miðvikudagur, janúar 31, 2007

Ég er brettatöffari

Síðasta vika var frekar klén, en þessi ætlar að verða skárri. Samtals hef ég lagt að baki 27 km og stefni á amk 60, með löngum laugardegi.

Ég komst ekki í hlaupahópinn á laugardaginn, en rolaðist 7 km á 40 mínútum á sunnudeginum. Tók tíkina með og var hún frekar leiðinleg þennan dag og nennti ekki að hlaupa. Ég þurfti því að draga greyið hálfpartinn á eftir mér. Það var rigningarúði og ég ekki í stuðinu.


Tók brekkupýramýdann í gærkveldi (3,36 km). Byrjaði á erfiðleikastigi 10 og hélt hann út í c.a. 9 mínútur og minnkaði þá hraðann hressilega, enda hallinn 14% og ég orðinn andstuttur. Jók þó aðeins við ferðina í lokin. Þegar ég held út 18 mínútur á 10 er ég orðinn nokkið góður held ég. Þessi æfing finnst mér hjálpa mér mikið í brekkuþoli. Að öðru leyti var þessi æfing 2 km upphitun og 2,6 km á vaxandi hraða, byrjaði í 13 km/klst og endaði í 18-20 km síðustu 200 metrana. Samtals 8 km. Viktin var jákvæð og sýndi 67,4 kg. Ég stend enn við að vera kominn niður í 64-65 kg í vor.

Í kvöld var hlaupinn stóri Garðabæjarhringurinn samtals 12 km á sléttum klukkutíma. Þetta ver negatíft splitt. Fyrri hluta leiðarinnar var ég samferða hlaupahópnum, en síðri hlutinn hljóp ég í kring um Ása hverfið og kláraði kílómetrana 12 á hitaveitustokknum. Það var launhált í kvöld.

Íslendingar féllu með sæmd í viðureign sinni við Danmörk í HM í handbolta. Miðað við höfðatölu þjóðanna unnum við hinsvegar stórsigur.

laugardagur, janúar 27, 2007

Fjör á föstudegi

Það er nóg að gera í vinnunni, þannig að það gefst minni tími til kroppatamninga en venjulega. Ég skrapp þó á brettið í kvöld og tók smá í tækin á milli setta. 7 km samtals sem samanstóð af 2 km upphitun á 10 mínútum, 3 km hratt á 11:25 og síðan 2 km þar sem ég tók 2x(500 þokkalegur hraði + 500 hratt) á samtals 8 mínútum. Þetta tók hressilega í og finn ég að formið er ekki alveg upp á sitt besta.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Strákarnir okkar.....

Strákarnir okkar spiluðu á röngunni í gær, en réttunni í dag. Ég vara samt við of mikilli bjartsýni, því það þarf að halda mótið út. Frakkaleikurinn var sigur varnarinnar með þá Alexander, Sigfús og Sverri í broddi fylkingar og Birki í geigvænlegu stuði í fyrri hálfleik.

Læddi mér á brettið eftir leikinn og tók brekkupýramídann. Byrjaði á erfiðleikastigi 10, en fann fljótt að ég var ekki í stuði í kvöld og þurfti að minnka hraðann í brattasta kaflanum. Náði þó að fara 3.35 km á þessum 18 mínútum og samtals 5 km þegar upphitun er meðtalin. Púlsinn var > 180 í 14 mínútur og telst þetta því vera góð sýruæfing. Viktin sýndi 68,5 og verð ég að fara að taka mig á til að koma henni niður í 65 fyrir maí eins og yfirlýst markmið er.

sunnudagur, janúar 21, 2007

13 - 10

13 km rólegt um Garðabæ og Kópavog í 10° frosti og stillti veðri. Veðrið var fallegt og félagsskapurinn góður.

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Seint telst ég sundmaður góður...

Ég hef aldrei verið þekktur fyrir sundfimi, þó ég teljist þokkalega syndur. Skriðsundið hjá mér er mikill bægslagangur og notast ég því mest við bringusundið og baksundið. Ástæðan fyrir því að ég er að básúna þetta er, að ég synti í kvöld heila 1100 metra á sléttum hálftíma. Lengra hef ég aldrei synt í einu. Þetta kom ekki til af góðu, því ég ætlaði á brettið. Ég uppgötvaði svo að ég hafði gleymt stuttbuxunum heima Þar sem ég er spéhræddur maður og annt um mannorðið, kunni ég ekki við að hlaupa á sundskýlunni. Sundið tók þokkalega í, þar sem ég er ekki vanur slíkri hreyfingu í þessu magni. Í heild er ég sáttur við afrekið og mikið var gott að svamla í heita pottinum á eftir.

sunnudagur, janúar 14, 2007

Gæðaæfing

Það var fjölmennur hópur sem lagði upp frá sundlaug Garðabæjar að morgni laugardags. 12 manns og ein tík fóru í halarófu upp í Heiðmörk og pjökkuðust áfram í þungu færi. Veðrið var gott, vægt frost, gola og smáhríð öðru hvoru. Það var sérstök stemming að hlaupa í gegn um fallegan furulund í hríðarkófinu. Askja mín var alsæl í snjónum lagði að baki talsvert lengri leið en ég. Þegar út á veg var komið stóðumst við Grétar ekki mátið og tókum nokkra hressandi hraðaaukningar. Að hlaupa í svona færi reynir allt öðruvísi á mann en venjulega. Ökklar og kálfar styrkjast sérstaklega og hraðaaukningarnar upp og niður brekkur taka hressilega í lærvöðva. Það sat í mér þreyta eftir Powerade hlaupið og var ég þægilega þreyttur það sem eftir lifði dags. 13,8 km lagaðir að baki í dag og vikan samtals 33 km. Þetta var góð vika og erfiðari en kólómetrafjöldinn segir til um. Nýliðarnir í hópnum eru efnilegir og það verður gaman að kljást við þá þegar líða tekur á árið.

föstudagur, janúar 12, 2007

44:20 í þæfingsfærð

Powerade fór fram í kvöld, 110 þáttakendur og stemmingin góð. Veður var ágætt, en eftir ríflega snjókomu dagsins var færið erfitt, hálkugormar voru málið. Ég byrjaði brattur, fullur sjálfstraust og hélt ágætum hraða mestallt hlaupið. Ég hengdi mig fljótlega aftan í Þórólf (nýbakaðan föður) og tókst furðanlega að halda í við hann. Rafveitubrekkan var tekin með trukki og fór ég fram úr Þórólfi, en efst í henni dó ég gersamlega og Þórólfur fór fram úr mér við annan mann (skynsamur maður Þórólfur). Ég staulaðist meðfram lóninu í mark.
Þetta var frábært hlaup og mjög góð tempóæfing.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Veikasti hlekkurinn

Joggaði rösklega heim úr vinnu 9,2 km á 40:30. Kalt í veðri, en stillt. Ein tánöglin datt af þegar ég var að snyrta þær. Táin er búin að vera að angra mig síðustu daga og endaði á þennan veg. Þetta þykir mér leitt, en sennilega er skynsamlegt að taka smá hlé frá hlaupum.

laugardagur, janúar 06, 2007

Langur laugardagur

Það var mjög gott hlaupaveður í dag, vægt frost og hægur vindur. Hlaupahópurinn var óvenju vel mannaður í dag, þar sem þrír fræknir nýliðar mættu. Allt eru þetta menn sem hafa stundað boltaíþróttir af kappi á yngri árum (án þess að ég sé að gefa í skyn að þetta séu aldraðir menn, enda yngri en ég). Hlaupið var upp með læknum og upp í Heiðmörk. Nýliðarnir skildu við okkur hjá mastrinu, en ég, Gísli, Sveinn og Grétar fórum lengri leiðina heim. Samtals hljóp ég 21 km á 2 kls og 2 mínútum, meðal púls var 142bpm. Það er langt síðan ég hef hlaupið svona langt og situr þetta rólega hlaup því meira í mér en ella.
Samtals hef ég því hlaupið 45 - 46 km í þessari viku.

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Innipúki....

Ég daðra við hlaupabretti þessar vikurnar. Í gær hljóp ég 1 km upphitun og 5 kílómetra á brekkuprógrammi þar sem hlaupið var í 2 mín/0% halla + 2 mínútur/5% halla, þetta gerði ég á stöðugum 4:36 min/km tempói.
Í kvöld fór ég niður í Ásgarð og tók 7 km á brettinu, sem skiptist þannig:
  1. Upphitun - 2 km á 5:00 tempói
  2. Píramídinn 3,3 km á 18 mínútum á erfiðleikastigi 9 , reyndar jók ég hraðann talsvert um miðbik. Næst prófa ég erfiðleikastig 10.
  3. Hratt á 0% halla 2,7 km á 10 mínútum. Byrjaði á 4:00 og jók hraðann jafnt og þétt niður í 3:20.

Á milli setta fór ég í tækin og tók maga, brjóst og handleggi. Teygði vel í heita pottinum á eftir.

mánudagur, janúar 01, 2007

Uppgjör ársins

Um áramót er til siðs að líta yfir farinn veg síðustu 12 mánaða og horfa fram til næstu 12. Heilt yfir er ég sáttur við árið. Það byrjaði ekki vel þar sem ég fór illa í bakinu á aðventunni og byrjaði ekki að hlaupa af viti fyrr en í mars. Ég kom mér í ágætis form og hljóp Heilsuhlaup Krabbameinsfélagsins á 40:20 í strekkingsvindi. Um hvítasunnuhelgina slasaðist ég aftur í baki og var frá í 3 - 4 vikur af þeim 0rsökum. Ég æfði vel í sumarfríinu, sérstaklega þegar við fórum á vestfirðina. Meðal annars fór ég inn og út Reykjarförðinn 23 km og upp á Breiðdalsheiði 2 dögum síðar 22 km. Í kjölfarið fórum við til Svíðjóðar og tókst mér að hlaupa sæmilega þar, þrátt fyrir merltingarfæratruflanir með tilheyrandi vökvatapi. Selfosshlaupið voru vonbrigði þar sem ég ætlaði að ná undir 40 mínútum, en veðrið gerði þann draum að engu. 3 km endasprettur í strekkingsmótvindi var of mikið fyrir mig. Ég hljóp 1/2 maraþon í haustmaraþoninu á 1:26:57 og var ég alsæll með það. Einnig hljóp ég 3 poweradehlaup á þokkalegum tímum. Árið endaði svo með stæl á 39:26. Þar með var aðalmarkmiði ársins náð.

Árið sem er að ganga í garð er óskrifað blað, en ég stefni á að bæta besta árangur minn í 10 km götuhlaupi. 38:21 er tími sem er viðmiðið þetta árið. Það verða liðin 10 ár frá því að ég náði þessum árangri og er því viðeigandi að reyna að bæta það. Svo stefni ég á að fara niður á 1:24 í hálfu og debútera í heilu (ég gef ekki upp áætlaðan tíma).

Á elleftu stundu !!

Langþráðu takmarki náð í gamlárshlaupi ÍR, 10 km voru farnir á undir 40 mínútum, nánar tiltekið 39:26. Aðstæður voru frábærar, logn og hiti við frostmark. Ég byrjaði hlaupið hratt og voru fyrstu 5 kílómetrarnir á 19:15. Það var launhált á Seltjarnarnesinu, þannig að það dró aðeins af mér á 6. kílómetra, en með góðri aðstoð Dags Egonssonar og spretti niður Tjarnagötuna tókst mér að ná takmarkinu.

Árið verður annars gert upp í sér pistli....