mánudagur, mars 24, 2008

Sukkjafnað á páskum

Ég tók mér frí á Páskadag og naut þess að nýta hann með fjölskyldunni. Í morgunsárið bakaði ég brauðbollur og bræddi eitt páskaeggið, sem var falið inni í bakaraofninum í leiðinni. Allt bjargaðist þetta að lokun þar sem ég fórnaði páskaegginu mínu á altari sáttfýsinnar.

Í dag hætti ég mér hinsvegar í musteri líkamans, nefninlega í World Class í laugum. Þar var allt of mikið af fólki flestir líklega að sukkjafna vegna páskasteikanna. Mér líkar betur við WC í Hafnarfirði, nýrri tæki og færra fólk. Sjálfur hljóp ég alls 20 kílómetra á brettinu á samtals 93 mínútum, og tel ég þá að fullu sukkjafnað og ríflega það. Æfingin samanstóð af:

  • 3 km upphitun á 5:00 tempói (15mín)
  • 5 mínútna hvíld
  • 10 km sportprógram á level 4 (síðustu 2 á level 2). Meðalpúls á að giska 175, sem er bísna hátt. (45mín)
  • 1 km niðurskokk (5 mín)
  • 5 mínútna hvíld
  • 4,6 kílómetrar á þokkalegum hraða (20 mín)
  • 1,4 km niðurskokk (8 mín)

Ég er þreyttur en ánægður eftir þetta. Ristin er til friðs, og tel ég það skýrt merki um að ég sé ekki slasaður. Við hjónin viðruðum hundinn og síðan var farið í bíó með tvö börn.

Engin ummæli: