föstudagur, maí 09, 2008

Flugleiðahlaupið

Mér hefur alltaf fundist orðið Flugleiðir vera fallegra en Icelandair. Icelandair er eflaust skynsamlegt nafn í markaðsstarfi erlendis, en afhverju að breyta því hérlendis ?

Nóg um það. Ég hljóp allavega þessa 7 kílómetra á 27:30 sem eru rúmum 20 sekúntum lakari árangur en í fyrra. Ég var illa fyrir kallaður, enda var ég að vinna fram yfir miðnætti kvöldið áður og fékk einungis 5 tíma svefn um nóttina. Ég fann það strax á öðrum kílómetra að þetta yrði streð. Ég sparaði mig því aðeins á 5. og 6. kílómetra til að eiga smá orku eftir fyrir endasprettinn, sem var hvortveggja í senn undan vindi og brekku.

Veður var frábært og ekki fékk ég útdráttarverðlaun frekar en fyrri daginn. Ég rifjaði það upp að ég fékk einungis ein útdráttarverðlaun í uppskeruhátíð Powerade fyrir ári síðan, þrátt fyrir að hafa tekið þátt í öllum hlaupunum. Ég held að mitt nafn hafi eitt verið eftir í pottinum þegar ég loksins fékk forláta geisladiskaspilarahaldara fyrir hlaupabelti. Mjög praktískt og mikið notað ... eða þannig.

fimmtudagur, maí 01, 2008

Hérastubbur á 39:57

Ég þreytti hérahlaup breiðabliks í dag og skreið undir 40 mínúturnar. Það er tæpri mínútu betri tími en á sama tíma fyrir ári, en þá hljóp ég Fjölnishlaupið á 40:49. Það gefur mér góðar vonir um að hlaupa Icelandair hlaupið niður á 26 mínútur að viku liðinni. Ég er svona einum mánuði betri en í fyrra, því ég hljóp heilsuhlaup Laugaskokks á 39:59 sællar minningar fyrir réttum 11 mánuðum síðan.

Nú þarf ég að taka rólegu hlaupin rólegar og lengra og tempó hlaupin hraðar.

Árni sonur minn og Ásgeir vinur hans tóku 5 kílómetrana í nefið. Ásgeir á 23:56 og Árni á 24:30. Nokkuð vel af sér vikið hjá 8 ára guttum.

fimmtudagur, apríl 17, 2008

Enginn er verri þótt hann svitni.

Skrapp í Ásgarð í gærmorgun. Hitaði upp 4 km og tók svo 18 mínúta pýramídaprógramm á level 9. Ég var frekar þreyttur og kraftlaus - ekki veit ég eftir hvað, en kláraði þetta samt. Endaði svo á 5 km á 5 mínútna tempói.

mánudagur, apríl 14, 2008

Bretti á sunnudegi

Ég tók þægilega á því í Ásgarði í gær. 11 kílómetrar á brettinu, sem inniélt 9 mínútna brekkuprógram, 30 mínútna fartlek og upphitun/niðurskokk. Ég fann ekki mikið fyrir eftirköstum Flóahlaupsins, enda stillti ég álaginu í hóf.

laugardagur, apríl 12, 2008

Fjör í flóanum

Ég ásamt Árna 8 ára syni mínum og Frosta vini hans og sálufélaga tókum þátt í Flóahlaupi Samhygðar í dag. Við vorum seinir fyrir og mættum ekki á staðinn fyrr en 5 mínútum fyrir hlaup. Ég hljóp því án upphitunar. Ég byrjaði bratt að venju á 3:42 en það dró fljótlega af mér og lullaði ég restina á c.a. 4:08 tempói. Síðasta kílómetrann hljóp ég á 3:48. Tíminn endaði í 40:22. Piltarnir stóðu sig eins og hetjur og hlupu kílómetrana 3 á 14:30. Veður var yndislegt og ég er sáttur við árangurinn. Nú er bara að skrölta undir 40 í næsta hlaupi. Eftir kaffihlaðborð var haldið í sund á Selfossi og átti ég þar notalegt pottspjall við aðra hlaupara. Nú er ég búinn að graðga í mig lambalæri. Frábær endir á góðum degi.

fimmtudagur, apríl 10, 2008

Rólegur æsingur

Tók 6x400 niðri í Kaplakrika. Fór þá á hóflegum hraða (1:28, 1:21; 1:20; 1:21; 1:20; 1:26) þar sem ég er að gæla við að fara austur fyrir fjall og taka þátt í Flóahlaupinu. Þar verður ekki stefnt á neinn sérstakan tíma heldur á góða tempóæfingu. Mér skilst að þar sé boðið upp á kaffihlaðborð og bíð ég spenntur eftir því.

Rólegheit

Þriðjudagshlaupið var mjög rólegt og þægilegt 10,5 km á klukkutíma. Mér leið mun betur en á Sunnudaginn var. Vinstri fóturinn er enn að stríða mér án þess að ég sé almennilega meiddur. Þetta finnst mér bagalegt, því ósjálfrátt hef ég tilhneygingu til að hlífa mér.... kannski er þetta merki um að skynsemin aukist með aldrinum.

mánudagur, apríl 07, 2008

Loksins loksins

Kári Steinn Karlsson bætti 32 ára gamalt met fyrrum nágranna míns Sigfúsar Jónssonar um rúmar 40 sekúntur nú um helgina. Þar með er næst lífseigasta íslandsmet í einstaklingsgreinum frjálsra íþrótta. Glæsilegur árangur hjá góðum dreng. Nú fara íslandsmetin í lengri hlaupunum að hríðfalla.

Ég hljóp ekkert út á laugardaginn, en tók stutta 10,5 kílómetra létttempóæfingu í gær. Byrjaði fyrstu 4 á 5:00 tempói, tók næstu 5 á vaxandi hraða 4:40 - 4:15 og síðusu 1,5 kílómetra á 5:00.
Ég var hálf þreyttur og gersamlega stemmingslaus.

fimmtudagur, apríl 03, 2008

Rokur

Garðabæjarhópurinn fjölmennti á rykkjaæfingu. Samtals voru teknir 10 rykkir, reyndar bættum við Grétar við einum undir lokin, þannig að þeir urðu 11 alls. Vegalengd á bilinu 100 - 500 metrar á að gizka, og tempóið mismunandi eftir því hvort farið var upp eða niður og með eða á móti vindi. Nú er ég lúinn....10,5 kílómetrar í höfn

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Skapið er að skána

Ég tók mér góða hvíld á Sunnudag og Mánuda og sleikti sárin. Ég hef ákveðið að líta jákvæðum augum á aulaskapinn í mér á laugardaginn og líta svo á að ég hafi grætt einn kílómetra !!

Í gær mætti ég í hlaupahópinn og þar var farið rólega og yfirvegað 11 kílómetra á 5:10 tempói að jafnaði. Þægilegt hlaup og góður félagsskapur. Ég hjólaði í vinnuna í morgun og síðan heim á eftir. Ætli það losi ekki 20 kílómetra.
Nú fer ég að hlaupa meira útivið með hækkandi hita og sól. Næstu tvo mánuðu stefni ég á að hlaupa eins mörg götuhlaup og ég get. Þau hlaup sem ég stefni á eru:

12.04.2008 - Flóahlaup UMF Samhygðar
24.04.2008 - Víðavangshlaup ÍR
01.05.2008 - 1. maíhlaup Fjölnis og Olís
08.05.2008 - Icelandair hlaupið
17.05.2008 - Neshlaup TKS
29.05.2008 - Heilsuhlaup Laugaskokks og Landsbankans
07.06.2008 - Húsasmiðjuhlaupið

Þetta gera 7 hlaup á 9 vikum og ég geri ráð fyrir að ná allavega að hlaupa 5 af þessum hlaupum.
Draumurinn er að hlaupa 10 km undir 39 mín, 5 km undir 18:30 og icelandair hlaupið undir 26. Hvort hann rætist kemur í ljós síðar.

laugardagur, mars 29, 2008

Hrakfarir....

Mér er tregt um tungu í dag.

Ég fór hálfa maraþonið á 1:35:15 og er hundsvekktur, ég get þó huggað við mig það að ég hef tapað á að giska 3-4 mínútum þegar ég ásamt Gunnari Páli Jóakimssyni villtist við Nauthól á bakaleiðinni. Við fundum ekki réttu leiðina inn á loftleiðalykkjuna fyrr en eftir japl jaml og fuður. Þarna brást framkvæmd hlaupsins að mínu mati, þar sem þarna eru talsverðar framkvæmdir og ekki alveg augljóst fyrir ókunnuga hvar á að beygja út af göngustígnum. Það hefði verið gott að hafa þarna einn brautarvörð.

Veðrið var ágætt, en frekar kalt og vindasamt á smá kafla. Hlaupið gekk nokkurnvegin eftir áætlun fyrstu 10 kílómetrarnir voru á 42:00 eða 4:12 tempói. Heldur fór að draga af mér seinni hluta hlaupsins, en ég hélt þó þokkalegu tempói. Ég dró uppi Gunnar Pál þegar 7,5 kílómetrar voru eftir, eða rétt áður en við komum að þessari fyrrgreindu beygju inn á lykkjuna. Ég var orðinn mjög stífur og sýrður í lærum og hljóp því síðustu 7 kílómetrana meira af vilja en mætti, enda hlaupagleðin fokin út í veður og vind. Ég hafði þó af að taka endasprett síðustu 150 metrana.

Ég geri ekki ráð fyrir að hafa náð undir 1:30 í eðlilegu hlaupi, en örugglega undir 1:32. Ég er því þokkalega sáttur samkvæmt ánægjustikunni.

Þetta er met vika í kílómetum talið, 58 kílómetrar í húsi.

fimmtudagur, mars 27, 2008

5k á saltketshraða

Ég vaknaði af sjálfsdáðum kl 6 í morgun og fór rólega 5 kílómetra í ræktinni á hraðanum 5:30. Púlsinn var á bilin 140 - 145, þannig að þetta var frekar þægilegt. Nú hvílist ég vel fram að hálfþoni.

þriðjudagur, mars 25, 2008

Blöðrur á þriðjudegi

Ég skrapp niður í Ásgarð og hljóp samtals 10 kílómetra í tveimur lotum. Fyrri lotan var á 25 mínútum, byrjaði í 6:00 tempói og endaði í 4:34. Seinni lotuna tók ég 1. 3. og 5 á 5:00 tempói og 2. og 4. á 4:42. Ég var nokkuð sprækur miðað við æfingu gærdagsins, en fékk samt risastóra blöðru á vinstri stóru tá. Nú tek ég því rólega fram að helgi ... en þá er ég að spá í að spreyta mig á hálfu maraþoni. Ég hef enga tilfinningu fyrir hálfmaraþon forminu en ánægjuskalinn er eftirfarandi:


Meira en 1:35 - Svekktur og fer ekkert í felur með það
Minna en 1:35 - Svolítið súr, en ber mig mannalega
Minna en 1:33 - Sæmilega sáttur og ekki loku fyrir það skotið að ég brosi út í annað
Minna en 1:30 - Mjög sáttur
Minna en 1:26:56 - Verulega ánægður, enda bæting. Ég mun bjóða Gísla ritara upp á hákarl ef þetta gerist
Minna en 1:25 - Ég mun mæta í næsta sjósundtíma á miðvikudaginn eftir viku (og bjóða Gísla upp á hákarl)

mánudagur, mars 24, 2008

Sukkjafnað á páskum

Ég tók mér frí á Páskadag og naut þess að nýta hann með fjölskyldunni. Í morgunsárið bakaði ég brauðbollur og bræddi eitt páskaeggið, sem var falið inni í bakaraofninum í leiðinni. Allt bjargaðist þetta að lokun þar sem ég fórnaði páskaegginu mínu á altari sáttfýsinnar.

Í dag hætti ég mér hinsvegar í musteri líkamans, nefninlega í World Class í laugum. Þar var allt of mikið af fólki flestir líklega að sukkjafna vegna páskasteikanna. Mér líkar betur við WC í Hafnarfirði, nýrri tæki og færra fólk. Sjálfur hljóp ég alls 20 kílómetra á brettinu á samtals 93 mínútum, og tel ég þá að fullu sukkjafnað og ríflega það. Æfingin samanstóð af:

  • 3 km upphitun á 5:00 tempói (15mín)
  • 5 mínútna hvíld
  • 10 km sportprógram á level 4 (síðustu 2 á level 2). Meðalpúls á að giska 175, sem er bísna hátt. (45mín)
  • 1 km niðurskokk (5 mín)
  • 5 mínútna hvíld
  • 4,6 kílómetrar á þokkalegum hraða (20 mín)
  • 1,4 km niðurskokk (8 mín)

Ég er þreyttur en ánægður eftir þetta. Ristin er til friðs, og tel ég það skýrt merki um að ég sé ekki slasaður. Við hjónin viðruðum hundinn og síðan var farið í bíó með tvö börn.

sunnudagur, mars 23, 2008

Rólegt og stutt

Ég mætti í hlaupahópinn í fyrsta skipti í háa herrans tíð. Þar var fámennt en góðmennt. Ég var fann fyrir smáverk í ristinni þannig að ég hljóp einungis 9 kílómetra mjög rólega, eða á ríflega 50 mínútum. Seinni partinn fór fjölskyldan í Skálafell á skíði. Um kveldið ver etinn fylltur kjúklingur og kneifað kókið með.

Þessa vikuna voru hlaupnir 53 kílómetrar. Hvort sú næsta verður jafn umfangsmikil skal ósagt látið.

föstudagur, mars 21, 2008

Logn og léttskýjað

Í dag er dásamlegt veður, hiti í kring um frostmark, logn og léttskýjað. Ég hljóp í dag 10 kílómetra á frekar hröðu tempói 4:15. Þetta reyndist mér frekar létt og er ég bjartsýnn á góðan árangur í vor. Ætli 10 km keppnisformið hjá mér sé ekki komið undir 40 mínúturnar.

þriðjudagur, mars 18, 2008

13 kílómetrar á einu bretti

Tók góða brettaæfingu í morgun. Upphitun 2 km og síðan 10 km prógramm á hraða 4:30 og level 4 mestan part (lækkaði niður í 2 - 3 í c.a. 1,5 km). Endaði á einum kílómetra á þokkalegum hraða.

Tími: 45:00
Meðalpúls: 168
Hækkun: 120 m
Brennsla: 795 kkal

Formið er á uppleið, enda uppsker maður eins og sáð er....

Nú er ég kominn með 34 kílómetra frá því á sunnudag.

mánudagur, mars 17, 2008

Langt og hratt

Ég er farinn að hlaupa úti og finn að hlaupaformið er allt að koma til.

Á föstudaginn fór ég með vinnufélögum mínum í 8,5 kílómetra hádegisskokk. Það var farið rólega yfir eða á 50 mínútum rétt tæpra 6 min/km. Þetta var afar þægileg og svitalaust að mestu.

Í gær (sunnudag), hljóp ég í blíðskaparveðri út á Álftanes. Kílómetrarnir 15 voru farnir á 67:15 sem gerir meðaltempó upp á 4:29. Mér leið vel og fann engin eymsli af neinu tagi. Ég var reyndar frekar þreyttur seinna um daginn, en það skrifast að hluta til á það að ég var að vinna aðfaranótt laugardags.

Í morgun tók ég tækin í World Class með áherslu á fætur. Ég er í þokkalegu ástandi þar. Upphitun var 3 km á skíðavél og eftir lyftingarnar hljóp ég 2 km á 3:45 tempói og 1 km á 12. Samtals 6 km í dag....

Hvað morgundagurinn ber í skauti sér veit ég ekki, en stefnan er tekin á 10 kílómetra sport prógramm á level 4, hraða 13,3 km/klst (4:30).

miðvikudagur, mars 12, 2008

Þetta er allt að koma

Á Sunnudaginn tók ég létta pýramídaæfingu í Ásgarði, þ.e. á erfiðleikastigi 9 og kláraði það nokkuð þægilega (ef það er þægilegt að hlaupa í 14% halla á 8,6 km/klst). Samtals 8 km í hús

Í morgun vaknaði ég fyrir allar aldir og tók 10K prógramm á brettinu í World Class á erfiðleikastigi 2 og 4:30 hraða. Það var frekar létt fannst mér. 13 kílómetrar í dag.
Þetta er allt að koma.

miðvikudagur, mars 05, 2008

Góð brettaæfing

Ég fór snemma að sofa í gærkveldi, því ég hafði verið að vinna frameftir nóttina áður. Ég var því vaknaður fyrir klukkan 5 í "morgun". Tók góða brettaæfingu í ræktinni. Tíu mínútur í upphitun og 10 kílómetra á brekkuprógrammi samtals 12 km. Hraðinn var 4:30. Ég byrjaði á level 5, en sá fljótt að ég gæti ekki haldið þessum hraða. Ég ákvað að halda frekar tempóinu og lækkaði mig því niður í level 3 og svo 1. Niðurstaðan eftir þessa æfingu var:

Tími: 44:58
Meðalpúls: 173 bpm
Hækkun: 101 m

Ég svitnaði heil ósköp. Þessa æfingu ætla ég að gera vikulega, og reyna að halda þessum hraða á level 2.

Nú ætla ég að fara að hlaupa meira, og lyfta minna. Stefnan er tekin á 2 hlaupaæfingar á bretti, ein úti og ein á braut. Svo lyfti ég 1-2 í viku.

mánudagur, mars 03, 2008

Ekki dauður enn...

Ég hef verið bísna latur við þetta blogg síðan í September. Ástæðan er einföld, ég lennti í meiðslum og kom mér ekki almennilega í gang fyrr en um áramótin.
Ég strengdi mér það áramótaheit að fara fyrr að sofa á kvöldin, sem ég hef nokkurn vegin staðið við. Svo keypti ég mér þriggja mánaða kort í World Class og hef samviskusamlega mætt þangað þrisvar í viku. Mér leiðast lóðalyftingar og finn að þetta er að fara að verða gott. Ég þarf bara að þrauka 4 vikur í viðbót.

Ég ákvað að vera skynsamur og fara mér hægt í hlaupin. Byrjaði mjög rólega á bretti um miðjan janúar og hef smám saman aukið magnið. Ég fann fyrir smá þreytu í hné framan af, en er gersamlega einkennalaus í dag.

Ég tók svo þátt í tveimur innanhússmótum í febrúar og mars. Fyrst meistaramóti Íslands í öldungaflokki þar sem ég hljóp 60 metra á 8:58, sem ég er mjög sáttur við miðað við að ég kann ekkert á svona hlaup. Síðan hljóp ég 200 metra og 800 metra með 15 mínútna millibili. Tímarnir voru 28:49 og 2:40,42. Ég var nett sýrður í 800 metrunum eins og tíminn gefur til kynna. Ætli ég eigi ekki að geta hlaupið þetta á 2:25 eins og ástandið á mér er í dag. Daginn eftir fór ég 3000 metrana á 10:53,50. Ég er mjög sáttur við þann tíma miðað við ástundun undanfarinna vikna.

Á þriðjudaginn var plataði Steinn mig á brautina og tók ég 3x400, 1x200, 1x300, 5x200 og 1x800. Tímarnir á 200 voru um 34-36 sek, 300 á 52, 400 á 73-75 og 800 á 2:44. Mér leið nokkuð vel eftir þetta.

Nú um helgina tók ég svo þátt í NM öldunga innanhúss og hljóp 3000 metra á 10:48,17 og 1500 metra á 4:58,87. Ég fór allt of bratt í 3000 metrana og hef örugglega glatað þar 10 til 15 sekúntum. 1500 metrarnir voru teknir af meiri skynsemi eins og tímarnir gefa til kynna. Ég hlaut brons í báðum hlaupum.

Framtíðin er óviss, en ég stefni á að æfa betur á brautinni í framtíðinni og einbeita mér að 1500 - 10000 metrum.... og reyna að forðast meiðsli