mánudagur, júní 12, 2006

Bakslag

Bakið er að svíkja mig illilega. Við fjölskyldan heimsóttum Húsafell heim um hvítasunnuhelgina. Askja er á lóðaríi og var einn vonbiðillinn að sniglast í kring um bústaðinn. Það eina sem hann hafði upp úr því krafsi var afgangurinn af lambalærinu, sem einhver setti út á pall (það vill enginn viðurkenna verknaðinn en tengdafaðir minn liggur undir grun). Á mánudagsmorgun tölti ég út í skokkferð í átt að Kaldadal. Hljóp 15 km og fann mig bara mjög vel. Seinni partinn röltum við í sund og spókuðum okkur í blíðviðrinu (hann hékk þurr). Eftir sundið fóru börnin á upplásið fyrirbæri sem er þarna hjá lauginni, einhverskonar trampólín ... en þó ekki alveg. Fullorðna fólkið ákvað því miður að slást í hópinn og hoppa á þessu fyrirbæri. Þetta var bísna skemmtileg iðja þangað til ég fékk eitthvað högg upp í mjóhrygginn og fékk sáran verk neðarlega í hann. Ég staulaðist upp í bústað og reyndi að bera mig mannalega. Hvíld er góð og hélt ég að ég væri búinn að ná mér núna um helgina, en eitthvað bakslag er komið í bakið, ég er bara ekki nógu góður. Ég hvíli mig í kvöld og japla á ibufeni.

fimmtudagur, júní 01, 2006

Takmarkinu ekki alveg náð....

Heilsuhlaupið fór ekki alveg eins og ætlað var. Talsverður SV strekkingur og hafði það sín áhrif, ég myndi giska á amk 1 mínúta. Ég byrjaði á móti vindi á tempói upp á 3:50 - 3:55 fyrstu 5 km. Sjötti kílómetrinn reyndist mér erfiðastur (4:32) enda stífur mótvindur nánast alla leiðina. 7. og 8. voru hlaupnir á 4:08 í hliðarvindi örlítið á móti. 9. km var á 3:53 með þægilegan vind í bakið, en litla orku eftir. Orkan kláraðist á síðasta kílómetranum og hljóp ég hann einungis á 4:05. Tíminn endaði í 40:20 og meðalpúls 180, en garmurinn mældi leiðina 10160 metra. Menn voru sammála um að leiðin væri ívið of löng og þær mælingar sem ég heyrði af voru frá 160 upp í 240 metra umfram 10 km. Ég er nokkuð sáttur miðað við aðstæður og tel að við betri aðstæður hefði ég átt að hlaupa niður undir 39 mínútur. Nú er bara að horfa fram á veginn og undibúa sig undir næstu áskorun sem verður miðnæturhlaupið, eða mývatn eftir atvikum.