuæfingu. Nú tók ég erfiðleikastig 8 og réð bærilega við það, kíldi hraðan meira að segja hressilega upp síðustu 3 mínúturnar, samtals 3 km þar. Að lokum tók ég einn hraðan kílómetra (vaxandi hraða) á 3:50. Endaði í 20 km/klst eða 3 min/km. Samtals 6 km í dag. Þetta er sennilega ekki skynsamlegt m.t.t. þess að powerade hlaup er á fimmtudaginn, en ég lít á powerade hlaupin sem tempóæfingar og þar sem ég hef ekki verið að Veðurspáin er hagstæð, hiti í kring um frostmark og hægur andvari. Vonandi verður færið sæmilegt, en hætt er við að það verði svellbunkar hér og þar.

laugardagur, desember 09, 2006

Innipúki

Ég er orðinn innipúki, og það kemur ekki til af góðu. Ég er búinn að vera með kvef undanfarna daga og því ekki þorað að hlaupa úti í kuldanum. Fór því á bretti í morgun, en hitti hlaupafélaga mína í anddyrinu á Ásgarði. Samtals 9 km, þar af voru 5 hraðir (18:33). Ég hljóp þetta á engum halla, þar sem mér er í mun að ofgera mér ekki. Hinir 4 voru hlaupnir fyrir og eftir sprettinn og voru á þægilegum saltketshraða. Ég laumaði mér í lyftingatækin á milli átaka. Gott að taka heita pottinn og gufubaðið út á eftir.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Nútíminn er trunta

Ég hef lítið komist í hlaup að undanförnu. Kálfameiðslin síðan á fimmtudag sátu í mér á föstu- og laugardag, en núna er ég orðinn góður af þeim. Lennti í smá vinnutörn svo ég komst ekki í hlaupahópinn í gær, en fór þess í stað á hlaupabretti í Ásgarði um kvöldið. Ég var hálftíma á því og hljóp 6 km. Tók 18 mínútna brekkuprógram, þar sem hallinn fór upp í 14%. Ég var fullur sjálfstrausts og stillti erfiðleikastigið á 10 (af 12). Það reyndist allt of erfitt svo ég lækkaði hraðann. Ætli ég prófi ekki 8 næst. Eftir þetta tók ég 2,8 km á 4:12 tempói til að byrja með, en jók hraðann síðustu 500 metrana. Gott að slaka á í heita pottinum á eftir.

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Góðar og slæmar fréttir

Fór á brettið í hádeginu, 5 km á 16 km/kls hraða allan tíma og max halla upp á 3%. Tíminn var 18:45. Púlsinn steig nokkuð jafnt og þétt upp í 180. Það er eitthvað annað en á mánudagskvöld þegar hann rauk upp á fyrstu 3 mínútunum á sama hraða og ég þurfti að hægja ferðina verulega. Þetta voru góðu fréttirnar. Slæmu fréttirnar eru þær að ég tognaði lítillega í kálfa eftir átökin. Líklega vegna þess að ég hitaði ekki nógu vel upp .... reyndar hitaði ég alls ekkert upp :D, því þetta átti að vera skyndiæfing. Kannski verð ég vitrari með hækkandi aldri. Ég verð vonandi orðinn góður á laugardaginn kemur.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

(S)labb

Komst ekki í hlaupahópinn vegna vinnu, en hljóp heim. Það sóttist seint, enda færið frekar slæmt í hlákunni. Þessir 9,3 km tóku liðlega 50 mínútur.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Leti

Það fór lítið fyrir hreyfingu um helgina af ýmsum ástæðum, sem ég ætla ekki að tíunda hér. Fór 8 km á bretti í Ásgarði í kvöld og var þungur á mér einhverra hluta vegna. Tók 7 km á 29:30 og var á 175 - 180 bpm mestallan tímann. Ég á að geta betur en þetta. Viktin sagði 67,5 kg og ætla ég að reyna að halda þessari vikt fram eftir vetri og létta mig um 3 kg fyrir sumarið.

föstudagur, nóvember 24, 2006

Álftanesrykkir og brekkupúl á bretti

Í gær var rykkjaæfing á Álftanesinu. Það var hált á útleiðinni, svo ég tók eins og 2 hraðaaukningar. Vaselínbrekkan var tekin á góðu tempói og annar rykkur upp að Hrafnistu í Hafnarfirði. Rólegt jogg heim 10,5 km á rétt rúmri klukkustund.

Fór með Gulla vinnufélaga mínum í þreksal Landsbankans í hádeginu. Fór á brettinu 10 km á 45 mínútum. Tók eitthvað prógram sem heitir "rolling hills". Það tók ágætlega í og var ég á 175 - 180 bpm í c.a. 40 mínútur (9 km). Viktin var með jákvæðasta móti heil 65,5 kg. Vikan er nú komin upp í 39 km.

Smáhugleiðing um hlaupaskó: Ég keypti mér Asics Kayano skó vorið 2005 og hljóp á þeim um sumarið. Þetta sumar var nárinn eitthvað að stríða mér, en samt ekki þannig að það háði mér á hlaupum. Ég fann fyrir eymslum þegar ég kólnaði. Ekki tengdi ég þetta skónum þá. Á miðvikudaginn var hljóp ég hraða 5 km á brettinu á þessum skóm og það var eins og við manninn mælt að náravesenið tók sig upp aftur.
Í gær fór ég á nýju New Balance 1060 skónum mínum og í dag á gömlu New balance 1023 og finn ekkert til í náranum. Nú legg ég Kayano skónum fyrir fullt og allt og kaupi ekki svoleiðis skó aftur. Áður en ég keypti Kayano skóna var ég á Asics Nimbus skóm og fann ég aldrei fyrir neinum meiðslum í þeim. Nimbus eru reyndar einir bestu skór sem ég hef átt. Ég hef líka átt nokkra Reebok skó og líkaði vel framan af, en missti trú á loftpúðaskó þegar sprakk á öðrum skónum og ég tók ekki eftir því fyrr en einn rigningardaginn þegar skvampaði í öðrum þeirra.
Mergur málsins: Skór skipta máli

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Dagur hlaupabrettisins

Ég fór í hádeginu á hlaupabretti. Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af þessum tækjum, finnst meira gefandi að hlaupa úti við. Hluti af upplifuninni er nefninlega að njóta náttúrunnar sem Guð skapaði og handverks mannanna. Ilmur af birki, rjúpa á steini, svell á vatni, kaldur norðangarri, lárétt rigning, fallegur garður, vegaframkvæmdir, húsaviðgerðir, jólaseríur í gluggum og tunglskin eru allt hlutir sem þeir sem svitna á hlaupabretti fara á mis við.
En sem sagt þá fór ég á svona tæki í dag og lét mér duga 5 km á mesta hraða sem brettið bauð upp á (16km/klst = 4:45 mín/km). Þetta reyndist mér léttara en ég átti von á og geri ég þetta aftur við tækifæri.

Rólegt

Skammtur dagsins 13 km af rólegu joggi mestan part, enda bíður færið ekki upp á annað. Færið þokkalegt og farið að hlána, ætli ég fari ekki á hlaupabretti svo sem eins og einusinni í vikunni til að fá almennilega hraðaæfingu.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Íþróttapabbi ársins....

Ekkert var hlaupið um helgina því ég var á þeytingi um stór-stór garðabæjarsvæðið með börnin mín á hin ýmsu íþróttamót. Helgin byrjaði klukkan 7 á laugardagsmorgunn þegar við Árni keyrðum til Keflavíkur á fótboltamót í 7. flokki. Það gekk vel, og sigruðu sinn riðil. Við feðgar fórum vígreifir heim. Þvínæst fór ég í Mosfellsbæjinn til að sjá Björn á Íslandsmótinu í blaki í 3. flokki. Og síðan lá leiðin til Selfoss þar sem Anna var að keppa í trompfimleikum. Ég rann í hlað kl 21:00. Dagurinn í dag byrjaði kl. 6:40, því fyrsti leikur Björns byrjaði kl 8. Færðin setti strik í reikninginn og þurfti ég að moka mig út úr innkeyrslunni. Það er mun skemmtilegra að sjá börnin sín svitna af áreynslu, en að gera það sjálfur.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Einn með sjálfum mér

Strætó var seinn, svo ég missti af félögum mínum í skokkhópnum. Reyndar grunar mig að mætingin hafi verið dræm (jafnvel engin) vegna veðurs (norðan strekkingur og 5 stiga frost). Það kom sér því vel að mér lyndir sérlega vel við sjálfan mig. Ég fór litla Garðabæjarhringinn með afbrigðum. Tók 4x300-500 m brekkuspretti undan vindi og einn kílómetra áfanga eftir flötunum (tempó 3:34). Ég klæddi mig eftir veðri, var í flíspeysu undir vindjakkanum og með skíðahanska, mér var því aldrei kalt. Samtals hljóp ég 11 km í dag. Brekku og áfangaæfingar eru þess eðlis að þær ganga nær mér en löngu æfingarnar eða styttri á jöfnum eða vaxandi hraða. Ég hef þá trú að ein áfangaæfing í viku sé nauðsynleg ef maður vill bæta sig í 5 - 10 km hlaupi. Þær eru til þess fallnar að auka hraða í fótum og bæta sprettþolið, sem kemur sér sérstaklega vel síðasta 1 - 1,5 km í hlaupi. Ég stefni á að taka amk. eina slíka æfingu í viku.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Brrrrrrrrrrrr

Í gær var kalt, hlaupahópurinn joggaði í rólegheitum litla Garðabæjarhringinn, fullrólega kannski því mér var kalt og átti erfitt með að koma hita í kroppinn. Fingurnir voru eins og grýlukerti og ég fékk ekki hita í þá fyrr en eftir 35 mínútna hlaup. Afrakstur dagsins var 12 km á rúmlega 5 mínútna meðaltempói.
Á mánudag hljóp ég mitt eigið "Hlaupið undan vindi" hlaup úr vinnu og heim. Vonandi næ ég 40 km þessa vikuna, en á laugardaginn verður ekki þverfótað fyrir íþróttaviðburðum hjá börnunum mínum, svo hlaupin verða að víkja er ég hræddur um. Það verður bara gaman...

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Lognið á eftir storminum...

Í gær (Laugardag) var fallegt vetrarveður og hægur vindur. Ég var ekki alveg í stuðinu um morguninn að fara í hlaupahópinn, en fór 12 km sídegis á meðan lærið var í ofninum. Meðaltempó var um 5 min/km og engin þreyta í mér eftir powerade. Við keyptum lambaket frá Austurlambi og erum ekki svikin af því. Lærið bragðist dásamlega og gott að fá prótein svona stuttu eftir hlaup.
Vikuskammturinn var 29 km

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Slagveður og heitur pottur

Powerade hlaupoið fór fram með pompi og prakt í kvöld í roki og rigningu. Þegar upp var staðið hljóp ég kílómetrana 10 á 41:57, sem verður að teljast gott miðað við aðstæður. Mun hvassara var í enda hlaups en byrjun og mér skilst að það eigi enn eftir að versna.

Á þriðjudaginn lullaði ég 7 km með 4 stuttum hraðaaukningum.

laugardagur, nóvember 04, 2006

Gagn og gaman

Á fimmtudaginn var gagn, þá hljóp ég heim úr vinnu á móti roki og regni, kílómetrarnir 10 voru farnir á 44:26 eða 4:25 tempói. Ég er sáttur við það því þetta var ekkert auðvelt. Um kveldið voru étin Svið að íslenskum sið.

Í dag var gaman, því veður var með besta móti. Fremur hlýtt í veðri, gola og tært loft eftir rigningu næturinnar. Dagsskammturinn var 17 km sem farinn var á tiltölulega jöfnum hraða, þó tók ég 3 góða rykki.

Vikan var 45,5 km. Ég er dulítið þreyttur í baki. Sennilega vegna þess að nú eru meiri hlaup á malbiki en áður og ég tók 3 hraðar æfingar í vikunni. Næsta vika verður rólegri, nema í Powerade að sjálfsögðu.

Ég skipti skónum sem ég keypti hjá Daníel í Afreksvörum og fékk 1060 skóna. Hinir voru eitthvað að angra mig og þessir eru mun betri. Þjónustan var til fyrirmyndar og þarna versla ég aftur.

þriðjudagur, október 31, 2006

Morgunstund

Í morgun var hátíð á mínum bæ, þar sem Árni er 7 ára í dag. Hann fékk kastala og kalla frá hinum fjölskyldumeðlinum => mikil lukka.
Ég ákvað að hlaupa í vinnuna og gerði það með láði 9 km á 37:10 sem gerir4:05 tempó. Þetta er ágætt sérstaklega miðað við að ég hljóp heim í gærkveldi á svipuðu tempói ( mínútu hægar). Núna líður mér vel og er tilbúinn til að takast á við verkefni dagsins.

Ég stefni á að taka eina brekkuæfingu fyrir powerade hlaupið og vonast til að komast undir 40 ef veður leyfir....

mánudagur, október 30, 2006

Heimfús

Joggaði 9 km í dag, heim úr vinnu í frábæru veðri. Þessi gjörningur tók tæpar 40 mínútur.
Á laugardaginn var farinn Álftaneshringurinn hinn meiri, samtals voru farnir 17 km. Nýju skórnir sem ég keypti eru eitthvað gallaðir, því það skellur mun hærra í hægri skó en þeim vinstri. Ég var líka óvenju þreyttur í baki og hægri fæti eftir þennan rólega dag. Ég ætla að skipta skónum.... Síðasta vika gerði sig á 35 km, sem er svo sem allt í lagi, en mætti vera meira. Þessi vika verður endaslepp þar sem á morgun á yngsti sonur minn 7 ára afmæli og á fimmtudag verður farið í sviðaveislu í tilefni 114 ára ártíðar ömmu hennar Guðfinnu. Ég ætla að reyna að skokka eitt hádegi til að vega á móti þessari skerðingu, því Powerade er í næstu viku og þá á að taka á því ef veður leyfir.

þriðjudagur, október 24, 2006

Nú er frost á fróni

Hljóp úr vinnunni beint í hlaupahópinn. Eins og vanalega lagði ég 5 mínútum of seint af stað svo ég þurfti að spretta úr spori. Ég er enn aðeins eftir mig eftir haustmaraþonið svo þetta var erfitt. Við hlupum í kring um Vífilsstaðavatn. Það var skítkald og ég loppinn á fingrum, en samt frábært. Samtals 18 km í dag og núna líður mér vel :D

laugardagur, október 21, 2006

1:26:56

Í dag er ég glaður í dag mun ég fagna !!

Haustmaraþonið fór fram í dag og hljóp ég 1/2 maraþon. Ég stillti garminn á hlaupafélaga og lét hann hlaupa leiðina á 1 1/2 tíma, sem var mitt opinbera markmið. Í laumi gældi ég við að fara niður á 1:28, en þegar upp var staðið fór ég niður fyrir 1:27, sem þýðir að meðaltempó var 4:07. Veður var frábært, hægur andvari og svalt. Mér leið vel allan tímann og það var ekki fyrr en c.a. 4 km voru eftir að ég fékk smá krampa í vinstra lærið (svipað og í powerade um daginn). Við það hægðist örlítið á mér á 18. kílómetra (4:26), en ég náði að halda dampi og síðasta kílómetrann fór ég undir 4 mínútur. Mér tókst að hlaupa nokkuð jafnt og var splittið nokkuð jafnt fyrir utan 18. km.

Vikuskamturinn hljóðar upp á 42,5 km þar af 25 í dag.

Svo er árshátíð Landsbankans í kvöld og þá verður fagnað.... af hófsemd þó ;)

laugardagur, október 14, 2006

Rok og rigning

Það voru 6 hraustmenni sem hlupu frá Ásgarði í morgun. Hlaupið var móti SA strekkingi og rigningu upp í Heiðmörk. Sem betur fór var hlýtt. Skammtur dagsins 80 km með meðalhraða upp á 5:30 og meðal púls 145. Einhverjir verkir í vinstri kálfa þýða að ég tek því rólega í næstu viku, en stefni þó á 1/2 maraþon næstu helgi...

fimmtudagur, október 12, 2006

Powerade #1

Fyrsta powerade hlaup vetrarins fór fram við kjöraðstæður, 12°C og hægur andvari. Margir tóku þátt og var talað um met í því samhengi. Helst var myrkrið að hrjá mig, því helmingur leiðarinnar er óupplýstur og seinasti 1,5 km er á móti sterkum flóðljósum á Fylkisvellinum. Tíminn var sæmilegur 40:50 og giska ég á að ég hefði allavega farið þetta 30 sek betur í dagsbirtu. Flesta kílómetra hljóp ég undir 4 mínútum, nema hvað km 8 og 9 voru nálægt 5 mínútum. Ég fékk krampa í vinstra læri eftir c.a. 7 km og losnaði ekki við hann fyrr en 500 metra frá marki. Ætli ég hafi ekki verið c.a. tuttugasti í mark. Vikuskammturinn stefnir í 50 km, sem er nauðsynlegt fyrir haustmaraþonið.

mánudagur, október 09, 2006

Mér finnst rigningin góð

Hljóp heim í frábæru veðri, andvari og mildur rigningarúði eftir mat hljóp til tengdó og hjálpaði þeim aðeins við að færa til skápa. Þau eru nefninlega að poppa upp húsið sitt, endurnýja bað og eldhús ásamt því að mála. Samtals 13 km í dag, þar af fyrstu 9 á c.a. 4:30 tempói

Næstum því undir 40

Fór í Geðhlaupið um helgina og hljóp í blíðskaparveðri 10 km á 40:01 .... segi og skrifa fjörutíu mínútur og einni sekúntu. Mig vantar að losna við 2 sekúntur til að varamarkmiði ársins sé náð. Dagur Egons dró mig áfram á km 2 - 4, annars hefði ég líklega farið þetta hægar. Brautin er frekar erfið, talsvert um brekkur þannig að ég er í sjálfu sér sáttur.... en samt ekki. Nú er bara að taka á því í powerade á fimmtudaginn.

Á föstudaginn var haustfagnaður hlaupahópsins. Harpa og Engilbert voru gestrisnin uppmáluð og Gísli og Guðjón fóru á kostum.

Annars er ég ekki búinn að vera neitt sérlega duglegur að hlaupa síðustu vikur. Kílómetramagn sem hér segir:

1-7. okt 33 km (þ.m.t. geðhlaupið)
24-30. sept: 41 km, þar af voru 25 hlaupnir í frábæru veðri í Danmörku
17-23 sept: 34 km
10- 16. sept: 10,5 km
3 - 9 sept: 39 km

Ég þarf aðeins að taka í afturendann á mér og ná amk 45 km á viku ef ég á að gera einhverjar rósir.

Stefnan er að taka powerade hlaupin í vetur og haust og vormaraþon (1/2 núna í okt)

miðvikudagur, september 06, 2006

Rólegheit og hlaupið heim.

Í fyrradag hljóp ég rólega 7 km (4:59 min/km og 151 bpm) og í gær13 km talsvert hraðar (4:35 min/km og 177 bpm). Reyndar er púlsmælirinn svikull, því 2 km mældust með 193 og 203 bpm sem er frekar langsótt. Fann aðeins fyrir þreytu eftir laugardaginn annars allt í góðu.

sunnudagur, september 03, 2006

Af hverju er alltaf rok þegar ég ætla undir 40 ?

Vikan 27:8 - 2.9 28 km

Stefnt er á Selfosshlaupið og æfingar taka mið af því.

29.8 10 km, tók 5 km test í krikanum. Frekar kalt í veðri, en stillt veður. Ég hélt jöfnu tempói 3:51 - 3:52 með endaspretti, og hljóp þetta á 19:02. Frekar bjartsýnn á að komast 10km á undir 40 mínútum...

31.8: Afar rólegt 7,5 km

2.9: Fór á Selfoss og þar reyndist vera norðan strekkingur. Ég fór fyrstu 2 km á 7:48, 3. km var á 3:53 og næstu tveir á 7:49. Fyrstu 5 km voru því á 19:30 og ég farinn að kvíða fyrir endasprettinum á móti rokinu. 6. km á 3:49 og sá 7. á 3:53 (enda farinn að snúa smettinu í norður). 8. á 4:39, 9. á 4:36 síðasti km var á 4:15 og var ég frekar uppgefinn. Ég er svekktur því að ég veit að formið er á c.a. 39:30 hjá mér, en veðrið gerði þann draum að engu...

Heima er bezt....

Vikan 20.8 - 26.8: 39 km

20.8: Áfangaæfingar í Kaplakrika, 5 x 1000, tempó: 3:28, 3;28, 3:30, 3:35. Samtals 15 km. Formið er ekki eins gott og ég vildi, hefði viljað halda 3:28 alla spretti...

22.8: 12 km - 4:56 m/km - 145 bpm Jafnt og þétt....

26.9: 11,68 km - 5:10 - 162.
Ætlaði út í Kaplakrika, en þar var fótboltaleikur þannig að ég tók 5x500 m á göngustígnum milli Iðnaðarhverfisins í Garðabæ og Flatanna. Mér leið ekki vel og hætti eftir 5 spretti. Hljóp heim á 4:20 tempói og leið betur... Garmininn er eitthvað böggaður þar sem hann mældi einn legg 1,5 km sem 1 km.... veit ekki hvað er í gangi..

Allt á uppleið....

Vikan 13:8 - 19:8 29,78 km

Kveisan er í rénun, hitastigið fer lækkandi og ég er kominn á hlaupaskóna. Ég hef mistt 2 kg og er kominn niður í 64 kg. Brækurnar hanga utanámér. Fyrri vikuna heimsóttum við strendurnar í skerjagarðinum en seinni vikan er notuð til að skoða söfn og skemmtigarða.

14.8: 10,85 / 5:00 / 158
Sýruæfing og komst ég 5:22 km á mínútunum 20 meðalpúls 184, sem er allt of hátt fyrir minn smekk. Það skrifast kannski að einhverju leyti á kveisuna

17.8: 18,93 / 5:07 / 159
Lengsta hlaupið hér í Svíþjóð. Ég er að braggast og leið ágætlega. Daginn eftir er haldið heim á leið í súldina....

laugardagur, september 02, 2006

Á erlendri grund...

Vikan 6.8 - 12-8 32,20 km

Hér er heitt, 25 - 29 stig. Ég hleyp snemma á morgnana áður en hitinn verður of mikill...

7.8: 10 km meðaltempó 4:29 og meðalpúls 169. Hljóp niður að strönd og upp með henni. Km 5, 7 og 9 voru teknir á auknu tempói, en annars var ég á c.a. 4:40

9.8: 16 km / 5:06 / 159. Þægilegt skokkog engin læti

11.8: 6 km / 4:57 / enginn púlsmælir í dag... Mér líður illa í maganum og hleyp því stutt í dag. Það kom líka á daginn að ég er kominn með matareitrun. Björn er búinn að vera með þetta síðustu daga og nú er komið að mér.... Þetta sem átti að verða strembin áfangaæfing með

Vestfirðir - Svíþjóð

Vikan 30.7 - 5.8: 20,44 km

Við fórum dagsferð á Hesteyri, ánægjulegt og ógleymanlegt. Keyrðum heim á einum degi frá Ísafirði þann 1.ágúst. Fórum í Sund á Suðureyri, borðuðum nesti á Flateyri, keyptum ís á Þingeyri, skyldustopp á Hrafnseyri, pissað í Flókalundi, eldsneyti í Búðardal. Borðuðum með Danna, Hrafnhildi, Bryndísi Maríu og Ara Páli á tjaldstæðinu í Hraunsnefi sem er rétt norðan við Grábrók. Brunuðum síðan heim á miðnætti...

31.7: Hljóp inn í kaupstaðinn og til baka, 10,38 km á 48 mínútum, þetta var frekar rólegt og ég þungur á mér. Tók þó einn kílómetra á 3:34.

Næstu dagar fara í að undirbúa ferð til Svíþjóðar, og því er enginn tími fyrir skokk.

5.8: Komin til Svíþjóðar, nánar tiltekið til Tæby, sem er úthverfabær rétt norðan við Stokkhólm. Hljóp inn í Altorp skóg og villtist þar örlítið, en með hjálp GPS tækninnar tókst mér að finna rétta leið út úr skóginum. 10,09 km rólegt (52:20)

sunnudagur, júlí 30, 2006

Vestfirðir

Vikan 23.7 - 29.7: 55,17 km

24.7: Sýruæfing. Þetta er 3-fasa æfing þar sem miðjufasinn er 20 mínútna hlaup á sýrupúls, en hinir tveir eru rólegir. Ég fór 5,08 km á þessum 20 mínútum og meðalpúls var 181. Þetta er í samræmi við ástandið á mér, og ekki yfir neinu að kvarta. Púlsinn er þó óþægilega hár, hefði viljað hafa hann 175. Samtals 10,14 km. Þetta er síðasti dagur fyrir sumarfrí og stefnan er tekin á Vestfirði.

27.7: Hér er ég á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp þar sem karl faðir minn sleit barnsskónum. Frábært veður og gaman að skoða náttúruna þarna og fá sér sundsprett í lauginni. Þennan morgun hljóp ég inn og út Reykjafjörð (og aftur til baka !!) samtals 23 km. Meðalhraði 5:02 m/km og púls 159. Betra en ég átti von á. Seinni helminginn hljóp ég mun hraðar en þann fyrri eða á c.a. 4:30 tempói.

29.7: Við erum komin til Tungudals við Skutulsfjörð, betur þekkt sem Ísafjarðarkaupstaður. Þennan morgun hljóp ég upp á Breiðdalsheiði og upp á Þverfjall, en þar eru endurvarpar og loftnet umvörpum. Samtals gera þetta 22 km og hækkunnin um 700 metrar. Meðalhraði 5:47 og meðalpúls 155. Til gamans fylgja hér tempó og púlstölur fyrir alla kílómetrana:

km tempó púls
1 7:12 158
2 5:47 164
3 6:37 146
4 6:21 156
5 7:59 166
6 7:41 165
7 6:25 162
8 6:55 165
9 6:52 168
10 7:10 165
11 6:26 168
12 4:44 146
13 4:31 133
14 3:53 156 hvíld 1 mín
15 3:44 145 hvíld 1 mín
16 3:56 146 hvíld 1 mín
17 3:23 153 hvíld 1 mín
18 3:17 158 hvíld 1 mín
19 3:21 165 hvíld 1 mín
20 6:15 135 hvíld 1 mín
21 8:02 143
22 6:40 135

Mér leið vel eftir þetta, en sýnist að ein tánögl sé illa farin.....

sunnudagur, júlí 23, 2006

Snúið í gang...

Vikan 25.6 - 1.7: 23,5 km
25. 20 dögum eftir óhappið lullaði ég 3 km rólega með einum 500 m spretti, rétt til að athuga ástandið á bakinu. Það hélt ágætlega og ætla ég að fara að koma mér í gang.
27. Fór í Kaplakrikann og tók 5 km á 19:26. Ég var frekar lúinn eftir þetta. Samtals 10 km
29. Rólegt skokk 10,5 km á 6:21 tempói og 150 bpm

Næstu vikur eru markeraðar af því að ég er að mála húsið mitt og nýti til þess hvern þurran dag. Lítið hlaupið á meðan...

2.7 12 km á 5:48 tempói og 148 bpm í meðalpúls -- ástandi að skána held ég.
11.7 Álftaneshringurinn með hlaupahópnum. Askja er orðin sporlatari og tafði mig svolítið. 10 km á 5:36 tempói og 154 bpm.

Vikan 16.7 - 22.7: Fyrsta alvöru æfingavikan mín, enda næstum búinn að mála.
18. Röltum rólega í kring um Vífilssaðavatn. Gísli ritari var svekktur eftir laugavegshlaupið og endaði svo á að hrasa og hrufla sig á göngustígnum fyrir neðan Vífilsstaði. Hann og Sveinn hlupu því beina leið í Hafnarfjörð, en við Gunnar héldum okkar striki. 10 km og meðalhraði 5:52 og 143 bpm.
20. Afmælisdagur undirritaðs. Ég fékk hlaupajakka, síðar hlapabuxur, hlaupabol og drykkjarbelti frá konu og börnum. Frábær gjöf, enda kominn tími á að endurnýja flotann. Við fórum í krikann og tókum 2x3x800m. Ég finn að ég er ekki í sama formi og fyrir 2 mánuðum. Sprettirnir voru á 2:42, 2:47, 2:53, 2:54, 2:55 og 2:54. Var frekar sýrður eftir þetta og lötraði heim á leið. Síðbuxurnar voru heldur heitar í þessu veðri (17 °C). Samtals 11 km í dag
22. Fór 21 km í dag, þennan hefðbundna heiðmerkur hring með smá aukalykkju, fór líka fyrr út og rölti 4 km með tíkina. Seinustu 7 km var ég á góðu tempói (enda niður í móti). Veðrið var frábært og gott að vera með drykkjarbelti á þessum löngu hlaupum. Mér leið frábærlega allan tímann og púlsinn var stöðugur. Fór stöku sinnum yfir sýrumörk í lokin, enda fór ég á stundum vel undir 4 mín/km. Eftir hádegi hélt ég áfram að mála sæll og glaður.

mánudagur, júní 12, 2006

Bakslag

Bakið er að svíkja mig illilega. Við fjölskyldan heimsóttum Húsafell heim um hvítasunnuhelgina. Askja er á lóðaríi og var einn vonbiðillinn að sniglast í kring um bústaðinn. Það eina sem hann hafði upp úr því krafsi var afgangurinn af lambalærinu, sem einhver setti út á pall (það vill enginn viðurkenna verknaðinn en tengdafaðir minn liggur undir grun). Á mánudagsmorgun tölti ég út í skokkferð í átt að Kaldadal. Hljóp 15 km og fann mig bara mjög vel. Seinni partinn röltum við í sund og spókuðum okkur í blíðviðrinu (hann hékk þurr). Eftir sundið fóru börnin á upplásið fyrirbæri sem er þarna hjá lauginni, einhverskonar trampólín ... en þó ekki alveg. Fullorðna fólkið ákvað því miður að slást í hópinn og hoppa á þessu fyrirbæri. Þetta var bísna skemmtileg iðja þangað til ég fékk eitthvað högg upp í mjóhrygginn og fékk sáran verk neðarlega í hann. Ég staulaðist upp í bústað og reyndi að bera mig mannalega. Hvíld er góð og hélt ég að ég væri búinn að ná mér núna um helgina, en eitthvað bakslag er komið í bakið, ég er bara ekki nógu góður. Ég hvíli mig í kvöld og japla á ibufeni.

fimmtudagur, júní 01, 2006

Takmarkinu ekki alveg náð....

Heilsuhlaupið fór ekki alveg eins og ætlað var. Talsverður SV strekkingur og hafði það sín áhrif, ég myndi giska á amk 1 mínúta. Ég byrjaði á móti vindi á tempói upp á 3:50 - 3:55 fyrstu 5 km. Sjötti kílómetrinn reyndist mér erfiðastur (4:32) enda stífur mótvindur nánast alla leiðina. 7. og 8. voru hlaupnir á 4:08 í hliðarvindi örlítið á móti. 9. km var á 3:53 með þægilegan vind í bakið, en litla orku eftir. Orkan kláraðist á síðasta kílómetranum og hljóp ég hann einungis á 4:05. Tíminn endaði í 40:20 og meðalpúls 180, en garmurinn mældi leiðina 10160 metra. Menn voru sammála um að leiðin væri ívið of löng og þær mælingar sem ég heyrði af voru frá 160 upp í 240 metra umfram 10 km. Ég er nokkuð sáttur miðað við aðstæður og tel að við betri aðstæður hefði ég átt að hlaupa niður undir 39 mínútur. Nú er bara að horfa fram á veginn og undibúa sig undir næstu áskorun sem verður miðnæturhlaupið, eða mývatn eftir atvikum.

þriðjudagur, maí 30, 2006

Rólegt í rokinu

Ekki komst ég út að skokka í gær eins og ætlunin var. Í kvöld rölti ég með tíkina 9 km í austan strekkingi. Það var þægilegt þegar vindurinn var í bakið og leiðin lá niður í móti, en að sama skapi stremnara þegar öðruvísi háttaði til. Markmiðið var að halda stöðugum og lágum púls. Það tókst og var meðalpúlsinn 150 og meðalhraði 5:22. Ég hef ágætis tilfinningu fyrir heilsuhlaupinu, spáin er góð og mér líður vel.

sunnudagur, maí 28, 2006

Rólegur laugardagur

Skokkaði rólega upp í Heiðmörk í frábæru kosningaveðri. Hæg norðan gola og svalt. Ég tók tíkina með mér og þrælaði henni 18 km. Ég hélt nokkuð jöfnu tempói upp á 5:35 min/km og meðalpúls upp á 153. Ég var orðinn nokkuð þreyttur í lokin, enda orðinn vökvalaus. Vikan gerði sig á 58 km, sem er met á þessu ári. Ég kaus rétt og er nokkuð sáttur við niðurstöðurnar í mínu sveitarfélagi þar sem himininn er heiður og blár. Það var einnig gaman að sjá hvað allir komu vel út úr kosningunum þó ekki væri nema miðað við slökustu skoðanakannanir. Ótrúlegt að sjá fullorðið fólk sem ekki hefur þroska til að viðurkenna hvað það er svekkt eins og þá Dag og Villa, sérstaklega Dag. Ég túlka niðurstöðurnar í höfuðborginni þannig að kjósendur gáfu gömlu R-lista flokkunum gula spjaldið, en vilja samt ekki að íhaldið sitji eitt að kjötkötlunum. Ég verð samt að viðurkenna að mér líst hóflega vel á Frjálslynda sem aldrei hafa axlað ábyrgð og eru líklegir til að festast í prinsippunum. Ég leyfi mér því að giska á að það verði hægri græn stjórn á næsta kjörtímabili. En þar sem ég er ekki spámannlega vaxinn maður gæti mér skjátlast.

föstudagur, maí 26, 2006

Súrsætur....

Ég hef ekkert hlaupið síðan á þriðjudaginn vegna eymsla í tá á vinstra fæti. Ég er svo meiðslahræddur að ég tek enga sénsa á þessu.
Ég fór í seinni sýrumælinguna mína núna áðan og fór hún fram á svipaðan hátt og áður. Ég þraukaði samt aðeins lengur í VO2 testinu. Samtals fór ég 8,5 km á brettinu. Halldóra er röggsöm og sendi mér niðurstöðurnar um hæl og þar kom fram að:

Mjólkursýruþröskuldur: 4,27 m/sek (15,37 km/klst eða 3,54 min/km) á hlaupabretti
Hjartsláttartíðni við mjólkursýrþröskuld: 169 slög/mínStaða á BORG-skala við mjólkursýruþröskuld: 15,7

Þoltala (VO2 max): 60,7


Samkvæmt VO2 max tölunni er ég í frábærri þjálfun miðað við aldur. Svei mér þá ef ég er ekki nokkuð sáttur við það. Nú er bara að halda áfram á sömu braut. Æfa stíft, en hlusta á líkamann og láta hann njóta vafans, þ.e. ekki taka sénsa á meiðslum.

Planið fram að Heilsuhlaupinu er:

Laugardagur: 15 rólegheit
Sunnudagur: Hvíld
Mánudagur: rólegheit með nokkrum einnar mínútu hraðaaukningum rétt upp fyrir keppnistempó
Þriðjudagur: Rólegir 8 km
Miðvikudagur: Hvíld
Fimmtudagur: Heilsuhlaup, reyna að byrja ekki of hratt (3:50) og keyra á jöfnu tempói fyrstu 7 km og auka svo aðeins í, ef kraftarnir eru ekki þrotnir.

þriðjudagur, maí 23, 2006

Mjólkursýra....

Í hádeginu fór ég í mjólkursýru og súrefnisupptökumælingar hjá henni Halldóru Brynjólfsdóttur sem er að gera mastersverkefni í sjúkraþjálfun undir leiðsögn náfrænda míns Þórarins Sveinssonar. Prófið er þannig uppbyggt að eftir létta upphitun er ég látinn hlaupa á byrjunarhraða í 3 mín 30 sek hvíld þar sem tekin er blóðprufa og síðan 4 mín og tekin blóðprufa. Hraðinn er aukinn um 10% og hvílt í 1-2 mín. Þetta er endurtekið þangað til prófarinn er sáttur við mjólkursýrumagnið. Ég þurfti að hlaupa 4 lotur, byrjaði í 12,4 og endaði í 16,6 km/klst. Púlsinn var nokkuð góður fannst mér og ég held að ég sé að komast í hrikalegt form, alla vega miðað við undangengin ár.

12,4 km/klst (4:48 min/km) - 147 bpm
13,7 km/klst (4:22 min/km) - 155 bpm
15,1 km/klst (3:59 min/km) - 165 bpm
16,5 km/klst (3:36 min/km) - 176 bpm

Þegar öllu þessu er lokið er ég látinn hvíla í c.a. 5 mínútur og sett á mig gríma og tengdur við tæki sem mælir súrefnisupptöku. Brettið er stillt á upphafshraða (12,4 km/klst) og hraðinn aukinn um 10% á mínútu fresti. Ég þraukaði í 5 og hálfa mínútu og endaði í 20 km/klst eða rétt undir 3 min/km tempói og púlsinn var kominn upp í 186 þegar ég hætti.
Ég var þokkalega búinn eftir þetta, en fljótur að jafna mig. Samtals hljóp ég 10 km á brettinu. Ég fer svo aftur næsta föstudag, þá ætla ég að reyna að pína mig aðeins lengur í VO2 testinuþ sjáum til hvernig það fer.

Seinnipartinn fór ég með Garðabæjarhópnum í rólegt jogg í kring um Garðabæ og síðan fylgdi ég Hafnfirðingunum, sem voru í meirihluta áleiðis inn í Hafnarfjörð. Ég gat ekki stillt mig um að rykkja þrisvar sinnum á leiðinni, sem þýðir kannski að ég hefði getað tekið örlítið betur á því í mjólkursýrumælingunni. Samtals gerðu þetta 10 km og því 20 Km í dag, sem er bísna gott þegar ég á í hlut.
Á morgun tek ég því rólega og kannski læðist maður í rólegt skokk á upstigningardagsmorgun. Ég er reyndar eitthvað aumur í einni tá og jarka á vinstri fæti svo það er hugsanlega skynsamlegt að taka tveggja daga hvíld .... nú eða stunda einhverja aðra líkamlega iðju eins og hjólreiðar og garðyrkju.

mánudagur, maí 22, 2006

Sunnudagur til sælu

Það fór minna fyrir hlaupum um helgina en til stóð. Laugardagurinn fór í að fylgjast með dóttur minni á fimleikasýningu og garðvinnu. Kvöldið fór svo í að horfa á evróvisionbreim og saltflögusukk. Ég skrölti 12 km á sunnudagsmorguninn á rólegu temói, seinni hluti dags fór í grjótburð. Það er kannski ágætt að taka smá upper-body æfingar með ;)
Einungis voru hlaupnir 29 km í síðustu viku, planið þessa vikuna er að gera aðeins betur og fara allavega 45 km. Það eru þá 33 km eftir til að ná því markmiði.

fimmtudagur, maí 18, 2006

Jafnt og þétt

Fór í kaplakrika á meðan Eurovisionbeljurnar bauluðu. Tók 5x1000 með 2:30 mín hvíld sem innihélt 200 m jogg, hvíldi 3 mín fyrir síðasta sprett. Þetta voru mjög jafnir sprettir eða 3:32, 3:31, 3:30, 3:32, 3:30 eða meðal hraða upp á 3:31. Þetta þykir mér gott miðað við að hafa gleypt í mig eina pulsu fyrir æfinguna. Samtals hljóp ég 10 km í dag. Til samanburðar þá var meðaltíminn í sambærilegri æfingu 8.maí var 3:36 þann og 17. apríl 3:46.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Rólegheit og brekka dauðans

11 km rólegt jogg fyrir utan eina brekku á göngustígnum við Hnoðraholt og smásprettur niður flatirnar. Veður ágætt og úrkoma í grennd

mánudagur, maí 15, 2006

Brekkur + 3K

Síðasta vika var frekar róleg í hlaupaæfingum á fimmtudag fór ég upp í Heiðmörk með skokkhópnum tók nokkrar brekkur, það var engin tímamæling, en ég tók vel á því. Samtals voru 12 km hlaupnir og vikan því gerð upp á 35 km.
Í gærkveldi fór ég niður í Kaplakrika og tók 3 km test á tartaninu í kvöldsvalanum. Ég hljóp á 10:56 og er sæmilega sáttur miðað við að hafa verið að höggva niður skóginn í garðinum mínum í dag. Kílómetrarnir voru hlaupnir á 3:37; 3:42; 3:37. Nú er bara að vinna í að taka 5 sek af hverjum þeirra og þá er ég nokkuð sáttur. Stefnan er sett á Heilsuhlaupið 1. júní og kannski fer ég í Breiðholtshlaupið um næstu helgi, en ég ætla þá frekar að nota það sem gott tempóhlaup og keyra mig vel út á næstu fimmtudagsæfingu.

mánudagur, maí 08, 2006

Rólegheit og sprettir

Í gær sunnudag fór ég 9 km mjög rólega eða á 50 mínútum. Í kvöld tók ég hinsvegar vel á því í kaplakrika. 3 km upphitun síðan 5x1000 með 200m joggi og 75 - 120 sek hvíld á milli, samtals hljóp ég 13 km.
Áfangarnir voru á 3:50, 3:37, 3:29, 3:26, 3:31 mín/km. Þetta er töluverð framför frá því 17. apríl en þá voru tímarnir 3:57, 3:48, 3:46, 3:45, 3:35 með lengri hvóldum á milli.

laugardagur, maí 06, 2006

Danmörk sub4

Nú í vikunni var ég á Oracle námskeiði í Danmörku, nánar tiltekið í Gentofte. Gentofte er lítill svefnbær/hverfi rétt norður af Kaupmannahöfn. Áður en ég fór á námskeiðið heimsótti ég systur mína og hennar fjölskyldu í Kolding. Það var mjög gaman. Í Kolding keypti ég mér New Balance 1023 hlaupaskó. Þetta eru frekar léttir æfingaskór með góðri dempun (330 g).
Á 5 dögum afrekaði ég að hlaupa 53,5 km. Svo langt hef ég aldrei hlaupið áður á svo skömmum tíma. Rétt hjá Gentofte Hotel er Gentöfte Vatn. Það er lítið vatn, svipað og tjörnin okkar í Rvk. Í kring um það liggur 2,6 km malarstígur. Á þessu stíg hljóp ég. Hlaupadagbókin er á þessa leið:
  • 1. maí: Ég hljóp með Tómasi mági 10 km í kring um Vamdrup, sem er 7000 manna bær rétt fyrir utan Kolding. Þetta var frekar rólegt hlaup meðahraði 4:46 og meðalpúls 159
  • 2. maí: 9,5 km í kring um Gentofte vatn. Prógrammið var 600 m - 2600 m - 600 m sprettir. Tempóið á langa sprettinum var 3:36. Ég er sáttur við það
  • 3.maí: 16 km á meðaltempói 4:37. Við þetta er ég mjög sáttur. Hröðustu 10 km voru u.þ.b 4,20 tempó. Þetta var afbrigði af píramídaæfingu. Ég byrjaði rólega en jók tempóið jafnt og þétt fram að miðbiki hlaups, en hægði svo rólega á ferðinni. Þetta er mjög góð æfing að mínu mati
  • 4.maí: Ekkert hlaupið þar sem ég var að vinna um nóttina. Hvíld er líka góð
  • 5.maí: Nú hljóp ég 10 km á undir 40 mínútum !! Þetta þýðir að formið er að verða nokkuð gott. Samtals hljóp ég 18 km í dag.

Ég er orðinn sannfærður um að hlaupa heilsuhlaupið vel undir 40 mínútum. Nú er bara að halda dampi og forðast meiðsli....

laugardagur, apríl 29, 2006

Haustið er komið !!!

Í morgun byrjaði ekta Íslensk slagveðursrigning, ekta septemberslagveður. Ég lét hana ekki aftra mér í að hlaupa ríflega 12 km á þægilegu tempói. Ég tók þó aðeins á upp brekkuna hjá Ásahverfi, móti vindi þaut ég upp á tæplega 5 mínútna tempói í c.a. 500 metra. Við tíkin komum hundblaut af hlaupunum. Eftir hádegi förum við að skoða lömbin og hvolpinn í sveitinni.

Vikan var góð. hlaupnir voru 44,5 km og hjólaðir 22. Formið er allt að koma og ég hlakka til að fara í heilsuhlaupið. Ég stend ennþá við að fara undir 40 mínútur.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Vorið er komið !!

Vorið er komið, og vonandi til að vera. Ég fékk mikla hreyfingu í dag. Hjólaði í og úr vinnu, tók reyndar strætí hluta leiðarinnar. Svo tók ég 9 km hring í hádeginu. Ég fór sömu leið og ég hljóp á þriðjudaginn og reyndist hann vera 9,3 km eins og borgarvefsjáin sagði. Ég er helst á því að ég hafi hlaupið þetta á 40 mín í stað 50 þar sem ég var nú bara með skífuklukkuna mína og hef eitthvað ruglast í ríminu. Kemur fyrir besta fólk.
Hljóp svo með hlaupahópnum upp að Vífilstaðavatni þar sem hlaupið var í kring um vatnið á keppnishraða. 2,52 km voru hlaupnir á 9:39 sem gerir 3:50 tempó. Ég er þokkalega sáttur við það miðað við allt. Samtals hljóp ég 13,2 km og eru þá kílómetrar vikunnar orðnir 32,5.
Á morgun hvíli ég....

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Hlaupið í hjarta Reykjavíkur

Ég hljóp í hádeginu í 40 mínútur, samkvæmt mælingu á borgarvefsjánni reyndist þetta vera rétt um 9,3 km. Fann aðeins til í ristinni undir lokin. Vonandi eru gömul meiðsl ekki að taka sig upp. Ætla að taka því rólega fram að helgi, því ef að þetta eru gömlu meiðslin þýðir þetta 6 mánaða stopp og ég má ekki við því....
Kannski maður fari að uppfæra skóbúnaðinn.

sunnudagur, apríl 23, 2006

Sunnudagur til sælu

Staulaðist 10 km með tíkina í þokkalegu veðri seint um kvöld. Þetta var á rólegu nótunum. Ég fór í norðurbæ hafnarfjarðar og mældi víðavangshlaupshringinn. Reyndist hann vera 2,2 km eins og mig grunaði.

Björn var að koma frá Akureyri þar sem hans flokkur varð Íslandsmeistari í blaki. Það er því stoltur faðir sem leggst á koddann í kvöld.

laugardagur, apríl 22, 2006

Heiðmörk í frábæru veðri

Í morgun fór ég með Gísla og co. upp í Heiðmörk. Við fórum á þokkalegu tempói, svona í kring um 5:30. Gísli dró mig og Grétar upp 'stóru brekku' sem er við endann á vífilstaðahlíðinni. Brekkan tók vel í, en ég er mjög sáttur við hvað ég fór hana létt. Held að ég sé að komast í ágætis 10 km form. Nú er bara að stefna á að fara undir 40 mín í heilsuhlaupinu. Ætli formið sé ekki í kring um 41 mínútu í dag.
Samtals hljóp ég 18 km í dag og vikan 48 km, sem er umfram áætlun.

Áætlun næstu viku hljóðar upp á 50 km ... sjáum til hvort það náist.

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Gleðilegt sumar

Sumarið er komið og fórum við fjölskyldan í Víðavangshlaup Hafnarfjarðar í því tilefni. Að vísu fór laukurinn ekki með þar sem hann þurfti að klára heimanám, sem hann var kominn með í vanskil vegna veikinda í þarsíðustu viku.

Allir komu í mark og stóðu sig vel. Ég bætti minn besta tíma um 17 sekúntur og er að koma mjög vel undan vetri miðað við undangengin ár. Ég hljóp semsagt kílómetrana tvo á 8:06. Reyndar eru þetta ríflega 2 km, myndi gizka á 2,2 - 2,3 km. Svo hljóp ég 5,2 km eftir hádegismat þannig að dagurinn gerði sig á 7,5 km. Vikan er því komin upp í 30 km.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Er vorið að koma ... aftur ?

Í gær fór ég með skokkhópnum rólega 11 km. Líðanin nokkuð góð og mér finnst hitastigið vera að þokast í rétta átt. Kannski næ ég 45 km þessa vikuna. 22 komnir í hús og 23 eftir.

mánudagur, apríl 17, 2006

Þetta er allt að koma.

Í dag fór ég út í krika og tók 5x1000 með 200 m joggi á milli og 90 sek hvíld. Hljóp svo lengri leiðina heim á frekar stífu tempói. Þetta var semsag góð áfanga og tempóæfing hjá mér í dag eftir frekar rólega viku á undan (3 x 10-11 km rólegt). Áfangarnir voru sígandi 3:57, 3:48, 3:46, 3:45, 3:35 og leið mér nokkuð vel eftir þetta. Ég held að ég sé búinn að jafna mig eftir 200 metra sprettina hér í þarsíðustu viku. Ætli 10 km formið sé ekki að síga í 42 mínúturnar.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Skýrsla

Ég hef verið latur að skrifa, og er ekki úr vegi að rifja upp hvað á daga mína hefur drifið síðan í janúar.

Ég hef jafnað mig fullkomlega í bakinu, en var lengi í gang í hlaupagírinn. Ég gæti komið með einhverjar afsakanir, en ætla að geyma það fyrir sjálfan mig.

Ég afrekaði að fara 1/2 maraþon núna í mars og hljóp á þokkalegum tíma 1:37:40. Opinber tími er reyndar 2:00:01 sem stafar af því að ég mætti of seint í hlaupið. Mér leið ágætlega í hlaupinu. Hafði hlaupið 18 km laugardaginn á undan og er að koma nokkuð vel undan vetri.

Í dag hljóp ég 2x10x200 metra í krikanum með skokkhópnum. Veður var kalt og stíf vestanátt sem gerði oddatöluleggina erfiða. Ég sprengdi mig í fyrra settinu og fór því rólega af stað í seinna settið, en náði þar að auka tempóið jafnt og þétt frá 45 sek niður í 34 sek. Ég er bísna ánægður með þetta.

Björn sonur minn var blessaður á sunnudaginn var í Veginum. Haldin var veisla honum til heiðurs og tókst hún með afbrigðum vel. Við hjónin vorum í spennufalli daginn eftir, en ánægð mjög. Nú eru 5 ár í næstu törn, en þá verður önnur unglingablessun og vonandi stúdentsútskrift... á meðan geri ég eitthvað annað skemmtilegt.