mánudagur, júní 12, 2006

Bakslag

Bakið er að svíkja mig illilega. Við fjölskyldan heimsóttum Húsafell heim um hvítasunnuhelgina. Askja er á lóðaríi og var einn vonbiðillinn að sniglast í kring um bústaðinn. Það eina sem hann hafði upp úr því krafsi var afgangurinn af lambalærinu, sem einhver setti út á pall (það vill enginn viðurkenna verknaðinn en tengdafaðir minn liggur undir grun). Á mánudagsmorgun tölti ég út í skokkferð í átt að Kaldadal. Hljóp 15 km og fann mig bara mjög vel. Seinni partinn röltum við í sund og spókuðum okkur í blíðviðrinu (hann hékk þurr). Eftir sundið fóru börnin á upplásið fyrirbæri sem er þarna hjá lauginni, einhverskonar trampólín ... en þó ekki alveg. Fullorðna fólkið ákvað því miður að slást í hópinn og hoppa á þessu fyrirbæri. Þetta var bísna skemmtileg iðja þangað til ég fékk eitthvað högg upp í mjóhrygginn og fékk sáran verk neðarlega í hann. Ég staulaðist upp í bústað og reyndi að bera mig mannalega. Hvíld er góð og hélt ég að ég væri búinn að ná mér núna um helgina, en eitthvað bakslag er komið í bakið, ég er bara ekki nógu góður. Ég hvíli mig í kvöld og japla á ibufeni.

Engin ummæli: