sunnudagur, maí 28, 2006
Rólegur laugardagur
Skokkaði rólega upp í Heiðmörk í frábæru kosningaveðri. Hæg norðan gola og svalt. Ég tók tíkina með mér og þrælaði henni 18 km. Ég hélt nokkuð jöfnu tempói upp á 5:35 min/km og meðalpúls upp á 153. Ég var orðinn nokkuð þreyttur í lokin, enda orðinn vökvalaus. Vikan gerði sig á 58 km, sem er met á þessu ári. Ég kaus rétt og er nokkuð sáttur við niðurstöðurnar í mínu sveitarfélagi þar sem himininn er heiður og blár. Það var einnig gaman að sjá hvað allir komu vel út úr kosningunum þó ekki væri nema miðað við slökustu skoðanakannanir. Ótrúlegt að sjá fullorðið fólk sem ekki hefur þroska til að viðurkenna hvað það er svekkt eins og þá Dag og Villa, sérstaklega Dag. Ég túlka niðurstöðurnar í höfuðborginni þannig að kjósendur gáfu gömlu R-lista flokkunum gula spjaldið, en vilja samt ekki að íhaldið sitji eitt að kjötkötlunum. Ég verð samt að viðurkenna að mér líst hóflega vel á Frjálslynda sem aldrei hafa axlað ábyrgð og eru líklegir til að festast í prinsippunum. Ég leyfi mér því að giska á að það verði hægri græn stjórn á næsta kjörtímabili. En þar sem ég er ekki spámannlega vaxinn maður gæti mér skjátlast.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli