fimmtudagur, júlí 26, 2007

Hjólað og hlaupið en ekkert synt.

Ég hjólaði í og úr vinnu samtals 18 kílómetra. Endaði svo daginn með 7 yassó sprettum. Þeir voru farnir á 2:56 - 3:00 fyrir utan sá síðasti sem var á 2:45. Ég lagði hann upp þannig að fyrstu 400 metrana hljóp ég hratt og sá svo til hvað ég dugði. Ég dugði ágætlega og hljóp þessa 800 metra á jöfnu splitti. Það sat í mér þreyta eftir gærdaginn og hjólið. Mér fannst ég alltaf vera á mörkunum að fá krampa í vinstra lærið, en það slapp til. Ég er að falla úr hor, því vogin sýndi 66,2 kíló eftir kvöldmatinn. Nú tekur við sumarfrí hér innanlands. Ég ætla að reyna að vera duglegur í því...

Sama sullið

Ég skokkaði heim í gær eftir langan vinnudag. Þetta gerði ég á þessum venjulega tíma, þ.e. súmum 38 mínútum. Nú er sumarfríið að fara að bresta á og vonandi næ ég að stunda hlaupin af meiri alúð en upp á síðkastið. Viktin er komin niður í 66 - 67 kíló sem eru góðar fréttir. Nú læt ég staðar numið í léttingum og reyni að halda þessari þyngd fram á haustið.

mánudagur, júlí 23, 2007

Heiðmörkin heimsótt

Ég svaf yfir mig í gærmorgun og fór því ekki í hlaupahópinn. Í kvöld fór ég hinsvegar upp í heiðmörk í mildu veðri. Ég ákvað að fara í síðbuxum og jakka, það reyndist þjóðráð því það kom hressileg skúr á miðri leið. Hraðinn var vaxandi og líðanin ágæt, fyrir utan að ég fékk einhverja þreytuverki í hné þegar 3 kílómetrar voru eftir. Kílómetrarnir 16 voru farnir á 75 mínútum.

föstudagur, júlí 20, 2007

44 - 16081

Í dag hefur jörðin farið 44 hringi í kring um sólina og snúist 16081 hring í kring um sjálfa sig síðan ég leit dagsins ljós. Ég á semsagt afmæli í dag. Ég vaknaði í morgun við afmælissöng, og ég verð að segja að þar fer fallegasti kór heimsins. Á degi sem þessum staldra ég gjarnan við og hugleiði líf mitt, fortíð og framtíð. Ég er gæfumaður í lífinu og finnst ég vera ríkasti maður á jarðríki eigandi 3 heilbrigð og vel gerð börn og frábæra eiginkonu. Ég ætla ekki að fara með nánari útlistanir á því, en læt nægja að segja að þeir sem halda því fram að þeirra eigin börn séu fallegust og best hafa því miður rangt fyrir sér því auðvitað eru það mín börn ;)

Í gærkveldi hljóp ég mitt síðasta hlaup .... 43 ára, ég ákvað að fara niður í Kaplakrika og taka eitt 3 kílómetra test. Þegar þangað var komið var einhver fótboltaleikur í gangi og þurfti ég að bíða í 20 mínútur eftir að komast á tartanið. Það var í lagi þar sem hlýtt var í veðri og gaman að horfa á unga fríska menn eigast við á knattspyrnuvellinum. Ég fékk að sjá þrjú mörk, þar af eitt víti og meira að segja einn brottrekstur á síðustu sekúndu leiksins, en þá höfðu Haukar skallað boltann í netið hjá ÍH mönnum við lítinn fögnuð markmanns þeirra. Það endaði með því að sá þurfti að yfirgefa völlinn.

Þegar leikmennhöfðu yfirgefið völlinn læddist ég á völlinn og tók mín 3 kílómetra á vaxtandi tempói eða 3:42, 3:40; 3:35 samtals 10:57. Þetta er ágætt miðað við stopula ástundun. Hún horfir vonandi til betri vegar núna í framhaldinu.

mánudagur, júlí 16, 2007

Sveitin mín

Þetta var róleg helgi hjá mér. Við fjölskyldan vorum í Hlíðardalsskóla á móti hjá fríkirkjunni Veginum. Veður var frábært og stemmingin góð. Ég komst aðeins út að hlaupa á laugardeginum, en þá tölti ég 12 kílómetra á mjög rólegu tempói. Ég gerði þau mistök að taka tíkina með mér og heitt malbikið fór illa í þófana á henni, en það grær áður en hún giftir sig.
Á sunnudeginum fórum við lengri leiðina heim og heimsóttum sveitina mína. Sveitin mín er nánar tiltekið að Kolsholti í Flóahreppi (áður Villingaholtshreppi). Þar býr föðursystir mín og var ég þar í sveit á sumrin sem barn og unglingur. Það má segja að þar hafi ég verið alinn upp að hluta. Börn í dag fara á mis við þessa lífsreynslu og er það miður. Við fengum að sjá nýfædda kettlinga, heimalninga og náttúrulega beljur. Góð helgi að baki og vinnuvikan framundan.

Síðasta vika var þokkaleg hlaupavika 31 kílómetri.

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Grænn kostur

Ég hljóp heim úr vinnu í gærkveldi. Þetta er ferðamáti sem er í senn umhverfisvænn, heilsubætandi, ódýr og skemmtilegur. Það er ekki hægt að biðja um mikið meira .... jú ég hljóp þetta á 38 mínútum sléttum, sem ég held að sé besti tími minn á þessari leið. Það er gott því ég hef hlaupið að mikilli ákefð annan hvern dag síðan á Laugardag, og ég fór full seint að sofa nóttina áður. Ég á það nefninlega til að drolla frameftir, sérstaklega ef ég hef verið að vinna fyrr um kvöldið, ég glamra þá gjarnan á gítarinn minn - betri slökun er vandfundin. Það er við engan annan að sakast nema sjálfan mig í þeim efnum.
Ég kláraði fyrri umferðina á vegginn í gærkvöldi og ætla að klára dæmið í kvöld.

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Þetta er allt að koma...

Í gær hljóp ég heim úr vinnu á 38:15. Ég var með sprækasta móti, því þessi leið er nokkuð strembin, tvær langar og brattar brekkur í boði hússins, ég hitti þau Grétar, Ingu og Hörpu í Löngufitinni á leið niður að laug. Ég á ekki von á að komast mikið í hlaupahópinn það sem eftir lifir sumars, þar sem ég mæti yfirleitt ekki í vinnu fyrr en rúmlega 9, og þarf því að fara heim seinna en vant er. Kvöldið fór í að skafa málningu af gluggum. Við hjónin erum búin að ákveða endanlega lit á veggnum umhverfis húsið. Þannig að mér er ekkert að vanbúnaði að bretta upp ermar og klára þetta.

laugardagur, júlí 07, 2007

Landsmótshlaupið - 39:07

Ég hef verið skelfilega latur við að hlaupa síðustu tvær vikur. Einungis skrölt 9 mílómetra á saltkjötshraða. Ég gerði mér því hóflegar vonir um glæstan árangur í dag. Það ótrúlega gerðist hinsvega að ég náði besta tíma mínum í ár, eða 39:07, sem er bæting um 8 sekúntur frá Húsasmiðjuhlaupinu. Aðstæður voru frekar erfiðari í dag en þá, þannig að ég er verulega sáttur. Ég límdi mig á Þórólf, Ingólf, Ívar Adolfs fyrstu 5 kílómetrana og var furðu hress. Millitíminn eftir 5 kílómetra var 19:28 og mér leið þokkalega. Eftir 7 kílómetra var tíminn 27:07. Síðustu þrír kílómetrarnir voru erfiðir, enda slælegar æfingar undanfarið farnar að koma í bakið á mér. Ég hélt þó haus og kláraði þetta með sóma. Var talsvert á eftir Ingólfi og Ívari og vel á undan Þórólfi (sem er árangur útaf fyrir sig).

miðvikudagur, júlí 04, 2007

Maður hét Björn og var Pétursson...

Ég hef lítið hlaupið síðan 22. júní. Ástæðan er sú að síðustu tvær helgar hef ég verið upptekinn við annað, fyrst var skagamótið í knattspyrnu 7. flokks drengja og síðasta vika og nýliðin helgi var undirlögð af ættarmóti sem ég tók þátt í að skipuleggja ég skrölti þó 9 kílómetra á mánudaginn og var frekar lúpulegur.

Ættarmótið var haldið á Lýsuhóli í Staðarsveit og tókst með eindæmum vel. Þegar saman kemur frábært fólk í frábæru veðri og borða saman hvítlauks- rósmarínkryddað holulamb getur útkoman ekki verið annað en góð.

Ég frétti það um helgina að ég er víst þess vafasama heiðurs aðnjótandi að vera afkomandi Björns Péturssonar bónda að Öxl í Breiðuvík á Snæfellsnesi og konu hans Þórdísar Ólafsdóttur. Björn þessi er alræmdasta fjöldamorðingja íslandssögunnar og gegnir nafninu Axlar Björn. Hann var hengdur árið 1595 fyrir níu morð, en samsekri konu hans var þyrmt vegna þess að hún var kona eigi einsömul. Sonur þeirra Sveinn "skotti" reyndist einnig vera ógæfumaður og var hengdur hálfri öld seinna eða 1648. Hann eignaðist tvo syni, Gísla "hrók" og Halldór. Gísli fetaði í fótspor forfeðra sinna og endaði í gálganum. Áður en það gerðist eignaðist hann soninn Magnús, sem varð þeirra gæfu aðnjótandi að eignast ekki börn. Halldór komst hinsvegar ágætlega til manns og gerðist ærlegur bóndi í Eyjafirði og eignaðist heilbrigð börn að því best er vitað. Af honum er ég kominn ásamt 20000 öðrum íslendingum.

Meðal afkomenda Halldórs (og forfeðra minna) eru þeir Eiríkur Hallgrímsson (1773 -1843) og sonur hans Guðlaugur Eiríksson (1807 - 1895) sem voru annáluð hreystimenni. Bjuggu þeir á Steinkirkju í Fnjóskadal. Um Guðlaug var sagt að hann hafi verið "hið mesta hraustmenni og æru prýddur heiðursmaður". Guðlaugur þessi var langafi afa míns Aðalsteins Eiríkssonar, sem var að minnsta kosti "æru prýddur heiðursmaður" ef ekki hið fyrra líka.